13.12.1973
Neðri deild: 40. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (1191)

93. mál, sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á fiskiskipum

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja umr. í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir, aðeins segja nokkur orð í sambandi við það, sem hæstv. fjmrh. tilkynnti hér áðan, að sótt hefði verið um ríkisábyrgð fyrir væntanlegum kaupum á Vestmannaeyjaskipi. Ég held, að það verði ekki sagt, að það mál sé nýtt hér á Alþ., það hefur verið rætt hér á undanförnum árum þó nokkuð oft, og á árinu 1972 var skipuð n. um samgöngumál Vestmannaeyja. Hún skilaði áliti í árslok 1972, þar sem hún að meiri hl. til, 4 af 5 nm., mælti mjög eindregið með því, að nýtt skip yrði byggt til Vestmannaeyjaferða. Ég vil því leyfa mér að vænta þess, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, taki vel því erindi, sem nú liggur fyrir frá Vestmanneyingum um fyrirgreiðslu um ríkisábyrgð í sambandi við væntanlega byggingu á skipi. Ef það mál er ekki afgreitt nú, þá mun það seinka okkar hugmyndum um nýtt skip til þessara ferða um heilt ár, og væri það að mínum dómi mjög illa farið. Þess vegna ítreka ég það, að ég vænti þess, að sú hv. n., sem fær málið til athugunar, verði því meðmælt og leggi til, að heimild fyrir ríkisábyrgð verði afgreidd nú með þessu frv.