13.12.1973
Neðri deild: 40. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

93. mál, sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á fiskiskipum

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég get tekið undir það með tveimur ræðumönnum, sem talað hafa í þessu máli, að það er að sjálfsögðu æskilegt, að hæstv. ráðh. hafi framsögu fyrir því og skýri það á venjulegan hátt, og vona ég, að hann hafi tíma til, þó að hann hafi um önnur stórmál að hugsa í dag.

Þeir tveir hv. þm., sem talað hafa, hafa sérstaklega gagnrýnt það atriði, sem bæst hefur inn í frv. varðandi ábyrgð á ferju, sem Akurnesingar eru að kaupa til siglinga milli Akraness og Reykjavíkur. Um hv. 3. þm. Norðurl. v. vil ég aðeins segja, að hann er viðurkenndur bæði sem vitrastur og snjallastur okkar hér í þinginu að mörgu leyti, svo að þeirra hluta vegna þykir okkur vænt um hann, og okkur yfirsést það, að hann er undir niðri einn af harðari íhaldsmönnum þessarar samkomu, þó að hann sýni það ekki nema öðru hverju, en það kom vel í ljós í viðhorfum hans til þessa máls, sem eru ekki ný, því að hann hefur árum saman í samgn. barist á móti stærri flóabátum landsins, þeim, sem þjónað hafa því, sem kalla mætti þéttbýli.

Um hv. 2. þm. Vestf. er það að segja, að mér finnst það koma úr hörðustu átt frá flóabátsforstjóra, duglegum og virðulegum, sem rekur ágætt skip með góðum árangri vestur á landi, ef hann telur nauðsynlegt fyrir sig að reka hornin í þá viðleitni Akurnesinga, sem fram kemur í þessu máli.

Mér finnst ekkert óeðlilegt við það, þó að tvö ríkisábyrgðamál séu höfð í sama frv. Það er til nokkuð, sem heitir bandormur, og er gömul starfsaðferð, sem Alþ. grípur til, þegar því þykir það henta að setja jafnvel miklu óskyldari mál saman heldur en þessi. Ég tel því, að það séu mjög eðlileg vinnubrögð, að ríkisábyrgðir, jafnvel þó að hluti þeirra sé um fiskiskip og annar hluti um flóabáta, séu í einu og sama frv., og ekkert við það að athuga, þó að fleiri atriðum sé bætt inn í frv. á leið þess í gegnum Alþ. Einmitt vegna þess, að unnt er að bæta við efni frv., gerir stjórnarskráin ráð fyrir, að þau fari í gegnum a. m. k. sex umr.

Í samgöngumálum ríkir það viðhorf hjá öllum landsmönnum, að þeir óska eftir því að fá eins greiðar samgöngur við aðra staði og þeir geta fengið. Þeim er ekki nóg, að það sé fær vegur, ef það er augljós önnur leið, sem gæti flýtt enn fyrir þessum samgöngum. Þess vegna eru um allt land uppí óskir um það að leggja nýja vegi, sem eru styttri en eldri vegir, og brúa ár, þegar það styttir leiðir milli tveggja staða, og jafnvel að brúa firði. Um það eru hugmyndir víða um land, þó að það hafi ekki nema einn verið brúaður enn þá, þegar slík samgöngubót getur orðið til þess að stytta verulega leið á milli tveggja staða. Það má tala af léttúð um það, að Hafnfirðingar og Keflvíkingar kunni að fá einhverjar flugur um það, að þeir þurfi lystisnekkju. En af hverju fengu þeir þennan ágæta veg, sem þeir fengu suður eftir? Var ekki fær vegur áður og rétt klukkutíma ferð frá Keflavík til Reykjavíkur? Hún var ekki ófær, hún var farin af þúsundum bifreiða á hverjum degi, svo að samkv. þessum röksemdum ættu menn að segja, að það sé alger óþarfi að vera að leggja þessa nýju vegi hér um nágrennið, til Keflavíkur, til Selfoss. Af hverju þurftum við að leggja þennan veg, sem er kominn til Selfoss? Var ekki fært áður, jafnvel á köflum á hluta leiðarinnar eftir fleiri en einni leið? Það, sem hér er um að ræða, er, að ferjan, sem hefur siglt á milli Akraness og Reykjavíkur, er að verða úrelt, það þarf að kosta mikið upp á hana innan skamms, ef skipið verður ekki endurnýjað, oft ekki ætti að þurfa að segja Íslendingum, að skip þarf að endurnýja á vissum aldri. Þetta nýja skip, sem Akurnesingar hafa keypt, á að geta siglt á milli staðanna á 3/4 úr klst., en það er rösklega ekið á milli þessara staða á 1½–2 klst. eftir árstíðum og færð, svo að það er um að ræða þarna klukkutíma styttingu á þessari leið. Vilji hv. þm. reikna út, hvað klukkutíma sparnaður á jafnfjölfarinni leið þýðir í sparnaði á eldsneyti og ökutækjum og öðru slíku, þá er það reikningsdæmi, sem ég er óhræddur við, að verði skoðað.

