13.12.1973
Neðri deild: 40. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

60. mál, hjúkrunarlög

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Þetta frv. hefur þegar hlotið samþ. í Ed. Alþ., og þar virðist ekki vera neinn ágreiningur um efnisatriði þess. Frv. var samið í heilbr: og trmrn. á s. l. sumri. Aðalástæðan fyrir því, að talið var nauðsynlegt að endurskoða hjúkrunarlögin frá 1962, var sú, að í eldri lög var talið vanta ákvæði um sérnám í hjúkrun og viðurkenningu á slíku sérnámi. Allmargar hjúkrunarkonur hafa farið utan og lagt stund á kennslufræði, spítalastjórn, heilsuvernd og geðhjúkrunarfræði, en í þessum greinum öllum er engin kennsla hér á landi. Þetta er yfirleitt 1–2 ára nám, og hafa hjúkrunarkonurnar flestar stundað það annars staðar á Norðurlöndum og einnig í Bretlandi. Aftur á móti hafa stærstu sjúkrahúsin hérlendis boðið upp á sérnám í röntgenfræðum, svæfingafræðum og hjúkrun á skurðdeildum. Það nám þyrfti að auka og samræma og bæta síðan við fleiri sérgreinum innan hjúkrunar. Má þar nefna hjúkrun á barnadeildum, lyflækninga- og handlækningadeildum. Nauðsynlegt er að gera ákveðnar kröfur um námsefni og námstíma allra þessara hópa og veita þeim viðurkenningu að námi loknu. Þá þykir rétt, að hjúkrunarleyfi séu veitt af rn. Nú eru hjúkrunarskólarnir orðnir tveir og auk þeirra komin námsbraut í hjúkrunarfræðum við Háskóla Íslands. Þarna þarf því að koma til samræming við leyfisveitingu til annarra heilbrigðisstétta.

Sérstök n., þar sem heilbrrn. á að eiga einn fulltrúa, menntmrn. annan og Hjúkrunarfélag Íslands þann þriðja, á að fjalla um hjúkrunarleyfi samkv. frv. Sú n. mun einnig fjalla um viðurkenningu á sérnámi hjúkrunarkvenna, og getur Hjúkrunarfélagið nefnt tvær sérfróðar hjúkrunarkonur, sem vinna með n. hverju sinni, t. d. heilsuverndarhjúkrunarkonur, röntgenhjúkrunarkonur o. s. frv.

Þetta er meginefnið í þessu litla frv., sem ég vona, að hljóti eins góðar undirtektir hér í Nd. og það hefur fengið í Ed.

Ég legg svo til. herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.