12.12.1973
Sameinað þing: 35. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1317 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

1. mál, fjárlög 1974

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki að þessu sinni fara út í það að ræða fjárlagafrv. í heild eftir þær ítarlegu ræður, sem fluttar hafa verið hér á undan mér af fulltrúum míns flokks. Ég skal að þessu sinni halda mig við það að mæla hér fyrir lítilli brtt., sem ég hef leyft mér að flytja ásamt 4 öðrum þm., og víkja aðeins örfáum orðum að tveimur til þremur ufmörkuðum atriðum öðrum.

Á þskj. 235 hef ég leyft mér að flytja brtt. ásamt þeim hv. þm. Gunnari Gíslasyni, Birni Pálssyni og Pétri Péturssyni um það, að upp verði tekin nýr liður til undirbúningsframkvæmda við uppbyggingu heilsugæslustöðva, 1 millj. kr., við sjúkrahúsið á Blönduósi. Á fjárl. yfirstandandi árs voru veittar 500 þús. kr. til sjúkrahússins á Blönduósi, að því er heimamenn telja og að því er heilbrrn. telur til undirbúnings framkvæmda við heilsugæslustöð þar við sjúkrahúsið. — Þetta fé var að hluta notað til þess að láta teikna grunnteikningar við þá framkvæmd, sem þarna er fyrirhuguð. Skipulagsuppdrættir allir lágu fyrir áður. Ef ekki fæst að þessu sinni á fjárl. næsta árs nein fjárveiting til þess að halda þarna áfram undirbúningi, er þessi framkvæmd dottin út úr þeirri röð, sem verður við uppbyggingu heilsugæslustöðva um landið á næsta ári. Sú fjárhæð, sem við flm. þessarar brtt, förum fram á, er 1 millj. kr. Sú fjárhæð er í samræmi við það, sem lagt er til, að varið verði til undirbúnings annarra slíkra mannvirkja í fjárlagatill. hv. fjvn. Þessi fjárhæð er svo lítil, að fyrir hana er ekki unnt að ráðast í framkvæmdir, einungis halda áfram þeim undirbúningi, sem hafinn er.

Til þess að færa nokkrar sönnur á það, að það hefur verið álit heilbrn., að þær 500 þús. kr., sem veittar eru á fjárl. yfirstandandi árs, hafi átt að renna til þessara undirbúningsframkvæmda, þá vil ég geta þess, að rn. greiddi beint til teikninga til undirbúnings þessa mannvirkis á yfirstandandi ári 300 þús. kr., og í því felst viðurkenning á því, að 500 þús. kr. á fjárl. yfirstandandi árs hafi átt að renna til þessa undirbúnings. En því rek ég þetta hér, að þetta er vefengt af hv. fjvn. nú.

Á síðasta ári eða við afgreiðslu fjárl. hér fyrir ári vakti ég athygli á því, hverju misrétti kjördæmi, sem ég er fulltrúi fyrir hér á hv. Alþ., væri beitt í sambandi við fjárveitingar til heilbrigðismála. Þá runnu í hlut Norðurl. v. 2% af heildarfjárveitingum til framkvæmda í heilbrigðismálum í landinu. Því skal ekki á móti mælt, að að þessu sinni er nokkur bót ráðin á fyrir kjördæmið í heild. Þó er sú bót ekki stærri en svo, að nú nema fjárveitingar til þessa kjördæmis 2.3% af heildarfjárveitingum til framkvæmda í heilbrigðismálum miðað við þær till., sem hér liggja fyrir á þskj. 204 frá hv. fjvn. Enda þótt svo fari, sem ég vonast til, að sú litla brtt., sem við 4 af þm. þessa kjördæmis höfum leyft okkur að flytja hér um 1 millj. kr. í þennan lið verði samþykkt, þá er ekki hægt að segja, að við förum fram á það, að okkar hlutur verði gerður stór í þessum efnum.

Sé aðeins staldrað við til þess að hugleiða, hverja þýðingu það hefur að láta ekki slitna röð framkvæmda við uppbyggingu þessara þjónustu stöðva í strjálbýlinu, þá vil ég vekja athygli á því, að það skiptir kannske nokkuð miklu máli fyrir það starfsfólk, sem vinnur við þessar þjónustustofnanir, hvort það sér fram á það, að aðbúnaður og aðstaða verði bætt á næstu árum eða hvort ekki verður um neinar breytingar að ræða. Á slíkum atriðum getur oltið, hvort það sérmenntaða fólk, læknar og hjúkrunarfólk, sem enn þá starfa að þessum málum úti á landsbyggðinni, haldist þar við áfram eða ekki. Það þarf ekki að tíunda það hér, að heilbrigðisþjónusta er ein sú brýnasta þjónusta, sem landsmenn allir þurfa að njóta, því að þar getur riðið á lífi og dauða hvenær sem er, eins og öllum mun ljóst vera.

