13.12.1973
Efri deild: 34. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

151. mál, skráning og mat fasteigna

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég fagna því, að þetta frv. er hér komið fram. Það hefur um nokkurt skeið verið mönnum fullljóst, að nauðsyn bar til að setja ný lög um skráningu og mat fasteigna. Þetta frv., sem hér er lagt fram, hefur fengið langan undirbúning og verið mikið skoðað og af mörgum mönnum. Eigi að síður er málið það yfirgripsmikið, að ég geri ráð fyrir, að sú n., sem fær það til meðferðar, muni koma til með að eyða í það mikilli vinnu, og ég efast ekki um, að á því verða gerðar breytingar í meðferð hennar.

Það eru örfá smáatriði, sem mig langaði að koma að í byrjun og áður en frv. gengur til nefndar, og er það þá fyrst þar til að nefna, að það eru viss orð, sem notuð eru í frv., sem ég felli mig ekki að fullu við og vildi vekja athygli á.

Í 1. gr. er talað um „véltækjaskrásetningu“ allra fasteigna í landinu. Það má vel vera, að þetta sé það, sem nota skal og orðið sé hentugt. Ég þekki véltæk tún og annað því um líkt, en ég hef aldrei heyrt talað um þetta, og ég þarf ugglaust að átta mig á þessu eða hugsa mér það í þessu formi nokkra stund, áður en mér líst á orðið.

Í 2. gr. er getið um greiningu eignar. Þar segir í 1. tölul., að hver sá skiki lands, sem vegna sérgreinds eignar- eða afnotaréttar, hagnýtingar auðkenna eða „landmarka“ o. s. frv. Ég hef ekki heldur heyrt þetta orð notað um landamerki á jörðum, og ég sé ekki ástæðu til þessarar nafnbreytingar, nema ég sé bundinn af einhverri mállýsku, það kann að vera. Ég er ekki svo kunnugur víða um land, en í mínu nánasta umhverfi er alltaf talað um landamerki en ekki landmörk. Ég vil aðeins benda á þetta.

Svo eru hér tæknileg orð, sem ryðja sér mjög til rúms í seinni tíð og ég hef ekki fellt mig við. Í 3. gr. er talað um, að skráning á fasteignum skuli fela í sér nýjustu upplýsingar, sem á hverjum tíma eru tiltækar um eftirtalin atriði, sem fasteignina varða, auk nauðsynlegra „greinitalna“ hverrar fasteignar. Ég veit ekki vel, hvað þetta er. Í 6. gr. er talað um, að Fasteignaskrá beri að annast gerð og samræmingu hvers konar „greinitalnakerfa“, sem notuð eru um fasteignir við skráningu þeirra, þar með talin gerð „staðgreinitölukerfis“, sem taki til landsins alls. Ég hef nú ekki lesið frv. gaumgæfilega frá upphafi til enda, en mér sýnist, að slík atriði sem þessi, þó að þau virðist í fljótu bragði vera lítilsverð, þurfi að taka til athugunar og skoðunar.

Þá vil ég nefna það, að mér sýnist fljótt á litið, að það sé vafasamt, hvort nauðsynlegt sé að hafa 3. gr. l. í því formi, sem hún er hér. Þar er talað um skráningu fasteignarinnar og hvaða upplýsingar skuli vera fyrir hendi, og er því ítarlega lýst og í mörgum undirliðum. Ég tel mjög eðlilegt, að það sé skoðað, hvort ekki sé heppilegra að fella þarna niður undirliðina og fella þá heldur aftur inn í reglugerð, sem sett væri um lögin, því að ég sé, að ráð er fyrir því gert, að reglugerð sé sett um þessi lög eins og mörg önnur.

Hér er gert ráð fyrir því, að sett verði upp sérstök stofnun, sem nefnist Fasteignaskrá, og hef ég ekki neitt við það að athuga. Ég þykist sjá það, að fasteignamati, eins og það er orðið nú, verði ekki fyrir komið á sama hátt og gerðist áður, og ég sé ekki betur fljótt á litið en þarna sé eðlilega af stað farið. Og eins og hæstv. ráðh. tók fram, er hér í raun og veru ekki um neitt nýmæli að ræða í þessu efni, heldur aðeins formbreytingu.

Þá vil ég aðeins koma að því, að mér virðist, að ákvæði 9. og 10, gr. stangist á um eitt atriði, eða kannske ekki stangist á, heldur sé þar tvítekning á sama hlutnum. Það er gert ráð fyrir því í 9. gr., að byggingafulltrúar séu ábyrgir fyrir, að Fasteignaskrá berist upplýsingar um lönd og lóðir og breytingar á þeim, svo og um öll mannvirki, sem gerð eru í umdæmi þeirra hvers um sig. Sömuleiðis ber þeim að tilkynna breytingar og eyðingu mannvirkja.

10. gr. byrjar á þessum orðum: „Sveitarstjórnir eru hver í sínu sveitarfélagi ábyrgar fyrir sérstakri endurskoðun á því, að Fasteignaskrá hafi borist upplýsingar um mannvirkjagerð, breytingar á mannvirkjum eða eyðingu þeirra, sbr. 9. gr.“ Mér sýnist, að gert sé ráð fyrir því, að byggingafulltrúar séu ábyrgir fyrir því, að sveitarstjórn standi í stöðu sinni, og að sveitarstjórn sé ábyrg fyrir því, að byggingafulltrúarnir geri skyldu sína. Mér þykir ekki óeðlilegt, að byggingafulltrúarnir séu inni í þessu dæmi, en mér finnst óþarft, að tveir aðilar séu ábyrgir fyrir því, að sami hluturinn berist endurskoðaður til fasteignamatsskrár.

Ég mun ekki hafa þessi orð öllu fleiri um þetta frv. að þessu sinni. Það gefst tími til þess síðar, og ég efast ekki um það, að þegar málið er skoðað betur en enn hefur gefist tóm til, þá komi fleiri atriði til álita.

Í 18. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að skipaðir séu sérstakir matsmenn, sem eiga að vinna úr þeim upplýsingum, sem frá byggingafulltrúunum koma. Þeir eiga að vera matsmenn fyrir fasteignamatsnefndina, sem leggur málið svo fyrir yfirfasteignamatsnefnd síðar. Ráðh. getur ákveðið fjölda matsmanna og aðsetur í þessari röð: Í Reykjavík, á Akureyri, Egilsstöðum, Selfoss, Ísafirði, Borgarnesi, Sauðárkróki og í Keflavík. Matsstjóri getur sett matsmenn til starfa hvar sem er á landinu, eftir því sem verkefni falla til. Ég átta mig ekki alveg fyllilega á samhenginu í þessu, en það verður að skoðast nánar í meðförum.

Eins og ég sagði í upphafi, þá fagna ég því, að þetta frv. er hér fram komið. Mér er það ljóst og hefur lengi verið það ljóst, að það er búið að leggja allt of stóra fjármuni í fasteignamat í landinu núna við síðasta mat, til þess að þær upplýsingar megi falla dauðar niður og verði ekki notaðar í samræmdu mati. Samhengi verður að vera í fasteignamatinu frá ári til árs.