13.12.1973
Efri deild: 34. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (1149)

101. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Frsm. (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Iðnn. þessarar d. hefur haft til meðferðar frv. til l. um þörungavinnslu við Breiðafjörð. Á fundum n. mætti dr. Vilhjálmur Lúðvíksson, sem er formaður þess undirbúningsfyrirtækis, sem unnið hefur að undirbúningi málsins í ár. Frv. var sent til umsagnar allmargra aðila. Það var sent til 5 hreppa Austur-Barðastrandarsýslu, sýslunefndar Austur-Barðastrandarsýslu, til Iðnþróunarstofnunar Íslands, til Framkvæmdastofnunar Íslands, til Náttúruverndarráðs, og auk þess barst tillaga frá Hafrannsóknastofnuninni um nokkra breytingu á frv. Umsagnir bárust frá öllum þessum aðilum nema tveimur hreppum Austur-Barðastrandarsýslu, Gufudalshreppi og Múlahreppi. Allar voru þessar umsagnir jákvæðar, þótt nokkrar aths. kæmu fram, sem ég mun minnast á síðar.

N. varð sammála um að mæla með samþykkt frv., en leggur til nokkrar brtt., sem koma fram á þskj. 231. Fjarverandi við afgreiðslu málsins voru Björn Fr. Björnsson og Geir Hallgrímsson. Einn nm., Þorvaldur Garðar Kristjánsson, leggur fram brtt. á þskj. 228.

Þetta mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð, á sér nokkurn aðdraganda. Málið hefur verið æðilengi í athugun, fyrst á vegum raforkumálaskrifstofunnar og síðan um allmörg ár hjá Rannsóknaráði ríkisins. Rannsóknaráð skilaði skýrslu í okt. 1972. Meginniðurstöður þeirrar skýrslu voru, að þaravinnsla við Breiðafjörð væri vafasamt fyrirtæki, en þangvinnsla, fyrst og fremst vinnsla á klóþangi, sem er mjög mikið við Breiðafjörð, álitleg. Í þessum rannsóknum var fyrst og fremst lögð áhersla á rannsóknir á þaravinnslu. Þarinn er ákaflega mikill á Breiðafirði, hann vex að sjálfsögðu dýpra en þangið, sem er í fjörumörkum og er einnig mjög mikið, einkum klóþang. Munu raunar vera á Breiðafirði einhver mestu þang- og þaramið, sem þekkjast í Norður-Atlantshafi. Það styrkir mjög þetta mál, að stærsti framleiðandi á alginötum úr klóþangi, Alginate Industries í Skotlandi, hafði lýst þeim vilja sínum að gera samning við fyrirtækið um kaup á þurrkuðu klóþangi á því verði, sem virtist tryggja rekstrargrundvöll þessa fyrirtækis.

Á grundvelli þessarar skýrslu frá Rannsóknaráði ríkisins var sett á stofn með l. frá hv. Alþ. undirbúningsfyrirtæki um þörungavinnslu við Breiðafjörð, og hóf það starfsemi sína í upphafi þessa árs. Í undirbúningsstjórn fyrirtækisins völdust þrír menn, dr. Vilhjálmur Lúðviksson, sem var formaður stjórnarinnar, Þorsteinn Vilhjálmsson, báðir tilnefndir af iðnrh., og Ólafur E. Ólafsson fyrrv. kaupfélagsstjóri í Króksfjarðarnesi, sem var kjörinn af öðrum hluthöfum. Ríkissjóður lagði fram 5 millj. sem hlutafé í þetta fyrirtæki, en aðrir hluthafar urðu fyrst og fremst Sjávaryrkjan h. f., sem er fyrirtæki heimamanna, það fyrirtæki lagði fram 2.5 millj., en 320 þús. af hlutafé eru í eigu einstaklinga.

Stjórn þessa undirbúningsfyrirtækis vann ágætt starf. Hún endurskoðaði þær áætlanir, sem fyrir lágu, og skilaði niðurstöðum sínum í apríl s. l. Í ljós kom, að nokkrir aðilar, einkum Framkvæmdastofnun ríkisins, hagrannsóknadeild og Iðnþróunarsjóður, sem rætt var við í sambandi við fjármögnun, töldu nauðsynlegt að kanna betur en gert hafði verið vissa þætti framleiðslunnar, fyrst og fremst öflunartækni þá, sem fyrirhuguð er í sambandi við þangvinnsluna, og jafnframt, að fram þyrfti að fara frekari viðræður við hið skoska fyrirtæki um sölu á framleiðslunni. Niðurstaðan varð því, að framkvæmdum var frestað um eitt ár. Var það gert í fullu samráði við hið skoska fyrirtæki, sem breytti þar með áætlunum sínum um móttöku framleiðslunnar til ársins 1975.

Sumarið var vel notað, sérstakur skurðprammi eða sláttuvél fékkst að láni frá hinu skoska fyrirtæki. Prammi þessi var reyndur um allmargra vikna skeið á Breiðafirði við breytilegar aðstæður. Niðurstöður urðu mjög jákvæðar og stóðust fyllilega þær áætlanir, sem gerðar höfðu verið um þangskurðinn. Einnig fóru fram ítarlegar rannsóknir á Breiðafirði á vistfræðilegum áhrifum þangskurðarins, eins og ég mun koma að síðar. Jafnframt voru kostnaðaráætlanir enn endurskoðaðar með tilliti til breytts verðlags, breyttra aðstæðna og nánari upplýsinga, sem fengust. Þetta kemur fram í skýrslu frá Undirbúningsfélagi þörungavinnslunnar h. f., sem kom út í nóv. s. l. og hv. þm. hafa fengið.

