25.10.1973
Sameinað þing: 8. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

19. mál, sjónvarp á sveitabæi

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Till. sú, sem hér er til umr., er endurflutt. Hún var flutt á síðasta þingi, eins og ég gat um rétt áðan. Ég flutti allítarlega ræðu fyrir þessari till. á síðasta þingi, og það sparar mér nú að flytja jafnítarlega ræðu um efni till. Það virðist líka ekki í sjálfu sér vera deiluatriði hér, að rétt sé að gera það, sem till. gerir ráð fyrir. Ég mun því að þessu leyti stytta mál mitt, en hins vegar mun ég víkja nokkuð í sambandi við rök mín fyrir till. þeirri, sem hér er til umr., að till. þeirri, sem hv. 1. þm. Vestf. o. fl. hafa flutt og var á dagskrá hér á undan.

Till. okkar sjálfstæðismanna er byggð á áætlun, sem lá fyrir í febr. 1972. Það er áætlun póst- og símamálastjórnarinnar, sem hefur með höndum að reisa endurvarpsstöðvar fyrir sjónvarp á vegum Ríkisútvarpsins. Það er till. þeirra um það, hvernig verk þetta verði framkvæmt, byggt á því hvernig ástandið var þá í þessum málum. Þessi áætlun var send útvarpsstjóra með bréfi, dags. 10. febr. 1972. Það fer ekki á milli mála, hvernig ástandið var þá. Fyrir þessu er gerð ítarleg grein í grg. þeirri, sem fylgdi till. okkar á síðasta þingi og er endurprentuð með till. þessari, sem nú liggur fyrir. Þar kemur ljóslega fram, að hér er um ítarlega og nákvæma áætlun að ræða. Það er enginn vafi á því, hvert umfang þessa verkefnis er, né heldur, hvað kunnáttumenn telja, að þurfi að gera til þess að leysa það. Þetta lá fyrir í febr. 1972, og það var ekki óeðlilegt, vegna þess að það hafa margir þá þegar haft áhuga á að hrinda þessu máli í framkvæmd og ekki síst Ríkisútvarpið sjálft. Þessi áætlun er líka gerð á vegum Ríkisútvarpsins, þó að hún sé framkvæmd af Landssíma Íslands.

Samkv. þessari áætlun voru það 472 sveitabæir, sem höfðu ekki sjónvarpsskilyrði eða ónothæf sjónvarpsskilyrði. Það lá ljóst fyrir þá þegar, og var gerð skrá yfir alla sveitabæi, sem hér var um að ræða, alla á landinu. Og í þessari áætlun var búið að leggja niður fyrir sér, hvað þyrfti margar endurvarpsstöðvar til þess að koma þessum sveitabæjum í sjónvarpssamband. Það voru 150 endurvarpsstöðvar. Áætlunin var nákvæmlega útfærð. Það lá fyrir, hvað hver sendistöð gæti leyst vanda margra sveitabæja. Þetta lá fyrir um alla land. Ef við tökum t. d. Vestfirðina, þá var gert ráð fyrir, að 17 sendistöðvar gætu ekki leyst vanda nema eins sveitabæjar hver, 11 leyst vanda tveggja sveitabæja hver, 4 þriggja, 3 fimm, 2 sex, 1 sjö, 2 sendistöðvar átta bæja og 2 níu. Þetta voru Vestfirðir. Alveg hliðstæðar upplýsingar eru um það, hvað þurfti í öðrum kjördæmum landsins. Töflur yfir þetta voru á síðasta þingi prentaðar með grg., er fylgdi málinu þá, og þær eru endurprentaðar með grg., sem fylgir málinu núna. Þetta hefur ekki verið vefengt. Ég sé raunar ekki, hvernig á að vefengja það, þetta liggur alveg ljóst fyrir. Þetta er staðreynd. Vegna þessa gerði till., sem ég og meðflm. mínir fluttu á síðasta þingi, ekki ráð fyrir neinni áætlanagerð, og við gerum ekki heldur ráð fyrir henni nú. Slíkt er einungis til þess að tefja málið að óþörfu. Þetta er ekki svo flókið mál, að það sé ekki hægt að byggja á þeim áætlunum, sem helstu kunnáttumenn í þessum efnum hafa gert og skilað formlega til útvarpsstjóra um þetta mál. Hvað eru menn að tala um áætlanir?