Í annan stað vil ég vekja athygli á því, að þeim fjármunum, sem varið er til uppbyggingar heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa úti á landsbyggðinni; er yfirleitt ekki illa varið. Ef litið er til þess, að daggjöld á sjúkrahúsum eru víðast hvar um það bil helmingi lægri í sjúkrahúsum úti á landi heldur en gerist hér á sjúkrahúsum í Reykjavík, þá má það ljóst vera, að það er lítil fjármálaspeki í því að kreppa svo að þessum mannvirkjum úti á landsbyggðinni, að miklu fleiri sjúklingar en nokkur ástæða er til þurfi að dvelja í sjúkrahúsum hér í Reykjavík og ekki aðeins kosti til þess ærnu fé í ferðakostnað og mikilli fyrirhöfn, heldur einnig kosti það þjóðina í heild tvöfalt meira yfirleitt á hvern legudag heldur en gerist víðs vegar úti á landi. Ég vil nefna sem dæmi um þetta, að nú eru daggjöld á sjúkrahúsinu á Blönduósi 2250 kr., á sama tíma sem ég hygg, að þau séu um 5 þús. kr. hér á Landsspítalanum í Reykjavík. Það er því augljóst mál, að þeim fjármunum er vel varið, sem renna til þess að búa í haginn fyrir það, að sjúklingar geti í ríkari mæli en gerist í dag dvalist í sjúkrahúsi í sinni heimabyggð við minni kostnað, minni fyrirhöfn og á ýmsan hátt minni sálræn óþægindi heldur en að þurfa að dveljast langdvölum í sjúkrahúsum í Reykjavík, þar sem kostnaður er til muna hærri.

Ég skal ekki fara miklu fleiri orðum um þetta mál. Ég vil aðeins segja það, að sú viðbót, sem fyrirhugað er að byggja við sjúkrahúsið á Blönduósi, miðað við þær teikningar, sem fyrir liggja, er ekki stórmannvirki. Með því að samþykkja þessa till. væri þess vegna ekki verið að binda ýkjaþunga bagga, sem þyrfti að axla í framtíðinni til þess að ljúka þessum framkvæmdum. Hér er um að ræða móttöku læknis og skurðstofur og e. t. v. eina hæð ofan á móttökurýmið til viðbótar sjúkradeild sjúkrahússins. Hér er um hagkvæma framkvæmd að ræða, sem ætla má, að eftir verðlagi í dag kostaði um 30 millj. kr. Miðað við framkvæmdir í heilbrigðismálum yfirleitt er augljóst, að hér er ekki um stórmannvirki að ræða, mannvirki, sem mundu binda of þunga bagga við afgreiðslu fjárl. á næstu árum, yrði þessi till samþ.

Ég vil geta þess hér, að við atkvgr. í lok þessarar umr. mun ég óska eftir því, að þessi till. verði tekin til baka til 3. umr., þannig að tóm gefist til fyrir hv. fjvn. að taka þetta mál enn á ný til endurskoðunar, og ég vænti með þeim árangri, að n. sjálf sjái, að sjálfsagt sé að taka þessa till. upp.

Ég hafði hugsað mér að minnast örfáum orðum á einn þátt annan varðandi fjárveitingar í mitt kjördæmi, og hefði mér þótt miklum mun betra, ef hæstv. forsrh. hefði verið hér viðstaddur. Ég mun þó vekja athygli á þessu máli, þar sem hæstv. fjmrh. situr hér í salnum, en það er varðandi hafnarframkvæmdir á Siglufirði. Ég veit, að þetta mál hefur verið tekið allítarlega til meðferðar hjá hv. fjvn., en því miður hefur niðurstaðan orðið sú, að hún leggur til, að einungis verði varið til framkvæmda 3 millj. kr. á næsta fjárlagaári. Nú er það svo, að hæstv. ríkisstj. hefur af allmiklum stórhug stutt að því, að í Siglufirði yrði ráðist í það að byggja upp nýtt og myndarlegt fiskiðjuver á vegum Þormóðs ramma. Uppbygging þessa atvinnufyrirtækis er háð því, að um leið rísi hafnarmannvirki, sem að vísu er nokkuð kostnaðarsamt í framkvæmd. Heimamenn telja einsýnt, að það skuli byggt upp með þeim hætti, að reist verði stálþil, sem yrði um 120 m langt, og er talið, að mannvirkið í heild kosti um 45 millj. kr. með þeim hætti. Hafna- og vitamálastofnunin hefur nú komið með hugmyndir um aðra lausn þessa máls, þannig að byggð verði bryggja á stauruan og viðlegukantur, sem væri um 40 m langur, en þeirri leið hafna heimamenn og halda fast við þá leið, sem til þessa hefur verið ætlað að fara.