Eins og málið stendur nú, er gert ráð fyrir því, að vinna 6685 tonn af þurrkuðu þangi í fyrirhugaðri verksmiðju, sem yrði staðsett í Karlsey út af Reykhólum. Áætlað er, að stofnkostnaður verði 211 millj. kr. Rekstrarkostnaður er áætlaður 82 millj. kr., en söluverðmæti 98 millj. kr., þannig að rekstrarafgangur er áætlaður 16 millj. kr., áður en skattar eru greiddir. Þetta er byggt á söluverði 1972 fyrir hvert þurrkað tonn, og fæst þá út arðsemi 9.5% á stofnkostnað. Eins og upplýst var við 1. umr. um þetta mál, hefur hið skoska fyrirtæki nú hækkað tilboð sitt í 76 pund, og fæst þá arðsemi á stofnkostnað 12.1%. En raunar lít ég svo á, að mikilvægari í þessu sambandi sé, að verð þetta er tengt olíuverði og er opið til frekari samninga til hækkunar, eftir því sem aðstæður op horfur leyfa. Rétt er að hafa það í huga, að þang það, sem notað er til slíkrar framleiðslu nú, er þurrkað með tvennu móti: Í fyrsta lagi er það sólþurrkað, en í vaxandi mæli er það nú þurrkað með olíuhitun, og eins og gefur að skilja, verður sú framleiðsla stöðugt óhagkvæmari með hækkandi verði olíunnar. Mér sýnist því ljóst, að söluöryggi þessa fyrirtækis með hagstæðu verði á framleiðslunni sé gott og lítið að óttast í því sambandi.

Einnig kemur fram í skýrslu undirbúningsfyrirtækisins, að opinberar framkvæmdir hafi verið áætlaðar að nýju. Gert er ráð fyrir því, að vegur út í Karlsey muni kosta 14 millj. kr., og hefur hann að verulegu leyti þegar verið lagður. Gert er ráð fyrir því, að varmaveita kosti 27.5 millj, kr., raflína 17 millj. kr. Höfn hefur verið áætluð 80 millj. kr., en staðreyndin mun vera sú, að þá áætlun þarf að endurskoða, og sýnist mér við fljóta yfirsýn, að hún geti lækkað töluvert. Mér sýnist, að minnka megi hafnarframkvæmdir nokkuð og fullnægja þó þörfum verksmiðjunnar. Sú endurskoðun mun vera í gangi.

Við þær ítarlegu rannsóknir, sem voru gerðar í sumar, hefur komið í ljós, að þangmagn á Breiðafirði er ákaflega mikið. Áætlað er, að þar megi vinna um 15–27 þús. tonn af þurrkuðu þangi á ári hverju, án þess að þanggróður bíði tjón af. Og eins og ég sagði áðan, hefur nú fengist mjög mikilvæg reynsla á þau þangskurðartæki, sem gert er ráð fyrir að nota. Tæki þessi eru mjög ný. Þau eru amerísk uppfinning og hafa verið reynd aðeins um skamman tíma í Skotlandi. Af þessum sökum var ákaflega mikilvægt að fá tækfæri til að reyna þau hér á landi við hérlendar aðstæður.

Í sambandi við rannsóknirnar í sumar hefur einnig verið litið vandlega á áhrif þessarar starfsemi á ýmis hlunnindi og vistfræði svæðisins og lífkeðju; eins og ég mun koma nánar að síðar.

Í umsögn Framkvæmdastofnunar ríkisins er vísað til álits, sem stofnunin sendi frá sér á s. l. vori. Stofnunin telur sig ekki hafa aðstöðu til að endurskoða það álit á þeim skamma tíma, sem var til stefnu. Í niðurstöðum í áliti stofnunarinnar frá s. l. vori segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sé þess talinn nokkur kostur, virðist rétt að ráðast ekki í framkvæmdir fyrr en frekari vísindalegar og verklegar tilraunir, einkum varðandi þangtekjuna og efnisgæði afurðanna, hafa farið fram. Sérstaklega mikilvægt virðist að reyna sláttutæknina og flutningakerfið fyrir blautt þang við raunverulegar aðstæður, áður en lengra er haldið. Þá virðist aðkallandi að reyna að fá skýrar línur í hugsanlegan viðskiptasamning við AIL, þ. e. a. s. hið skoska fyrirtæki, einkum að því er varðar verðlagsviðmiðanir, og hvort tilboð AIL sé algerlega bundið afhendingu strax 1974. Þá virðist nauðsynlegt að tryggja sölu á því magni mjöls, sem AIL hefur ekki boðist til þess að kaupa.“

Við athugun á niðurstöðum Undirbúningsfélags þörungavinnslu h. f. kemur strax í ljós, að þessum ábendingum Framkvæmdastofnunarinnar hefur verið fullnægt. Ég hef áður rakið mikilvægar tilraunir með þangskurðartæknina á s. l. sumri, sem urðu jákvæðar. Einnig er fenginn nýr verðgrundvöllur fyrir sölu á þanginu til hins skoska fyrirtækis, og jafnframt var tryggt, að hið skoska fyrirtæki gengur ekki frá sínum samningi, þótt frestur á afgreiðslu verði til ársins 1975. Að þessu fengnu virtist ljóst, að tímabært væri að leggja fram frv. til l. um það fyrirtæki, sem ynni þörunga við Breiðafjörð.