Það er rétt, að frá frumtill. felst frávik í till. hv. l. þm. Vestf. og þeirra félaga. Það er rétt. Ég var ekki að nefna það hér áðan, þegar ég sagði nokkur orð í umr. um það mál. Það var kannske ekki ástæða til þess að vekja athygli á þessu af tillitssemi við hv. 1. þm. Vestf. En hann stóð hér upp í pontuna á eftir og gerði það sjálfur, svo að það verður ekki um það að sakast, þó að ég geri það.

Í áætlun póst- og símamálastjórnarinnar var líka athugun á því, hvað verkið mundi kosta. Það var gert ráð fyrir í febr. 1972, að það mundi vera nálægt 1 millj. á sendistöð að meðaltali eða um 150 millj. alls. En um þessa tölu voru gerðir fyrirvarar af hálfu Landssímans, og fyrirvarar voru líka gerðir í till. okkar á síðasta þingi og í till. þeirri, sem hér liggur fyrir. Það er bent á, að síðan þessi áætlun hafi verið gerð, hafi komið til gengislækkanir o. fl., sem raska þessu. Það er þess vegna ekki rétt, sem hv. 1. þm. Vestf. var að gera eitthvert atriði úr, að það væri einhver ágreiningur um, hvort þetta verk kostaði 150 millj. eða 225. Það er enginn ágreiningur um það. Það er líklegast, að kostnaðurinn sé eitthvað þarna á milli, og líklega verður hann meiri, áður en lýkur, sérstaklega ef verkið verður tafið.

Ég sagði, að ég gæti sparað mér að endurtaka hér þá röksemdafærslu, sem ég flutti fram fyrir nauðsyn þessa máls á síðasta þingi. Meginkjarninn er sá, að Ríkisútvarpið getur ekki framkvæmt þetta verk, eins og fjárhag þess er komið og tekjumöguleikum. Sá tekjustofn, sem samkv. lögum á að fara til þessa verkefnis, þ. e. a. s. tolltekjur af innfluttum sjónvarpstækjum, er smámunir og segir ekkert í þessu efni. Auk þess er það svo, að Ríkisútvarpsins biða fjölmörg önnur viðfangsefni, sem mætti segja, að væri eðlilegra, að það stæði undir með sínum almennu tekjustofnum, ef búið er sómasamlega að Ríkisútvarpinu í þeim efnum, sem ekki er nú. En þar á ég við brýnt verkefni, sem er framundan og er aðkallandi, þ. e. að koma upp svokölluðu örbylgjukerfi í stað endurvarpskerfisins, sem sjónvarpið byggir nú á. Auk þess er rétt í þessum sambandi að benda á hið þýðingarmikla verkefni, sem enn er óleyst, þ. e. að bæta sjónvarpsskilyrði umhverfis landið á fiskimiðunum. Það er því bæði, að Ríkisútvarpið hefur engin tök nú á því að láta framkvæma það verk, sem þáltill. þessi fer fram á, og þó að eitthvað rættist úr fjármálum Ríkisútvarpsins frá því, sem nú er, þá eru næg aðkallandi og mikilvæg önnur verkefni. Ég geri ráð fyrir því, að við hv. 1. þm. Vestf. séum sammála um þetta, og liggur í augum uppi, að hann hefði ekki tekið upp þessa till., nema svo væri. Ég sagði, að ég vildi frekar ræða frumrit till. heldur en afrit. Að sjálfsögðu var þetta nokkuð fært í stílinn, en það, sem ég sagði, var, að höfuðefni beggja till. er hið sama.