Það hefur verið talið eðlilegt, að því fjármagni, sem þyrfti að verja til þessa mannvirkis af ríkisins hálfu, eða nálægt 35 millj. kr., yrði skipt á tvö ár. Ég vil, án þess að ég hafi gert það upp við mig að fullu, hvort ég fari að flytja um þetta efni brtt. við 3. umr., beina því mjög eindregið til hæstv. fjmrh., og hefði gert það enn fremur til hæstv. forsrh., hefði hann verið hér viðstaddur, hvort ríkisstj. hafi á prjónunum fyrirætlanir um að leysa fjárþörf þessara framkvæmda með einhverjum öðrum bætti en fram kemur í till. fjvn. við afgreiðslu fjárl. Hæstv. ríkisstj. hefur vitaskuld til þess úrræði í sambandi við framkvæmdaáætlun ríkisins, og skal ég út af fyrir sig fallast á, að sú lausn geti komið að gagni, eigi síður en þótt um fjárlagaframlag væri að ræða, þótt það væri æskilegra. En um þetta efni óska ég eftir að fá skýr svör. Ég vænti þess mjög, að hæstv. fjmrh. geti gefið mér svör um þetta efni, áður en þessari umr, lýkur.

Þriðja atriðið, sem ég vil hér nefna, er um framlög á vegum landbrn. til grænfóðurverksmiðja. Svo virtist sem hæstv. landbrh. og fjmrh. teldi heppilegt að hverfa hér úr þingsalnum í gær, þegar að því kom, að ég vænti svara við fsp. minni um þessi efni. Nú geri ég ráð fyrir því, að hæstv. ráðh. geti svarað þeirri fsp., sem fyrir liggur á sérstöku þskj., áður en 3. umr. fjárl. fer fram. Eigi að síður þykir mér rétt að vekja athygli á þessu máli hér við 2. umr. og óska eftir því, að hæstv. landbrh. og fjmrh. gefi um það svör, hver sé fyrirætlun hæstv. ríkisstj. um þetta efni.

Framleiðsla heyköggla eða grasköggla hefur verið að aukast hér á landi. Nú starfa þrjár ríkisreknar grænfóðurverksmiðjur undir yfirstjórn Landnáms ríkisins og ein, sem rekin er af einstaklingum. Staðfest hefur verið af hæstv. landbrh. áætlun um uppbyggingu þriggja nýrra grænfóðurverksmiðja á 6–8 árum, og sú staðfesting yrði með bréfi ráðh., dags. 2. júní 1972. Hér er um talsvert fjárfrekar framkvæmdir að ræða, og skal ég ekki á þessu stigi leiða getum að því, hvað uppbygging þessara þriggja verksmiðja muni kosta í heild. En eins og fram kemur í frv. til fjárl., sem hér er til umr., eru nú áætlaðar til þessa verkefnis 14.6 millj. kr. Út af fyrir sig er það nokkurn veginn í samræmi við þá verðlagsþróun, sem orðið hefur síðan ákvæði um þetta voru tekin í lög 1971. En þá var sett sem lágmark í lögin, að varið yrði til hyggingar grænfóðurverksmiðja eigi minna en 7.5 millj. kr. á ári. En þess er skylt að geta, að hvort tveggja hefði skeð: hæstv. ráðh. hefur staðfest áætlun um uppbyggingu þriggja nýrra verksmiðja og hæstv. ráðh. hefur með úrskurði ákveðið að kaupa verksmiðju, sem sett var á fót af félagssamtökum og einstaklingum vestur í Saurbæ í Dölum. Eftir því sem ég veit best, þá er það svo, að vegna þeirra skuldbindinga, sem þegar liggja fyrir gagnvart fjárgreiðslum til grænfóðurverksmiðja, fyrst og fremst vegna kaupanna á grænfóðurverksmiðjunni í Saurbæ í Dölum og einnig nokkurra framlaga til annarra verksmiðja af þessu tagi mun ekkert fé verða til ráðstöfunar á næsta ári við uppbyggingu hinna þriggja nýju verksmiðja, ef þessi liður verður ekki hækkaður í meðföruan Alþingis nú við afgreiðslu fjárl. Ég vil hér með beina því til hæstv. ráðh., hvort hann getur á þessu stigi gefið yfirlýsingar um það, hvað ríkisstj. hyggst fyrir um þessi efni, hvort það sé meining hæstv. ráðh. og ríkisstj. í heild að stöðva algerlega uppbyggingu verksmiðjanna eða hvort fyrirætlanir eru uppi um það að ráða þarna bót á.