Með tilvísun til brtt. og umsagna, sem n. hafa borist, vil ég þá fara yfir þetta frv., sérstaklega þær gr., sem brtt. koma fram við.

Í 2. gr. frv. leggur n. til, að við verði bætt svo hljóðandi setningu:

„Iðnrh. fer með mál, er snerta eignaraðild ríkisins í hlutafélaginu.“

Þarna er raunar aðeins um að ræða flutning á 8. gr. frv. í 2. gr., þar sem n. virtist, að hún ætti heima.

Á þskj. 228 leggur hv. 5. þm. Vestf. fram brtt. Hann leggur þar til, að 51% af hlutafé fél. verði jafnan samtals í eigu ríkisins og sveitarfélaganna í Austur-Barðastrandarsýslu, en í frv. er gert ráð fyrir því, að hlutdeild ríkisins eins verði 51%. Um þetta var lauslega rætt í n., og treystu aðrir nm., sem þar voru mættir, sér ekki til að fylgja þessari brtt. Ég segi það fyrir mitt leyti, að ég mun ekki greiða brtt. atkv. Ég lít svo á, að það sé eðlilegt, að þetta verði þá tekið að nýju upp á Alþ., ef það ástand skapast, að slík eignaraðild gæti orðið raunhæf. Það hefur komið fram m. a. í viðræðum við oddvita Reykhólahrepps, sem mætti hjá iðnn. þessarar d. á síðasta þingi, þegar frv. að undirbúningsfyrirtæki var til meðferðar, að heimamenn leggi á það ríka áherslu, að meiri hl. í fyrirtækinu verði í eigu ríkisins. Þeir gera sér grein fyrir því, að þeir hafa ekki bolmagn til þess að ráða við svo mikla framkvæmd sem hér er um að ræða, og telja því hyggilegast, að ríkisvaldið hafi þar meiri hluta og afgerandi hluta. Ég tel ákaflega vafasamt, að þessar aðstæður breytist. En þó gæti svo farið, og þá sýnist mér, eins og ég sagði áðan, eðlilegast, að ríkisvaldið leiti samþykkis Alþ. fyrir þeirri breytingu, sem drög eru lögð að í brtt. frá hv. 5. þm. Vestf. Mér sýnist, að það verði að meta aðstæður á þeirri stundu og þá setja e. t. v. þau skilyrði fyrir slíkum breytingum, sem nauðsynleg kunna að teljast við þær aðstæður.

Við 3. gr. frv. gerir n. nokkrar brtt. Við fyrirsögnina er lítilfjörleg breyting. Í stað „til stofnunar“ leggur n. til, að sagt verði: „vegna stofnunar hlutafélagsins er ríkisstj. heimilt“ o. s. frv.

Við 1. lið 3. gr. er engin brtt., en mér þykir rétt, að það komi fram, að gert er ráð fyrir því, að hlutafé í þessu fyrirtæki verði um það bil 30% af stofnkostnaði eða um 70 millj. kr., og þarna er gert ráð fyrir því, að ríkisvaldið geti lagt fram 60 millj. Menn reikna með því, að heimamenn muni leggja fram þarna nokkurt fjármagn, a. m. k. það, sem þeir hafa lagt í undirbúningsfyrirtækið og ég gat um áðan. Einnig hefur hið skoska fyrirtæki boðist til þess að leggja fram allt að 6 millj. kr., ef þess er óskað. Að sjálfsögðu verður einnig einstaklingum gefinn kostur á hlutafjáreign í félaginu.

Við 3. gr. 4. lið er heldur ekki brtt., en mér þykir rétt að minnast nokkuð á þann lið, sem fjallar um jarðhitasvæði á Reykhólum, einkum vegna ábendingar, sem fram hefur komið í umsögn Reykhólahrepps. Þar er lögð rík áhersla á, að jarðhiti verði fáanlegur til almennra nota á Reykhólum. N. sýnist ljóst, að með orðalagi þessarar gr. er til þess ætlast. Þar er þess getið, að Jarðvarmaveitur ríkisins skuli sjá um stofnun og rekstur hitaveitu, sem m. a. skal gegna því hlutverki að selja þörungavinnslunni jarðhita til rekstrar síns. Í þessu sambandi er rétt, að fram komi, að þörf Reykhóla fyrir jarðhita muni vera eitthvað um 7 sekúndulítrar, en þar fást nú úr þeirri einu holu, sem hefur verið boruð, 18 sekúndulítrar. Heildarþörf verksmiðjunnar er hins vegar áætluð 50 sekúndulítrar. Þegar málinu var frestað á s. l. vori, var á það bent, að mikilvægt væri að fá þarna viðbótarholu til þess að tryggja til hlítar, að nægilegur jarðhiti fáist. Því miður hefur ekki orðið úr þessari framkvæmd, og ber að harma það. Að vísu eru jarðfræðingar sammála um, að líkur séu mjög sterkar til þess, að það fáist nægilegur jarðhiti, en viðbótarhola hefði sannarlega skapað meira öryggi. Í n. var um það rætt og að því spurt, hvað gerist, ef jarðhiti verður eitthvað af skornum skammti. Dr. Vilhjálmur Lúðvíksson taldi það að vísu ákaflega ósennilegt, en sagði, að stjórn undirbúningsfélagsins hefði rætt um þann möguleika, að þá þyrfti að skerpa á með rafhitun og það yrði aðeins lítilfjörlegur viðbótarkostnaður og mundi ekki ráða úrslitum um framkvæmd málsins. Ég get upplýst, að lögð hefur verið áhersla á að tryggja jarðbor til jarðborunar á Reykhólum, strax og þetta frv. er orðið að lögum og fyrirtækið sett á fót. Væntanlega hefst því þessi nauðsynlega framkvæmd á Reykhólum þegar jan. á næsta ári.

