13.12.1973
Efri deild: 34. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1343 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

152. mál, tollskrá o.fl.

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég verð nú að harma það, að hæstv. fjmrh. er ekki viðstaddur þessa umr. Ég ætla að fara nokkrum orðum um frv.

Ég sé á bls. 210 í aths. við lagafrv., að þar er greint frá því, að starfshópur embættismanna, sem fjmrh. fól að undirbúa málið, hafi samið frv. Út af fyrir sig er það eðlilegt, það er svo „tekniskt“, að það er ekki á færi annarra manna en sérfróðra að fjalla um það. Erindi hafa verið send til ákveðinna hópa, og þar eru tilnefnd Félag ísl. iðnrekenda, Félag ísl. stórkaupmanna, Samband ísl. samvinnufélaga og Verslunarráð Íslands. Það hefði nú ekkert verið úr vegi að senda erindi t. d, til Landssambands ísl. útvegsmanna og til bændasamtakanna, því að þessir aðilar eru það stórir neytendur af vörum, sem á að breyta hér tollum á, að ég teldi alveg eðlilegt, að þeirra álits hefði verið leitað. Ég man eftir því, að þegar við vorum að vinna í þessu sama máli á sínum tíma hjá fyrrv. ríkisstj., þá höfðu þessir aðilar mjög margt við það frv. að athuga, og mér segir svo hugur um, að þeir vilji gjarnan fá þetta frv. einnig til meðferðar. Það flýtir því alls ekki fyrir afgreiðslu málsins að hafa ekki haft hliðstæð samráð við þessa stóru hagsmunahópa og hina, sem til eru nefndir hér í aths.

Það er eðlilegt, að þessar breytingar komi fram, en ég verð að harma það, hversu seint þær komu fram, þegar aðeins er um vika til vinnu hér á Alþ., og það er nánast útilokað, — það verður að segjast hreinskilnislega, — alveg útilokað að ætlast til þess, að þn. geti farið í gegnum þetta frv. núna, eins og málum er háttað með vinnuálag síðustu daga fyrir jól. Það vita allir hv. þm., að það er raunverulega sama og að leggja málið inn og ætlast til þess, að við réttum strax upp hendurnar með því, því að við getum engan veginn athugað það á þann veg, sem nauðsynlegt er, með þessu móti.

Það er einnig talað um það á bls. 213, að ekki sé hægt að setja fram róttækar till. um breytingar á fjáröflunartollakerfinu, nema samhliða uppstokkun á tekjuöflunarkerfi ríkisins komi fram í heild. Að þessari endurskoðun er nú unnið. Ég veit ekki, hvað þessi endurskoðun er langt komin. Okkur hefur ekki verið gerð nein sérstök grein fyrir því, a. m. k. ekki í stjórnarandstöðunni, og þetta eru auðvitað mál, sem við mundum spyrja rækilega um í nefnd.

Þetta er það stórt mál, að það er útilokað að ætlast til þess, að við getum samþykkt það, sem hæstv. fjmrh. drap á hér og gerð var aths. við af síðasta ræðumanni, eins og segir á bls. 214 og ég þarf ekki að endurtaka, að það eigi að líta á það sem skuldbindingu um hækkun söluskatts, er nemur a. m. k. einu söluskattsstigi, ef við föllumst á tollalækkun. Ég mótmæli svona framsetningu og tel mig geta staðið að tollalækkun í ljósi þeirra staðreynda, sem ræddar voru hér í gær klukkutímum saman, hver aukning hefur átt sér stað á innflutningi landsmanna á þessu ári og gera má ráð fyrir, að hún verði veruleg á næsta ári. Því segi ég, að það liggur ekkert fyrir, hversu ríkissjóður muni tapa í raunverulegum tekjum, þó að við hreyfum tolla nokkuð, enda segir svo hér um áhrif tollalækkana á tekjum ríkissjóðs: „Um áhrif þessara tollalækkana á tekjur ríkissjóðs er ekki hægt að segja til með mikilli nákvæmni .“ Það er tekið bókstaflega fram í frv. Eins og fram hefur komið, eru 2/3 hlutar þessara tollbreytinga gagnvart öðrum löndum en EFTA, frjálst val um tollahreyfingu. Verður auðvitað hæstv. ríkisstj. að gera sér grein fyrir, hvað hún vill ganga langt í þessu efni, þegar um frjálst val er að ræða. En ætla að segja um okkur hina um leið, að það skuldbindi okkur til að standa að söluskattsbreytingunni, tek ég hreinlega ekki við.