Í sambandi við það, hverja þýðingu þetta mál hefur, vil ég vekja athygli á því, að á síðustu árum og einkanlega nú á síðasta ári og því ári, sem nú er að líða, hefur verð á innfluttu kjarnfóðri farið ákaflega hækkandi. Á sama tíma hefur það sýnt sig, að framleiðsla á graskögglum er hagkvæm hér á landi og þær tvær verksmiðjur, sem elstar eru eða lengst hafa gegnt því hlutverki að framleiða grasköggla á Rangárvöllum, munu á þessu ári skila góðri rekstrarafkomu. Það hefur einnig skeð, að hvarvetna frá félagssamtökum bænda hafa borist áskoranir um að hraða uppbyggingu þeirra verksmiðja, sem búið er að gera áætlun um. Einnig liggur það fyrir, að hagkvæmt er að nota þetta fóður í stað innflutts kjarnfóðurs, a. m. k. sem nemur 50–60%, og af því leiðir mjög verulegan gjaldeyrissparnað, vegna þess að talið er, að þessi framleiðsla kosti ekki nema um það bil 1/4 framleiðslukostnaðar í erlendum gjaldeyri, en hitt í innlendum kostnaði.

Ég ætla ekki á þessu stigi að rekja það frekar, enda þótt það mætti gera í löngu og ítarlegu máli, hverja þýðingu það hefur, ekki einungis fyrir landbúnaðinn, heldur fyrir þjóðarbúið í heild, að áfram verði unnið að þessu verkefni, ekki með hangandi hendi eða með þeim hætti, að þær ákvarðanir, sem búið er að taka, verði gerðar ómerkar, heldur á þann veg, að brugðið sé við og átak gert til þess að hrinda þessu máli áfram. Þýðingu þessa skal ég ekki rekja frekar, heldur vil ég vænta svara um þetta efni frá hæstv. landbrh. og fjmrh.

Að öðru leyti skal ég ekki fara út í einstök atriði, sem snerta fjárlagaafgreiðsluna, nú við þessa umr. Þar er þó af nógu að taka, og gæti ég bent á nokkur atriði, sem ég tel ástæðu til að leggja fram brtt. við til lækkunar, jafnframt því sem ég hef hér bent á vissa þætti, sem ástæða væri til þess að gefa gaum, hvort ekki þyrfti að sinna með meira fjármagni. Þegar hafa hér verið bornar fram nokkrar brtt. til hækkunar við fjárlagafrv., vitaskuld frá hv. fjvn. og einnig frá einstökum þm.

Ein af þessum brtt. finnst mér keyra úr hófi fram sem tákn um hreina fásinnu og ótrúlega eyðslutilhneigingu hjá þeim, sem ráða ferðinni hér í sölum Alþingis, en það er till. undir III. lið á þskj. 235 frá hv. þm. Ragnari Arnalds, Gylfa Þ. Gíslasyni, Steingrími Hermannssyni og Hannibal Valdimarssyni, og þar á ég við till. um að hækka framlög til blaðanna, eins og það er orðað, samkv. nánari ákvörðun ríkisstj., að fengnum till. stjórnskipaðrar nefndar, úr 18 millj. kr. upp í 32 millj. kr. Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa algerri andstöðu við þessa till., og enda þótt ég geri ekki ráð fyrir því, að mín tilmæli eða mín skoðun hafi nokkur áhrif á hv. flm. þessarar till., þá hefði ég talið eðlilegt a. m. k., að hún væri tekin aftur til 3. umr. og hv. þm. gæfist tóm til þess að íhuga hana nánar en gert verður hér að sinni, vegna þess m. a. að þessi till. kemur fram, eftir að mjög margir hv. þm. eru horfnir úr þingsalnum á kvöldfundi og atkvgr. verður væntanlega þegar í upphafi fundar á morgun.

Ég mun ekki að þessu sinni flytja brtt. til lækkunar, og ég skal ekki fara að tíunda þau efni hér. En það væri þó full þörf á að staldra við og taka því rækilegt tak, hvort ekki næðist samstaða nokkurra þeirra þm., sem ofbýður þessi útþenslu- og eyðslustefna ríkisstj., og flytja nokkrar brtt. við fjárlagafrv. til lækkunar, áður en það verður afgreitt hér á hv. Alþ.