Í 3. gr. 6. lið er ríkinu heimilað að leggja raflínu að hinu fyrirhugaða verksmiðjusvæði. Engin brtt. er við þann lið. En mér þykir eðlilegt, að það komi fram hér, á hvern máta þetta mundi eiga að gera, og einnig vil ég leggja áherslu á, að að öllum líkindum þarf að styrkja það kerfi, áður en langt um líður. Gert er ráð fyrir því að breyta núv. línu frá spennistöð við Tröllatunguheiði í þriggja fasa línu. Með þörfum verksmiðjunnar kemur hins vegar í ljós, að heildarorkuframleiðslugeta svæðisins er aðeins mjög lítið meiri en þörfin í heild er. Áætlað er, að Þverárvirkjun í Strandasýslu, sem framleiðir þessa orku, geti framleitt 890 kwst. að meðaltali með þeirri jöfnunargetu, sem þar er. Þörfin er um 830 kwst. og er því ljóst, að ekkert má út af bera til þess, að þörfin verði meiri en framleiðslugetan. Varastöð er í Búðardal, en þangað er ekki þriggja fasa lína og því ekki nema takmarkað gagn af þeirri stöð fyrir fyrirhugaða þangþurrkstöð að Reykhólum. Mér sýnist ljóst, að leggja beri áherslu á að tengja þetta svæði við raforkukerfi landsins, t. d. með línu suður á bóginn yfir á Snæfellsnes í þá línu, sem þangað mun nú fyrirhuguð. Þetta held ég, að sé óhjákvæmileg framkvæmd og beri að ráðast í hana fyrr en síðar.

Við lið 3.7 er brtt. í nál. Þar er lagt til, að við þennan lið verði bætt orðunum: „samkv. 7. gr. og 3. lið 9. gr. hafnal.“ Liðurinn fjallar um höfnina í Harlsey. Við teljum nauðsynlegt að vekja athygli á þessum gr. hafnalaga, sérstaklega 19. gr., þar sem hafnarsjóði er heimilað að styrkja hafnarframkvæmd þannig, að framlag hins opinbera nemi allt að 90% af heildarkostnaðinum. Lagt hefur verið til, að hafnarsjóður verði settur á stofn vegna þessarar hafnar. Sýslunefnd Austur-Barðastrandarsýslu hefur fjallað um málið og orðið sammála um að mæla með slíku, en þó á þeirri forsendu, að heimamenn þurfi ekki að leggja fram meira en 10% af kostnaði við hafnargerðina. Mér sýnist í fljótu bragði, að tekjur af höfninni vegna þarfa verksmiðjunnar muni standa undir þessum 10% og því verði ekki um neina áhættu að ræða í því sambandi. Að sjálfsögðu opnar höfnin jafnframt mikilvæga samgönguleið inn á þetta svæði og mun því skapa meiri tekjur en af flutningum til verksmiðjunnar einnar.

Við 4. gr. er engin brtt. Við 6. gr. eru brtt. á þskj. 231, en þar er fyrst og fremst um að ræða aðra niðurröðun og meðferð þess máls, sem gr. fjallar um.

Við 6. gr. eru brtt. Efnislega brtt. er fyrst og fremst sú, að fellt er niður, að 3 aðalmenn og varamenn séu skipaðir af ráðh. N. taldi eðlilegast, að þessir menn væru kosnir á aðalfundi. í raun er þar ekki um mikla breytingu að ræða. Sá aðili, sem fer með hlut ríkissjóðs, ræður að sjálfsögðu tilnefningu meiri hl. í stjórn fyrirtækisins. Jafnframt er við þessa gr. gerð sú efnisbreyting, að fram er tekið í brtt., að einn aðalmaður og einn varamaður í stjórn félagsins a. m. k. skuli vera búsettur í Austur-Barðastrandarsýslu. Heimilt er, að einn aðalmaður og einn varamaður sé erlendur ríkisborgari, búsettur erlendis. Síðari setningin vísar að sjálfsögðu til þess, að hinn skoski aðili hefur boðist til að leggja hlutafé í fyrirtækið, og þá virðist eðlilegt, að það fyrirtæki eigi kost á einum stjórnarmanni.

Við 7. gr. er lagt til, að hætt verði nýrri mgr., svo hljóðandi:

„Iðnrh. getur sett reglugerð um nánari framkvæmd 1. mgr., og skal sú reglugerð sett að fengnum till. náttúruverndarráðs. Jafnframt skal efla vísindalegt eftirlit og rannsóknir á þörungamiðum og dýralífi á Breiðafirði á vegum opinberra rannsóknastofnana.“