Ég mun þá með nokkrum orðum koma að því, sem hv. 1. þm. Vestf, hefur talið heppilegra að víkja frá till. okkar sjálfstæðismanna, til þess að ekki mætti bókstaflega segja, að um hreint afrit væri að ræða. Ég held, að ég hafi leitað svo vel, að mér sé óhætt að segja, að það séu ekki nema þrjú atriði. Og hver eru þessi atriði?

Það er í fyrsta lagi, að það er talað um áætlun. Ég er þegar búinn að tala um áætlun í till. hv. 1, þm. Vestf. og þeirra félaga. Ég er þegar búinn að gera grein fyrir því, að þessi áætlun liggur fyrir, svo að mér finnst hv. 1. þm. Vestf. hafa verið nokkuð mislagðar hendur, út því að hann vildi laga þetta eitthvað til fyrir sér. Og það er líka greinilegt, að hann hefur vitað betur sjálfur, því að þótt hann megi þetta í sjálfri þáltill., þá förlast honum ekki sýn, þegar út í grg. kemur. T. d. er ein setning í grg. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Ekki hefur verið unnið að framkvæmdum samkv. framkvæmdaáætlun þeirri, sem Landssíminn hafði gert.“ Ég get nefnt fleiri atriði í grg. Þetta liggur alveg ljóst fyrir. Áætlun þessi hefur verið gerð, og hv. 1. þm. Vestf. kemst ekki sjálfur fram hjá þessu í sinni eigin grg.

Þá er gert ráð fyrir í þeirri till., sem hér liggur fyrir, að framkvæmdin verði gerð á tveim árum, en í hinni till. er gert ráð fyrir þriggja ára áætlun. Hér sýnist mér, að hv. 1. þm. Vestf. verði á aðalskyssan, þegar hann vill með þessum hætti koma í veg fyrir það, að við getum sagt í bókstaflegri merkingu, að hans till. sé afrit. Það er vegna þess, að þetta felur í sér drátt á þessu þýðingarmikla máli, sem hv. 1. þm. Vestf. hafði ekki nógu sterk orð um, hve væri mikið þarfamál og mikið réttlætismál. Ég bið menn að taka eftir, að hv. 1. þm. Vestf. ásamt fleirum ber raunverulega ábyrgð á því, að stjórnarliðið á Alþ. svæfði till. okkar sjálfstæðismanna í fyrra. Ef hann hefði séð réttlætið þá og þörfina, þá læt ég ósagt um það, hvort við hefðum ekki fengið till. samþ. í fyrra, og það hefði þá þýtt, að þessu verki væri lokið á árinu 1974, sama árinu og hann leggur nú til, að það verði hafið. Geta menn nú tekið alvarlega svona hluti? Væri ekki rétt af hv. 1. þm. Vestf. að gera þá bragarbót að fylgja hreinlega þeirri till., sem hér liggur fyrir. Ef hann gerði það, þá mundi það þýða, að framkvæmd þessa verks væri flýtt um eitt ár. Ég spyr: Hvers vegna ekki?

