25.10.1973
Sameinað þing: 8. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

19. mál, sjónvarp á sveitabæi

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég skal lofa því, að ég skal vera stuttorður og ekki lengja mál mitt, eins og hv. síðasti ræðumaður hefur tamið sér.

Hv. þm. reyndi að gera nokkurn samanburð á þessum tveimur till., en hann gleymdi einu mikilvægasta atriðinu, og það er, að till. okkar, sem við flytjum hér 8 framsóknarmenn, er raunhæf, en till hv. þm. er óraunhæf og fyrst og fremst yfirboð. Ég ætla að líta á nokkra þætti, sem hann nefndi jafnframt, máli mínu til stuðnings og til rökstuðnings því, sem ég held, að allir muni sjá, að svo er sem ég hef nú sagt.

Hv. þm. talaði mikið um, að það þyrfti ekki að gera áætlun. En það er eftirtektarvert, að í þeirri grg., sem fylgir þessari till., er yfirleitt og raunar alltaf talað um athugun Landssímans. Í ræðu hv. þm. frá því í fyrra er talað um skýrslu og yfirlit Landssímans. Aðeins á einum stað í grg. er minnst á áætlun, og þar segir svo: „Þó að hér sé um grófa áætlun að ræða.“ En ég tók ekki betur eftir en í orðum hv. þm. væri nú talað um ítarlega framkvæmdaáætlun.

Það er rétt, að ég minnist á framkvæmdaáætlun, en sú framkvæmdaáætlun var til eins árs aðeins yfir það, sem Landssíminn áleit, að ætti að gera á næstunni. Og ég get upplýst hv. þm. um það, að ég hef rætt um þessa svokölluðu áætlun við starfsmenn Landssímans, sem ekki kalla þetta áætlun, þetta heildaryfirlit, sem nær til 471 býlis. Þeir tala um yfirlit. Og ég vona, að hv. þm. sé ljóst, að sums staðar í okkar eigin kjördæmi er svo ástatt, að ekki er búið að mæla þannig, að unnt sé að staðsetja endurvarpsstöðvar. Ég treysti því, að hann þekki svo vel til mála þar a. m. k. þessi er ein aðalástæðan fyrir því, að við leggjum áherslu á, að gerð sé áætlun til þriggja ára, sem nái til þeirra býla, sem unnt er að koma sjónvarpi til með viðunandi kostnaði.

Ég skammast mín heldur alls ekki fyrir það að tala um viðunandi kostnað. Á 12 ára tímabili viðreisnarstjórnarinnar tókst ekki að koma rafmagni til 233 býla á Vestfjörðum. Varla var komið rafmagni til nokkurs býlis. Það er ekki fyrr en hæstv. ríkisstj., sem nú situr, kom til valda, að gerð var ítarleg og viðunandi áætlun um rafvæðingu sveitabýla hér á landi í framhaldi af því, sem áður hafði verið gert. Og ég held, að við verðum að horfast í augu við þær staðreyndir, að til eru býli, sem eru þannig staðsett, að ekki er unnt að koma til þeirra sjónvarpi nema með mörgum endurvarpsstöðvum, og ég skammast mín ekkert fyrir að standa frammi fyrir þeim mönnum, sem þannig er ástatt fyrir, og ræða þau mál við þá og gera þeim grein fyrir þessu. Menn þessir skilja, að fyrst og fremst er um yfirboð eitt að ræða, þegar fullyrt er, að unnt sé að koma sjónvarpi til hvers og eins sveitabýlis.

Hv. þm. gerir lítið úr því, sem ég benti honum á og bent er á í grg., að sums staðar megi leysa þetta með ódýrari máta en með endurvarpsstöð, með svokölluðum köplum. Hann hefur aldrei verið sérstaklega vel að sér í tæknihlutum, það veit ég, en ég hefði haldið, að honum væri kunnugt um, að m. a. er verið að berjast í því núna að leysa vandamál býla á Vestfjörðum á þennan máta. Ég vona, að hann viti t. d., að það liggur núna fyrir áætlun frá Landssímanum um þessa lausn fyrir Munaðanes á Ströndum, einn þann bæ, sem afskekktastur er í því kjördæmi e. t. v. og ekki er unnt með viðunandi hætti að koma sjónvarpi til með endurvarpsstöðvum. Ég veit ekki, hvort hv. þm. veit, að menn þar hafa lagt á það ríka áherslu, að ef þeim yrði lagt til efni,. Þá skyldu þeir leggja það í jörðu. Þeir skammast sín ekkert fyrir það. Og ég veit ekki, hvort hv. þm. er kunnugt um, að svo hefur verið gert viðar á þessu landi. Landssíminn hefur lagt til efnið, og bændur hafa sjálfir gengið frá því. Þeir vilja leggja þetta á sig. Ef þetta getur orðið til þess að flýta útbreiðslu sjónvarps, sé ég satt að segja ekkert athugavert við slíkt, þó að því verði vitanlega fagnað, ef unnt er að gera þetta á annan máta.

Ég vil taka fram, að ég tel það einn meginmun á þessum tveimur till., að í till. okkar er gert ráð fyrir þremur árum í stað tveggja. Ég held, að hver meðalgreindur maður sjái, að 150 endurvarpsstöðvar verða ekki reistar á tveimur árum, tveimur sumrum. Um þetta getur hv. þm. rætt við tæknimenn Landssímans. Þeir hafa ekkert bolmagn til þess, alveg útilokað mál. Því verð ég að segja, að satt að segja er mjög vel á málum haldið, ef unnt er að gera það á þremur árum.

Niðurstaðan verður því sú, að till. hv. þm. og hans kollega er yfirboð, till., sem þeim hefði sjálfsagt aldrei dottið í hug að flytja, ef þeir hefðu verið í stjórnaraðstöðu. Það sýnir m. a. framkvæmdavilji þeirra í raforkumálum, sem ég hef rakið hér áðan. Það er því ákaflega mikill munur á þessum tveimur till. Till. okkar er raunhæf, en þeirra till. er óraunhæf.