Eins og ég hef áður vikið að, hafa orðið nokkrar umr. um áhrif þessarar starfrækslu á lífkeðju og vistfræði Breiðafjarðar. Þetta hefur komið fram hjá ýmsum aðilum. M. a. kemur það fram í áliti frá hreppsnefnd Flateyjarhrepps. Hreppsnefndin lýsir að vísu þeirri von sinni, að sá stórhugur, sem fram kemur í frv. til l. um þörungavinnslu við Breiðafjörð, verði að tilætluðum notum sem grundvöllur að traustari byggð á svæðinu, er hefur átt í vök að verjast til þessa. Hins vegar lýsir hreppsnefndin nokkrum áhyggjum sínum út af áhrifum þessara framkvæmda og þessa atvinnurekstrar á þær nytjar, sem eru að sjálfsögðu mjög mikilvægar fyrir íbúa þess svæðis. Hreppsnefndin lýsir þeirri skoðun sinni, að þeir munu eftir sem áður fyrst og fremst þurfa á þeim hlunnindum að byggja, sem í eyjunum búa. Þessar áhyggjur hreppsnefndarinnar eru mjög skiljanlegar. Áður hafa komið fram nokkrar aths. frá hreppsnefnd Flateyjarhrepps við þetta mál, m. a. í bréfi til iðnrh. á s. l. vetri. Hreppsnefndin taldi þar, að skoða hefði átt, hvort verksmiðjuna mætti staðsetja í Flatey. Það hefur nokkra kosti. M. a. er þar höfn góð. Þetta var rætt á sínum tíma, og í ljós kom að áliti sérfróðra manna, að til þess væri því miður ekki grundvöllur. Jarðhiti væri þar ákaflega vafasamur og ýmislegt annað, sem ylli erfiðleikum. Ég vil þó í þessu sambandi taka fram vegna þess, sem kemur fram í umsögn hreppsnefndar Flateyjarhrepps, að framtíð og framtíðarþróun þessa svæðis þarf að skoða mjög sérstaklega. Ég er sannfærður um, að þetta fyrirtæki að Reykhólum mun hafa í för með sér verulega eflingu svæðisins alls; þ. á m, eyjanna. Engu að síður er ljóst, að framtíð þeirra þarf að kanna og finna þarf leiðir til að efla þær og styrkja búsetu í eyjunum.

Í umsögn frá náttúruverndarráði kemur í ljós, að náttúruverndarráð hefur skoðað þessi mál mjög vel. Umsögn þessi er svo mikilvæg í þessu sambandi, að mér sýnist nauðsynlegt, með leyfi hæstv. forseta, að lesa umsögn náttúruverndarráðs. Þar segir svo:

„Náttúruverndarráð þakkar bréf iðnn. Ed. Alþ., dags. 16/11 1973, þar sem óskað er umsagnar um stjfrv. um þörungavinnslu við Breiðafjörð.

Ráðið fagnar því, að í frv. eru tryggðar sérstakar varúðarráðstafanir gegn tjóni á dýralifi og hlunnindum af völdum starfsemi þörungavinnslunnar.

Mál þetta kom fyrst til umr. í náttúruverndarráði 19/12 1972, en þá gerði Vilhjálmur Lúðvíksson, formaður Undirbúningsfélags þörungavinnslu h/f og starfsmaður Rannsóknaráðs ríkisins, sem jafnframt á sæti í náttúruverndarráði, grein fyrir því með tilliti til 29. gr. l. nr. 47/1971, um náttúruvernd.

Að ósk ráðsins samdi dr. Arnþór Garðarsson álitsgerð um umhverfisrannsóknir, sem gera þyrfti til að sjá fyrir hugsanleg neikvæð áhrif þangtekjunnar á lífríki Breiðafjarðar, þannig að draga mætti úr slíkum áhrifum eftir föngum. Því næst var málið tekið til umr. í sérfræðingahópi, sem kallaður var saman af hálfu náttúruverndarráðs. Í hópnum voru m. a. rædd eftirfarandi atriði í sambandi við hugsanleg áhrif þangtekju:

1. Bein truflun dýralífs af völdum þangskurðar. Hér er einkum átt við þá dýrastofna, sem eiga aðalheimkynni sín hérlendis við Breiðafjörð (t.d. dílaskarfur, toppskarfur, örn), eða eru nytjaðir til hlunninda (æður, selir).

2. Mælingar á heildarmagni og framleiðni þangs. Tölur um nýtanlegt þangmagn eru óvissar, m. a. vegna þess að vöxtur þangs á Breiðafirði hefur ekki verið mældur. Slíkar mælingar eru nauðsynlegar til að tryggja skynsamlega nýtingu þangsins.

3. Hugsanleg víðtæk áhrif þangtekju á gróðurfar og dýralíf. Hér er átt við þátt þangs í heildarbúskap svæðisins, þ. e. sem undirstöðu í fæðukeðjum og sem vist annarra þörunga og dýra.

Með bréfi, dags. 10. apríl 1973, til Rannsóknaráðs ríkisins skýrði náttúruverndarráð frá því, sem fram hefur komið í ofangreindum viðræðum. Ráðið taldi nauðsynlegt, að þegar yrði könnuð útbreiðsla og fjöldi fuglastofna og selastofna. Einnig taldi ráðið æskilegt, að undirbúningsathugun á áhrifum þangtekju á gróður- og dýralíf í fjörum hæfist þegar í stað. Þá taldi ráðið rétt, að settar yrðu reglur, byggðar á ofangreindum rannsóknum, við fyrirkomulag þangskurðar. Enn fremur benti ráðið á nauðsyn þess, að fram færi víðtæk vistfræðileg könnun á búskap þangsins og þýðingu þess fyrir annað líf á svæðinu.