Ég skal ljúka þessum fáu orðum mínum hér með því að lýsa aðdáun á því, hvernig hv. frsm. meiri hl. fjvn. gat fundið í sinni framsöguræðu grundvöll fyrir því að lýsa einhverri stefnu hæstv. ríkisstj, í sambandi við fjármál ríkisins. Sú stefna birtist vitaskuld á þann veg, sem við hv. þm. og landslýður allur hefur fundið, að er kannske eitt helsta einkenni núv. ríkisstj., að draga saman fjármagnið og um leið draga valdið til ríkisins. Þetta kom fram hjá hv. frsm. meiri hl. fjvn., e. t. v. ekki nákvæmlega með þessum orðum, heldur á þann hátt, að það þyrfti að hafa stjórn á fjármagninu, það þyrfti að efla tök ríkisins á fjármagninu og deila því þaðan til hinna ýmsu viðfangsefna í þjóðfélaginu, bæði til verklegra framkvæmda og félagslegra þátta. Þetta er vitaskuld eitt megineinkennið á núv. hæstv. ríkisstj. Og hún hefur, eins og komið hefur fram í ræðum ýmissa stjórnarandstæðinga hér í dag og í kvöld, gengið ötullega fram til þess að fylgja eftir þessari stefnu sinni. Skýrasta dæmið er auðvitað tölurnar, sem standa í gjaldabálki og tekjulið fjárlagafrv., en mörg fleiri dæmi mætti nefna, sem hér verða ekki rakin. En til þess að hnekkja þessari stefnu, þessari stefnu samsöfnunar valds og fjármagns hjá ríkinu, þá þurfa að koma aðrir menn að stjórnvölnum, — menn, sem hafa önnur sjónarmið, en þá menn er ekki að finna í röðum þeirra, sem fara með forustu þeirra stjórnmálaflokka, sem mynda núv. hæstv. ríkisstj.

Það er einkenni á sósíalistískum flokkum að draga saman fjármagn í þjóðfélaginu til ríkisins, efla miðstjórnarvald og þenja út ríkiskerfi, mynda ríkisbákn, sem hefur í hendi sér sem flesta þræði valdsins og heldur um þá gildu sjóði fjármagnsins, sem dregið hefur verið úr höndum einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga til ríkisins. Þetta einkenni vinstra og sósíalistísks þjóðskipulags er að lýsa sér hér í þeirri stefnu, sem hv. þm. Geir Gunnarsson talaði um í framsöguræðu sinni í kvöld. Við sjálfstæðismenn viljum hverfa frá þessari stefnu. Við viljum snúa þessari stefnu við og fela sveitarfélögum og einstaklingum meira vald yfir fjármunum heldur en nú er gert. Við teljum, að öruggasta leiðin til þess að dreifa valdinu að nýju sé að fela sveitarfélögunum aukin verkefni og fá þeim aukna tekjustofna í samræmi við það til þess að sinna ákveðnum málaflokkum. Þegar hafa komið fram till. um einstaka slíka þætti af hálfu sjálfstæðismanna hér á Alþ. og þá fyrst og fremst í skólamálum, en ýmsir fleiri málaflokkar þurfa að fylgja með, þó að það skuli ekki rakið hér. En það er tómt mál að tala um það að ætla sér að dreifa valdinu í þjóðfélaginu án þess að skerða þá miklu samsöfnun fjármagns, sem ríkisvaldið stundar í formi margvíslegrar skattheimtu, sem er að sliga bæði einstaklinga og fyrirtæki. Ég lít svo á, að útþensla ríkisbáknsins verði ekki stöðvuð, nema með þessum hætti sé breytt um stefnu. Og það verður verkefni þeirrar ríkisstj., sem við tekur, þegar núv. hæstv. ríkisstj. hefur lagt upp laupana, hvort sem það verður fyrr eða síðar. Þá verður að taka til hendi og marka ákveðna stefnu um það að fela sveitarfélögunum valdið yfir fleiri ákveðnum málaflokkum, færa þar með valdið til fólksins sjálfs, og fá þeim tekjustofna til þess að sinna þeim viðfangsefnum, — tekjustofna, sem teknir eru úr höndum ríkisins. Að sama skapi séu skert umsvif ríkisvaldsins og möguleikar þess til þess að draga til sín fjármagnið með svo gegndarlausri skattheimtu sem nú tíðkast.