Síðan eru smáaths. þarna, sem óþarfi er kannske að vera að tala um, en ég hnaut t. d. um eitt atriði, sem ég hefði viljað fá a, m. k. embættislega skýringu á, hvers vegna á að fara að hreyfa hestaflatölu vissra aflvéla í þágu sjávarútvegs og landbúnaðar og ýmissa annarra upp á við, þannig að hér er um verri afgreiðslu að ræða en var fyrir þessar starfsgreinar. Það hljóta einhver sérstök rök að liggja til þess, að hér er farið aftur á bak að mínu mati. Ýmislegt fleira smávegis mætti til nefna. En það, sem ég er óánægður með og lýsti yfir á sínum tíma andstöðu við, er sú mismunun, sem á að halda við enn einu sinni í tollum á bifreiðum. Hæstv. fjmrh. hefur enn einu sinni undirstrikað það, að engin leið sé að hjálpa því fólki með mismuninn í skattheimtu, sem vinnur við fiskvinnslu. En það kemur hér fram skýrt og skorinort enn einu sinni, að það sé sjálfsagt að mismuna mönnum í sambandi við bifreiðainnflutning. Ég segi það sem mína persónulegu skoðun, að allar fólksflutningabifreiðar á Íslandi eigi að vera í sama tollflokki. Það má svo deila um það, hversu hár tollflokkurinn á að vera. En að gefa stórum hópi manna möguleika á því að hafa bifreiðarnar í mismunandi tollflokki, hafa flókið kerfi í kringum það, tel ég tilheyra liðinni tíð, og ég vil ekki samþykkja slíkt ákvæði, alls ekki. Það er frjálst val hverjum sem vera skal, hvort hann vill leggja fyrir sig að vera leigubílstjóri eða sendiferðabílstjóri eða eitthvað annað, og hann veit, að hverju hann gengur, og hans taxtar eru settir í samræmi við allan kostnað á bifreiðinni. Ég hef lýst því áður hér úr þessum ræðustóli, að ég tel, að skattar af bifreiðum eigi að vera lægri, en við eigum heldur að taka hærri gjöld í gegnum eyðsluna. Ég vildi þess vegna stuðla að því, að hið gífurlega álag á bifreiðum lækkaði.

Ég vildi aðeins, að þessar aths. kæmu fram, svo að það lægi ljóst fyrir, að ég tel alveg óraunhæft að ætlast til þess, að við getum afgreitt frv., a. m. k. stjórnarandstaðan, nú fyrir jól. En hvað á þá að gera? Ég tel. að hæstv. fjmrh. geti lýst yfir, að fjmrn. sé reiðubúið að endurgreiða tollalækkanir, sem verða kunna á þeim vöruflokkum, sem frv. fjallar um. Innflytjendur á þeim varningi til iðnaðar eða einhverjir aðrir, sem verða að greiða hærri tolla í bili, segjum einn mánuð eða einn og hálfan mánuð, fái þá endurgreidda, þegar hv. Alþ. hefur gengið frá frv. á eðlilegan hátt. Slíkt hefur oft átt sér stað. Það skapar smáskriffinnsku, en ekkert óleysanlegt vandamál. Þetta er gert í sambandi við allar gengisbreytingar og margvíslegar aðrar hreyfingar varðandi innflutning, þannig að þetta er ekkert óleysanlegt vandamál. Það kostar aðeins að leggja inn fé fyrir tollafgreiðslu að óhreyttum tollatöxtum í dag, en þegar frv. hefur fengið eðlilega meðferð, þá væntanlega lækka allmargir tollar okkar, og þá tel ég vel hægt að endurgreiða alveg frá áramótum til þess að leysa þennan vanda. Ég tel það ekkert sérstakt vandamál.