Könnun á fjölda og útbreiðslu fuglastofna og sela á Breiðafirði var framkvæmd sumarið 1973 af dr. Arnþóri Garðarssyni, og lauk hann bráðabirgðaskýrslum um þá könnun í okt. 1973. Erlingur Hauksson BS og Karl Gunnarsson stud. scient. unnu að rannsóknum á uppskeru þangs, dýralífi og þörungagróðri þangbeltisins. Áfangaskýrsla þeirra um uppskeru þangs lá fyrir í nóv. 1973. Lokaskýrsla um þessar rannsóknir í heild mun væntanlega liggja fyrir snemma á næsta ári.

Með tilliti til ofangreindra forrannsókna telur náttúruverndarráð ekkert því til fyrirstöðu, að frv. um þörungavinnslu við Breiðafjörð verði samþ. og framkvæmdir við verksmiðju geti hafist, að því tilskildu, að eftirgreind skilyrði og ábendingar verði tekin til greina:

1. Líkleg umhverfisáhrif .

1.1. Víðtæk áhrif á næringarbúskap (einkum með tilliti til myndunar lífrænna leifa og þar með áhrifa á fæðukeðju): Fyrstu niðurstöður benda ótvírætt til þess, að magn þangs, sem fyrirhugað er að skera árlega, sé aðeins lítill hluti heildarmagns þangs á Breiðafjarðarsvæðinu eða innan við 10%. Þá má geta þess, að þangið er sennil. innan við 10% af heildarmagni botnfastra þörunga á grunnsævi á fjörum þeim, sem hér um ræðir. Með tilliti til þess virðist óhætt að álykta, að þangtekjan muni hafa óveruleg áhrif á myndun lífrænna leifa á Breiðafirði. Við þangskurð er einnig viðbúið, að aukning geti orðið á vexti annarra þörungategunda í þangbeltinu, einkum skammærra tegunda, og mundi sú aukning að sjálfsögðu einnig draga úr hugsanlegri minnkun á nýmyndun lífrænna leifa. Hér verður þó enn sem fyrr að leggja áherslu á það, að beinar mælingar á vexti og afföllum þangs og nýtanlegu árlegu magni þess verður að framkvæma sem allra fyrst.

1.2. Bein áhrif á tilvist lífvera í þangbeltinu: Áhrif þangskurðar á tilvist ýmissa smádýra svo og þörunga í þangbeltinu sjálfu geta orðið veruleg. Hins vegar verður erfitt að gera sér grein fyrir, hver þessi áhrif kynnu að verða, nema fram færu rannsóknir samhliða þangskurði, bæði á skornum og óskornum svæðum. Enda þótt búast megi við breytingum á magni og tegundasamsetningu þessara lífvera, er ekki þar með sagt, að þessar breytingar verði allar neikvæðar. Fyrstu athuganir á smádýralífi og þörungum í fjörum Breiðafjarðar voru framkvæmdar af þeim Erlingi Haukssyni og Karli Gunnarssyni sumarið 1973, og er lokaskýrsla þeirra væntanleg snemma á næsta ári. Ráðið leggur áherslu á, að þessi beinu áhrif þangskurðar verði rannsökuð nánar og síðan verði reynt að haga þangskurði þannig, að sem minnst tjón hljótist af.

1.3. Áhrif á fæðugrundvöll einstakra tegunda (sem kunna að hafa sérstakt gildi, annaðhvort sem náttúruverðmæti eða hlunnindi) : í trausti þess, að tölur um magn þangs og þörunga og lágt nýtingarhlutfall séu nærri réttu lagi, virðist mega gera ráð fyrir því, að áhrif á fæðugrundvöll einstakra þýðingarmikilla tegunda verði bundin nýtingu þessara tegunda í lífverum í þangbeltinu sjálfu. Hér virðist fyrst og fremst vera um að ræða æðarfugl með unga, vaðfugla, svo sem rauðbrysting, tjald og sendling og hvítmáf. Ráðið telur nauðsynlegt, að rannsóknir á þessu atriði fari fram.

1.4. Beinar truflanir á viðkvæmum tegundum (af völdum þangöflunar) : Gera má ráð fyrir, að þangöflun geti leitt til truflana á viðkomu nokkurra viðkvæmra tegunda og e. t. v. einnig haft áhrif á hlunnindatekjur. Þessi atriði eru einnig rædd í 4. lið, en þar er byggt á bráðabirgðaniðurstöðum og könnun Arnþórs Garðarssonar, sem fram fór á þessu ári.

2. Tilhögun þangtekju. — Til þess að auðveldara verði að skipuleggja þangtekju með tilliti til náttúruverndar, er nauðsynlegt, að þörungavinnslan semji ár hvert áætlun um fyrirhugaðan þangskurð á sumri komanda, um þau svæði, sem tekin verða fyrir á hverjum tíma. Trúnaðarmenn náttúruverndarráðs geri aths. við áætlunina og tilgreini svæði, þar sem sérstakrar aðgátar er þörf. Þá er þess óskað, að þörungavinnslan geri sömuleiðis árlega skýrslu, er tilgreini nákvæmlega, hvaða svæði hafa verið skorin það ár .

3. Friðuð svæði. — Náttúruverndarráð mun, að fengnum till. sérfræðinga, gera till. um að tiltekin svæði á Breiðafirði verði friðuð fyrir þangskurði. Verði þar leitast við að taka frá í ósnortinni mynd sem fjölbreytilegastar fjörugerðir. Þá vill ráðið benda á, að það telur ákvæði 3. gr. 9. lið frv. til l. um þörungavinnslu við Breiðafjörð ekki eiga við á stöðum við fjörðinn, sem þegar eru friðlýstir eða verða munu friðlýstir.

