25.10.1973
Sameinað þing: 8. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

19. mál, sjónvarp á sveitabæi

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Það má kannske segja, að ég hafi ekki mikla ástæðu til þess að svara hv. síðasta ræðumanni, vegna þess að það voru ekki sterk rök, sem hann kom með. En mér þykir samt hlýða að sýna honum þá virðingu að segja nokkur orð í tilefni af því, sem hann sagði.

Hann fullyrti það og sagði, að það væri aðalatriði þessa máls, að hans till, væri raunhæf, en till. okkar sjálfstæðismanna óraunhæf og hún væri yfirboð. Till., sem gerð var á undan, er orðin yfirboð á till., sem gerð var á eftir. (StH: Hún var eftir á þessu ári.) Hún var eftir á þessu ári, segir hv. þm. En breytir það nokkru um það, að till. var til meðferðar á þinginu síðasta? Getur nokkur byggt á slíku sem haldgóðum rökum? Nei, við verðum að ræða þetta mál á annan veg en þennan. Og hann sagði, að það væri ekki alls staðar í grg. með till. þeirri, sem hér er til umr., okkar sjálfstæðismanna, talað um áætlun Landssímans, þó væri það sums staðar. En hann sagði, að þá hefði verið talað um grófa áætlun. En af hverju var talað um grófa áætlun? Hann sleit úr sambandi það, sem verið er að tala um, að kostnaðaráætlunin hljóti að vera gróf, vegna þess að kostnaðurinn er kominn undir svo mörgum óvissum atriðum, sem eiga sér stað, frá því að áætlunin er gerð og þar til verkið er framkvæmt. Það er meira að segja í þessu sambandi talað um gengislækkanir tvær, sem þá höfðu orðið, frá því að áætlunin var gerð og þar til þetta er fært í letur, sem hv. þm. hélt, að hann gæti stutt sig við í þessum orðum, sem hann var að reyna að færa fram máli sínu til stuðnings. Og hv. þm. dregur starfsmenn Landssímans inn í þessar umr. og segir, að þeir hafi sagt, að engin áætlun væri til. Ég vil ekki segja, að þetta séu ósannindi hjá hv. 1. þm. Vestf., vísvitandi. En þetta er ekki rétt. Það geta fleiri talað við starfsmenn Landssímans heldur en hv. 1. þm. Vestf., meira að segja 5. þm. Vestf. getur talað líka við þessa menn. Og dettur hv. 1. þm. í hug, að áður en við sjálfstæðismenn lögðum fram till. okkar á síðasta þingi, höfum við ekki athugað þetta mál gaumgæfilega og ekki rætt við Landssímann? Hver trúir svona fullyrðingum?

Það er alveg rétt, að þó að það liggi fyrir áætlun, sem gerð er 1972, þá þarf í meðferð verksins að taka þá áætlun til meðferðar á hverju ári. Það liggur í hlutarins eðli. En það er skjalfest hér í bréfi frá póst- og símamálastjórninni til útvarpsstjóra, að 1. hluti af þessari framkvæmdaáætlun, þ. e. a. s. það, sem þeir gerðu ráð fyrir, að eðlilegt væri að gera á árinu 1972, liggur fyrir í febr. 1972. (StH: Vill ekki hv. þm. lesa bréfið?) Ég get lesið þessa setningu, ég fer ekki að lesa allt bréfið, nema hv. þm. ítreki þá ósk, þá get ég lesið það, því að það er mjög til stuðnings við minn . . . (StH: Ég ítreka.) Ja, ég skal gera það, með leyfi hæstv. forseta:

„S. l. vetur sendum vér yður lista yfir þá sveitabæi á Íslandi, sem búist var við, að mundu njóta slæmra eða ónothæfra sjónvarpsskilyrða, þegar áætluðum framkvæmdum ársins 1971 væri lokið. Ýmsar athuganir og mælingar voru gerðar á þessum málum s. l. sumar, og sendum vér yður nú endurskoðaðan lista. Á þessum lista eru nú 472 sveitabæir. Eins og áður hefur þeim nú verið raðað saman til þess að sýna, hverjir þeirra gætu hugsanlega verið saman um endurvarpsstöð. Út frá þessari röð má síðan gera sér nokkra grein fyrir þeim fjölda endurvarpsstöðva, sem þarf, eftir því sem lengra er gengið á sjónvarpsvæðingu landsins.