Þó að einn þm. snúist öndverður gegn þessu máli og hafi barist á móti siglingum milli Akraness og Reykjavíkur í mörg ár í samgn. og annar sé að malda í móinn, sennilega til að reyna að koma höggi á ráðh., — ég held, að honum sé ekki alvara um neina andstöðu gegn flóabátum, — þá vil ég benda þeim á, að farþegafjöldi á þessari leið, milli Reykjavíkur og Akraness, er kominn upp í rúm 60 þús., svo að ég tel, að það standi hér 60 þús. atkv. á móti 1 og kannske 1½. Þetta er talandi tákn. Vegurinn er þarna og það tekur þennan tíma, sem ég sagði, að komast á milli, en samt sem áður er farþegatalan komin upp í rúmlega 60 þús. Gamla skipið hefur mjög lélega aðstöðu til þess að flytja bíla og getur ekki haft þá nema þar, sem sjór getur slest á þá, og það er alls engin prófraun á það, hvort menn mundu vilja fara með bíla sína hér á milli.

Það er líka eins og hver önnur léttúð að vera að ásaka Akurnesinga um það, að þeir ætli að íþyngja ríkissjóði stórkostlega með kaupum og rekstri þessa skips bara til að geta komist á kappleiki eða aðrar skemmtanir hér í Reykjavík. Þetta er eins og hver annar þvættingur.

Akranes er sveitarfélag með dálítið á fimmta þús. íbúa. Þróun þessa sveitarfélags hefur um langt árabil verið erfið og allt að því óhagstæð, sérstaklega vegna þess, að brottflutningar frá Akranesi og hingað á Reykjavíkursvæðið hafa verið svo miklir, að bærinn hefur ekki haldið eðlilegri fjölgun, fyrr en þá kannske síðustu 1–2 árin, að þetta hefur örlítið batnað. Þarna er því um að ræða bæ, sem er að berjast við það að halda byggðinni við, halda uppi atvinnuvegum og þjónustu, þannig að fólk vilji vera þar og þar verði álíka mikil fjölgun og er að meðaltali í landinu öllu, svo að við göngum ekki lengra.

Við vitum, að það hefur mjög mikil áhrif á allt athafna- og félagslíf í byggðarlögum að vera í nágrenni við þéttbýli. Þetta þekkja menn á Suðurnesjum, þetta þekkja menn fyrir austan fjall og líka uppi á Akranesi. Og við vitum, að iðnaður ýmiss konar og þjónustuframleiðsla, sem reynt er að koma þarna upp til að veita fólki atvinnu, byggist að verulegu leyti á þessu nábýli. Það skiptir miklu máli fyrir þessar byggðir að geta haft greiðar samgöngur við þéttbýlissvæði hér, bæði til aðfanga og til að selja framleiðslu sína og margs annars. Við getum borið saman þróun Keflavíkur og þróun Akraness. Vöxtur Keflavíkur hefur verið miklu meiri á síðari árum, miklu meiri og örari, jafnvel þó að við tökum augljós áhrif frá flugvellinum og drögum þau frá. Og Keflavík er núna komin með töluvert á sjötta þús. íbúa, meðan Akranes hefur staðið í stað með liðlega 4 þús. Ég leyfi mér að fullyrða, að munurinn á samgöngum við þéttbýlið hér í Reykjavík og nágrannabæjum er það, sem mestu veldur um, hvað vöxtur Akraness hefur verið miklu minni.