4. Truflanir af völdum þangtekju.

4.1. Dílaskarfsvörp á tilteknum stöðum verði friðuð fyrir umferð innan 250 m radíus fram að 1.9. ár hvert. Ráðið telur rétt, að stefnt verði að friðlýsingu nokkurra skarfavarpa á Breiðafirði.

4:2. Hliðstæðar reglur gildi um varpstaði arnar. Nauðsynlegt mun reynast að skrá arnarvarpstaði á hverju vori í júní, en tæplega er hægt að búast við því, að það verði hægt fyrr að vorinu. Fram að þeim tíma ár hvert skal forðast að koma nálægt öllum varpstöðum þekktum frá árinu á undan, svo og svæðum, þar sem grunur leikur á, að ernir séu á varpstað.

4.3. Þangskurði að vorinu fram til 1. júlí ber að haga þannig, að eigi skerðist hlunnindi af vorkópaveiði og æðardún. Nauðsynlegt er, að þangskurður á þessum tíma sé framkvæmdur í fullu samráði við nytjendur hlunninda (sem og á öðrum tíma árs). Þar til full reynsla er fengin, er mjög þýðingarmikið, að færðar séu nákvæmar skýrslur: 1. Af hálfu þangtekjunnar: Nákvæmar dagskýrslur, hve miklum tíma er eytt á hverjum stað, magn þangs skorið á hverjum stað. 2. Af hálfu ábúenda: Nákvæmar skýrslur um vorkópaveiði, þ. e. nákvæmar dagsetningar og staðsetningar á fjölda veiddra kópa, og e. t. v. hliðstæðar upplýsingar um fjölda æðarhreiðra eða dúntekju.

4.4. Aðrar truflanir eru ekki fyrirsjáanlegar, en náttúruverndarráð áskilur sér rétt til þess að setja nánari reglur um framkvæmd þangskurðar, ef ástæða þykir til.

5. Rannsóknir meðfram starfsemi. — Náttúruverndarráð leggur eindregið til. að gerðar verði rannsóknir á eftirtöldum þáttum samhliða því sem þangskurður hefst.

1. Þang: Vöxtur, árleg afföll.

2. Lífrænar leifar: Samsetning og velta. 3. Smádýralif þangbeltis.

4. Fæðukeðjur:

a) æðarfuglar, sérstaklega ungar,

b) botnfiskar á grunnsævi, sérstaklega sprettfiskar, marhnútar, hrognkelsaseiði,

c) teista,

d) vaðfuglar,

e) dílaskarfur.

Eðlilegt virðist, að fyrirtækið standi að mestu straum af 1. lið, en styrki einnig að hluta og eftir föngum rannsóknir samkv. 2., 3. og 4. lið. Þessu mun gert ráð fyrir í lagafrv. og rekstraráætlunum verksmiðju. Að öðru leyti telur ráðið eðlilegt, að hafnar verði á vegum hins opinbera (t. d. Hafrannsóknastofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands) skipulegar rannsóknir á þörunga- og dýralífi á þessu svæði, enda má benda á, að slíkar rannsóknir munu óhjákvæmilega hafa umtalsvert almennt gildi og koma fleiri aðilum til góða.

Náttúruverndarráð gerir sér ljóst, að sú vinnutilhögun, sem hér er gert ráð fyrir, byggist á samstarfi allmargra aðila með ólíka hagsmuni. Því telur ráðið nauðsynlegt að tryggja framkvæmd 7. gr. frv. með reglugerð, sem skuldbindi alla viðkomandi til að framkvæma þau verkefni, sem hér er lagt til. Mætti þannig t. d. bæta nýrri mgr. við 7, gr., svo hljóðandi:

„Iðnrh. getur sett reglugerð um nánari framkvæmd 1. mgr., og skal sú reglugerð sett að fengnum till. náttúruverndarráðs.“

Í trausti þess, að iðnn. Ed. taki umsögn þessa til greina og með vinsemd og virðingu,

Eysteinn Jónsson, formaður.

Árni Reynisson, framkvæmdastjóri.

Ég hef leyft mér að lesa þessa umsögn alla, vegna þess að ég tel hana ákaflega mikilvægt innlegg í þetta mál. og raunar tel ég þessa umsögn til fyrirmyndar. Mættu fleiri breyta þar eftir. Í umsögninni kemur einnig fram, að náttúruverndarráð hefur einmitt skoðað mjög vandlega þau atriði, sem hreppsnefnd Flateyjarhrepps varar við, og sýnist mér þar með, að mál þetta sé í góðum höndum.

Eins og kom fram hjá mér áðan, leggur n. til, að orðið verði við till. náttúruverndarráðs og tekin inn í frv. sú setning, sem í bréfinu kemur fram.

Þá barst n. einnig bréf frá Hafrannsóknastofnuninni, þar sem lögð er áhersla á auknar rannsóknir á þörungamiðum við Breiðafjörð og raunar víðar um landið. Á því er vakin athygli, að Hafrannsóknastofnuninni ber að hafa slíkar rannsóknir með höndum samkv. lögum. Ekki þótti fært að setja inn í frv. ákvæði um það, að Hafrannsóknastofnunin ein skuli annast slíkt, þar koma fleiri aðilar til greina, eins og t. d. Náttúrufræðistofnun Íslands, eins og fram kemur í umsögn náttúruverndarráðs. Því leggur n. til, að þetta verði orðað nokkuð almennt, eins og fram kemur í brtt. þannig: „Jafnframt skal efla vísindalegt eftirlit og rannsóknir á þörungamiðum og dýralífi á Breiðafirði á vegum opinberra raunsóknastofnana.“

Þá er lagt til, að 8. gr. verði felld niður, sem stafar af því, að hún er tekin upp í 2. gr. frv. samkv. till. iðnn.