Ég sagði, að mér virtust það vera þrjú atriði, sem hv. 1. þm. Vestf. hefði sett inn í sína till. aðeins til þess að víkja frá upprunalegu till. Það síðasta, sem ég ætla að víkja að, er, að hann skýtur inn í sína till. orðunum: „með viðráðanlegum stofnkostnaði“. Hann gefur í skyn, að það eigi að draga úr þessu verki, að því er virðist. Ef þetta hefur einhverja meiningu aðra en aðeins bara að sýna fram á, að það sé ekki alveg sama orðalag og í till. þeirri, sem hér liggur fyrir. Hann er þá með einhvern undanslátt í þessu máli og ætlar að velja úr einhverja bæi á Vestfjörðum eða annars staðar, sem eiga ekki að hljóta þessi réttindi, sem hann réttilega kallar svo, að fá aðstöðu til þess að horfa á sjónvarp. En hv. 1. þm. Vestf. virðist ekki alls varnað í þessu efni, því að hann hefur fengið einhverja bakþanka um þetta. Í grg. eru einhverjar óskiljanlegar hugleiðingar um, að það eigi að leggja einhverja kapla frá sveitabæjum að fjarlægum loftnetum, eins og hann segir. Svo er hann að tala um, að heimamennirnir geti sjálfir grafið fyrir þessum köplum. Ég verð nú að segja, að það er ansi hart að verða að taka við slíku frá hv. þm. og það meira að segja hv. þm. Vestf. Slíkar hugleiðingar fela í sér, að gera eigi ráð fyrir því, að það eigi að gera eitthvað minna fyrir fólkið í dreifbýli í þessu efni heldur en fólk almennt og það eigi að setja bændur í skurðgröft til þess að koma niður einhverjum köplum. Ég held, að þetta atriði stoði hv. 1. þm. Vestf. lítið til þess að færa sönnur á það, að hann sé að meina eitthvað annað með sinni till. heldur en þeirri, sem við sjálfstæðismenn höfum borið fram og hér liggur fyrir.

Það er annars spaugilegt, að þegar hv. l. þm. Vestf. útbýr sína till. og hefur till. okkar sjálfstæðismanna fyrir sér og fylgir henni og meira að segja í grg., þá þurfi hann, aðeins til þess að hafa það ekki nákvæmlega orðrétt, að tala um, að það sé 471 býli, sem hafi ekki sjónvarpsskilyrði, en í skýrslu Landssímans stendur 472, og það er sú skýrsla, sem er birt sem þskj. með till. okkar sjálfstæðismanna. Er þetta nokkur munur! Breytir þetta nokkru um það, sem ég var að segja áðan, að hér væri um afrit að ræða af frumtill? Það er spaugilegt að koma með slíka hluti sem þessa. Og þó að hv. þm. forðist að tala um „sveitabæi“ í sinni till., af því að það er talað um sveitabæi í till. okkar sjálfstæðismanna, og tali þess vegna bara um „býli“, halda menn, að það séu einhver rök fyrir því, að hér sé um eitthvert annað mál að ræða? Nei, ég held, að það sé ekki.

Hv. 1. þm. Vestf. með sinni síðari ræðu í umr. um síðasta dagskrármál gaf mér tilefni þess að fara nokkrum orðum um þetta, og ég hef gert það og ætla ekki að eyða fleiri orðum að þessu atriði.

Ég vil svo að lokum leggja áherslu á það, hve þýðingarmikið mál þetta er. Og við megum ekki, þó að till. séu tvær, láta það verða til þess að tefja fyrir þessu máli. Ég vil treysta því, að það sé meiri hl. í Alþ. til þess að hrinda þessu máli í framkvæmd, þegar menn séu að tala um þörfina í þessu efni og réttlæti í þessu efni, þá meini þeir það og standi að því, að raunverulegar framkvæmdir verði gerðar í málinu. En ég verð að segja, að það eru mér mikil vonbrigði, ef Alþ. fellst ekki á till. þá, sem ég er hér að mæla fyrir, vegna þess að hún gerir ráð fyrir, að verkið sé framkvæmt á tveimur árum. Mér eru það mikil vonbrigði, ef Alþ. fellst ekki á þetta, en fari að hlaupa eftir till. hv. 1. þm. Vestf. o. fl. að framlengja þetta þannig, að það verði 3 ár, þegar svo virðist samkv. allri röksemdafærslu hv. 1. þm. Vestf., að þetta frávik sé einungis sett til þess að geta sagt, að till. hans sé ekki bókstaflega afrit af till. þeirri, sem hér er mælt fyrir.