Ástæður fyrir því, að Akurnesingar vilja leggja eitthvað í sölurnar til að fá góðar samgöngur, eru því augljósar. Á þeim byggist tilvera bæjarfélagsins, atvinnulíf þar, möguleikar á að koma upp iðnaði og öðrum fyrirtækjum á öllum sviðum og á félagslífi á staðnum. Ég hygg, að veruleg bót að samgöngum milli þessara staða mundi t. d. draga verulega úr fólksflutningum frá Akranessvæðinu og hingað til Reykjavíkur, og mundi það sjálfsagt reynast verða töluverður sparnaður. Ég held því, að menn megi ekki verða svo forstokkaðir íhaldsmenn að amast við því, að það sigli skip á þessari leið. Það er ekki að bera saman við Borgarnes. Siglingar þangað lögðust niður vegna þess, hvað siglingar eru örðugar á Borgarfirði sjálfum, fjörðurinn skerjóttur. Þær reyndust svo óhagstæðar, að Borgnesingar tóku sjálfir ákvörðun um að hætta þeim, því að til skamms tíma hafa þeir verið sterkasta aflið í Skallagrími h/f, sem á Akraborgina. Þeir tóku sjálfir ákvörðun um, að ekki væri gerlegt að láta hana sigla alla leið til Borgarness.

Hv. 2. þm. Vestf. spurði, hver ætti að bera hafnarkostnaðinn í sambandi við þetta og hvort það ætti að setja hann inn í framkvæmdaáætlun. Það er mjög eðlilegt, að hann spyrji. En ég verð að upplýsa minn ágæta félaga um það, að samkv. íslenskum lögum eru ferjubryggjur hluti af vegum. Það eru ákvæði í vegalögum um það, hvernig fara á eða má með byggingu á ferjubryggjum. Það mun því reyna á það eftir frekari athugun, hvort þetta mál heyrir þar til eða til eiginlegra hafnamála. Um þetta er mér ekki kunnugt, að nein endanleg niðurstaða hafi fengist enn. En það segja þeir, sem standa að kaupum þessa skips á Akranesi, að sá kostnaður eigi ekki að verða svo mikill í samanburði við kostnað við skipið, að það geti ráðið úrslitum. Og skipið mundi ekki verða talin óviðráðanleg eða stórbrotin fjárfesting, ef um fiskiskip væri að ræða, þannig að menn geti talað um 120–130 millj. sem stórfelldar upphæðir, þegar um eitt er að ræða, en blási á þetta eins og smámuni, þegar um annað er að ræða.

Ég tel að það sé þröngsýni að berjast gegn því, að það verði haldið uppi eðlilegum samgöngum á þessari leið. Hvalfjarðarvegurinn þjónar ekki bara Akranesi, hann þjónar öllu landinu. Hann þjónar miklu meira öðrum hlutum Vesturlands, Vestfjörðum, Norðurlandi öllu, og jafnvel mætir maður þar bílum, sem eru að flytja vörur alla leið austur á firði. Og það er engin frágangssök, þó að slíkt skip sé rekið við hliðina á þeim vegi, þegar um er að ræða jafnfjölmennt byggðarlag og Akranes er. En þess má geta, að í vegakerfinu er Akranes allt að því eins og eyja. Það er ekki mín hugmynd að gera þar samanburð, það gerði einn af þm. Alþb. hér fyrir tveimur árum, ef ég man rétt, benti á þá staðreynd. Vegakerfið liggur þannig, og er alllangur akstur frá aðalveginum norður út á Akranes. Þó að Akurnesingar vilji bæði vegna eigin byggðarlags og til þess að reyna að tengja það frekar í samgöngukerfi landsins halda uppi samgöngum á þessari leið, finnst mér ekkert eðlilegra og við getum alveg eins veitt því hvern þann stuðning, sem Alþ. telur á hverjum tíma eðlilegan, ef til þess kemur, eins og við getum stutt samgöngur á flóabátum um allt land. Flóabátarnir okkar hafa tekið á sig ýmsar myndir í seinni tíð. Flóabátastyrkirnir eru nú veittir til snjóbíla, þeir hafa verið veittir til flugvéla og til samgangna af ýmsu öðru tagi. En öll hafa verkefnin haft það sameiginlegt, að þetta eru samgönguverkefni, sem eru sérstæð og ástæða til þess að veita stuðning til að halda þeim uppi. Þetta á við Djúpbátinn, og þetta á við marga aðra flóabáta í kringum allt land. Við þurfum ekki að undrast það, þó að lausn á samgönguvandamálum af þessu tagi og rekstur flóabáta sé ekki gróðafyrirtæki eða standi ekki undir sér, ég held, að það sé ekkert land í víðri veröld, þar sem því er að heilsa, nema kannske rétt á einni og einni leið. Ég vil því vænta þess, að menn láti af þessum afturhaldsfjandskap við Akurnesinga og sýni þeim sama tillit og sama skilning og menn sýna öðrum byggðarlögum og vandamálum þeirra og afgreiði þetta frv. eins og það kemur frá Ed.