Ég hef nú rakið meginþætti þessa máls og skal nú láta máli mínu fljótlega lokið. Það vil ég segja almennt um þetta mál, þangvinnslu við Breiðafjörð, að hér er um ákaflega athyglisvert fyrirtæki að ræða, fyrstu meiri háttar tilraun okkar Íslendinga til að nýta í senu þanggróður, þann mesta, sem er við strendur þessa lands, og einnig jarðhitann, þau miklu verðmæti, sem öllum verður stöðugt ljósara, hversu mikils virði eru. Það er enginn vafi á því, að þetta fyrirtæki mun hafa gífurlega mikil áhrif á búsetu alla í Austur-Barðastrandarsýslu og raunar víðar á þessu svæði. Þar hefur verið eitt tekjulægsta svæði landsins. Það er von mín, að það breytist með tilkomu þessa fyrirtækis. Við fyrirtæki þetta munu vinna um 28 manns. Áhugi á vinnu þar hefur þegar verið kannaður heima fyrir, og hafa 20 manns lýst áhuga sínum á vinnu þar. Að vísu er ekki gert ráð fyrir því, að þessi vinna sé nema í 7 mánuði á ári. Það er því verðugt verkefni að kanna, hvernig má brúa þá mánuði, sem verða eftir. Vel getur svo farið í góðum árum, að unnt reynist að starfrækja verksmiðjuna, þegar ísar hamla ekki þangskurði. Á sumrin kemur jafnframt viðbótarstarfskraftur til greina, e. t. v. skólapiltar, sem fá þar hina ágætustu vinnu við þangskurð. Um björtustu mánuðina yrði unnt að skera þangið á vöktum.

Þetta mun að sjálfsögðu einnig hafa gífurleg áhrif á svæðið skipulagslega, einkum Reykhóla. Ég vakti athygli á því í framsöguræðu fyrir iðnn. á síðasta þingi, að skipulagsmál Reykhóla þarf að taka til nákvæmrar athugunar. Mér sýnist, að því miður hafi það enn verið gert, eins og nauðsynlegt er, og vil ég enn á ný ítreka það, að skipulagsyfirvöld þurfa að kanna, á hvern máta íbúðarhúsum verður sem haganlegast fyrir komið og tryggt, að verðmæti, bæði söguleg og önnur, sem á Reykhólum eru, bíði ekki tjón af þessum framkvæmdum. Raunar munu allir sammála um það, sem til Reykhóla koma, að þar þarf að gera átak í þessu sambandi, draga fram ýmsa sögulega staði og búa þannig um, að sómi geti talist að.

Ég ætla ekki að fjölyrða um það, hvert framhald geti orðið á þessu fyrirtæki. Mér sýnist, að rekstrargrundvöllur þess sé öruggur, og ég leyfi mér einnig að fullyrða, að miðað við eðlilegar aðstæður í heiminum í kringum okkur a. m. k. muni vera vaxandi eftirspurn eftir þangi frá þessari verksmiðju.

Í ljós hefur komið, að gæði þessa þangs eru sérstaklega mikil, þ. e. a. s. alginate-innihald er mjög hátt. Komið hefur í ljós, að það er mjög jákvætt að þurrka þang við lágan hita, eins og jarðhitann. Þá tapast langtum minna af þessum verðmætum. Sýnishorn hafa sýnt, að þetta þang er betra að gæðum en fengist hefur yfirleitt annars staðar frá. Mér sýnist því ljóst, að verksmiðja þessi muni stækka með árunum. Það þarf að gera með nokkurri varúð að sjálfsögðu og innan þeirra marka, sem þangtekjur leyfa, en eins og um hnútana er búið, m. a. að till. náttúruverndarráðs, sýnist mér öruggt, að þess verði gætt.

Ég átti nýlega tækifæri til þess að heimsækja hið skoska fyrirtæki og skoða aðra af tveimur verksmiðjum, sem það starfrækir í Skotlandi. Þetta var mjög athyglisverð heimsókn. — Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því áður, hve margslungin þessi framleiðsla er. Fyrirtækið framleiðir um 300 mismunandi tegundir af alginötum. Það er gert með því að breyta framleiðsluaðferðum í framleiðslurásinni lítillega og þó sérstaklega með því að blanda saman fjölmörgum tegundum alginata, sem unnin eru úr ýmsum þang- og þaragróðri. Mér varð ljóst, að því miður eru litlar líkur til þess, að við getum sett hér á fót verksmiðju til að framleiða endanleg alginöt eða alginatasölt. Það er nauðsynlegt fyrir slíkt fyrirtæki að hafa aðgang að fleiri þangtegundum en við eigum. Hins vegar sýndist mér mjög góðar líkur vera til þess, að þróa mætti þessa framleiðslu á Reykhólum þannig, að hálfunnin alginöt fengjust, og yrði það mjög mikið skref, mundi stórauka þar atvinnu og framkvæmdir allar. Sýnist mér það verðugt verkefni, þegar þessi verksmiðja er komin á fót, að kanna, á hvern máta slíkt megi gera.