Tafla 1 sýnir niðurstöður þessarar athugunar, en samkv. henni mun þurfa um 150 stöðvar til viðbótar til að ná 100% þjónustu. Að líkindum yrði þessi tala nokkru hærri í raun, þar eð sumar endurvarpsstöðvarnar mundi verða að staðsetja þar, sem sjónvarpsmerki eru ekki fyrir hendi, og þyrfti því tengistöð til viðbótar. Á framkvæmdaáætlun fyrir árið 1972, sem yður hefur áður verið send, var gert ráð fyrir byggingu endurvarpsstöðva, sem þjónaði allt niður í 50 manns eða um 8 sveitabæi hver:

Hér fylgja svo margar töflur og skýrslur, sem ég ætla ekki og kemur ekki til hugar að fara að lesa hér upp. En ég vil aðeins benda á það, að þegar á þessum tíma lá fyrir áætlun um það, sem ætti að gera 1972. En þá var gert ráð fyrir, að það yrði lokið vissum framkvæmdum á árinu 1971. Þeim framkvæmdum hefur ekki enn verið lokið sumum, og þar á ég við sveitabæi á Tjörnesi og í Breiðdalsvík. Þessu átti að vera lokið fyrir árslok 1971. Af þessu sést, hve hörmulega er komið þessum málum, að þessu er ekki enn þá lokið í dag.

Sannleikurinn er sá, að það hefur ekki staðið upp á neina áætlunargerð í þessum efnum. Það hefur staðið á fjármagni. Og það hefði verið hægt að vinna sleitulaust að þessum málum á árinu 1972 og 1973, ef fjármagn hefði verið fyrir höndum. Með sama hætti hefði verið hægt að vinna samkv. till. okkar, sem við lögðum fram á síðasta þingi, á árunum 1973 og 1974 og ljúka þessu á tveim árum. Það er ekkert, sem fram hefur komið í þessum málum, sem segir, að það sé óraunhæft að gera ráð fyrir því, að loksins sé hægt að ljúka þessum framkvæmdum á næstu tveim árum, eins og till. sú, sem hér er til umr., gerir ráð fyrir.

Ég held, að hv. 1. þm. Vestf. geri sér grein fyrir, hve höllum fæti hann stendur í þessu efni. Þess vegna bregður hann sér á létt skeið og fer að tala um 12 ára viðreisnartímabil og rafmagnsmálin í því sambandi. Nei, það eru ekki rök í þessu máli. Það eru heldur engin rök í þessu máli, að ég sé ekki vel að mér í tæknimálum. Auðvitað undanskilur hann, að hann sé vel að sér í tæknimálum. En er það nokkuð hér til umr.? Er ég að byggja á mínum athugunum og mínum áætlunum? Ég byggi minn málflutning á því, sem unnið hefur verið af tæknimönnum Landssímans í þessu efni. Ég ætla mér ekki meira hlutskipti. En ég vil leyfa mér að halda fram, að það sé engin fjarstæða að byggja á þessu og segja hv. 1. þm. Vestf. frá þessu, þó að hann telji sig mikinn tæknimann.

Svo er hv. þm. að nefna einn bæ á Vestfjörðum, Munaðarnes á Ströndum, og þá heldur hann að það sé eitthvert haldreipi í þessu máli, að hann segist hafa haft samband við bændur í Munaðarnesi. Ja, ég var í Munaðarnesi sjálfur, það geta fleiri en hv. 1. þm. Vestf. komið í Munaðarnes. Ég hafði þar næturgistingu nú fyrir 4 vikum, og ég taldi mig alveg eins geta rætt um þetta mál við þessa ágætu menn eins og hv. 1. þm. Vestf. Nei, það stoðar ekki að koma með svona atriði og tefla slíku tali sem þessu fram sem nokkrum rökum í þessu máli. Ef við ætlum að rökræða um þetta mál, þá ættum við að gera það á öðrum grundvelli en þessum.

En það, að hv. 1. þm. Vestf. hefur kosið að leiða umr, inn á þessa braut, sýnir, að hann hefur ekki áhuga á miklum rökræðum um málið. Ég lái honum það ekki. En ég vænti þá þess, að hann láti sér það að kenningu verða og gerist nú eindreginn stuðningsmaður og fylgjandi þeirrar till., sem hér liggur fyrir.