13.12.1973
Neðri deild: 40. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Frsm. (Garðar Sigurðsson) :

Herra forseti. Hér liggur nú fyrir til 2. umr. frv. til 1. um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni ásamt nál. sjútvn. og brtt., samtals í 26 liðum, sem n. hefur komið sér saman um að flytja við frv. Framantalið er á þskj. 120, 224 og 225. Ég bið hv. þm, að hafa þessi þskj. við höndina, þegar gerð verður grein fyrir brtt.

Það hefur ekki farið fram hjá mér, að sumum hefur þótt nóg um, hversu seint þetta frv. er á ferðinni, og ég get út af fyrir sig vel skilið það. En það er skoðun mín, að þegar þingmáli er vísað til n., þá sé það gert í því skyni, að hún kanni það sem gaumgæfilegast, en afgreiði ekki málið með málamyndaskoðun. Það er auðvitað spurning, hvort breyta eigi frv., sem hefur hlotið eins langan undirbúning og þetta, og í framhaldi af því, að hve miklu leyti og hvers vegna. Það þarf að taka tillit til margra hluta og ég vil taka fram ekki aðeins til togveiða, ef leitað er að fyrirkomulagi til þess að nýta fiskistofnana á sem skynsamlegastan hátt innan landhelginnar, án þess að um rányrkju verði að ræða. Það er skoðun mín, að miklu meira og strangara eftirliti þurfi að koma á með fiskveiðum, ekki síst í því að koma í veg fyrir óhóflegan netaaustur, sem minnkar gæði aflans stórlega, svo sem reynslan sýnir. Forkastanlegt smáfiskadráp, seiðadráp og misþyrmingu á humarstofni þarf að koma í veg fyrir, að svo miklu leyti sem framast er unnt. Eftirlit með friðuðu svæðunum þarf að vera strangt og nákvæmt og ströng viðurlög við brotum, hvort sem um er að ræða togveiðar eða netaveiðar. Fiskurinn er alveg jafndauður, hvort sem hann lendir í netum eða trolli. Það þarf að taka tillit til samsetningar flotans, afkastagetu ýmissa hluta hans og veiðimöguleika. Í því sambandi má nefna, að með auknum flota skuttogara af meðalstærð hljótum við að taka vaxandi hlutfall aflans á þau skip. Þessir togarar gerbreyta afkomu fiskvinnslunnar víða um land með því að lengja starfstíma frystihúsa og skapa jafna, samfellda vinnu í þeim í stað óvissrar hrotuvinnu og gefur möguleika á betri áætlunum, skipulagningu og framleiðni í fiskiðnaði en verið hefur. Um þennan þátt uppbyggingar fiskiflotans mætti flytja langt mál. en það er óþarft hér. Þeim, sem gerkunnugir eru þessum hlutum, er ljóst, að með þessum þætti er nánast um byltingu að ræða í þessum efnum.

Það þarf líka að taka tillit til minnstu bátanna og einnig til síldveiðibátanna okkar, sem hafa orðið að snúa sér að öðrum verkefnum margir hverjir. Þessir bátar eru allstórir, en hafa ekki það vélarafl, sem dugir til að toga á við skip, sem eru sérsmíðuð til togveiða. Síðast og kannske ekki síst þarf að taka tillit til þess, að enn ráðum við ekki einir okkar 50 mílna landhelgi og með samningunum við breska stríðsmenn og þýska tollmúramenu, sem von er á, hafa forsendur nokkuð breyst frá því, sem gert var ráð fyrir í upphafi meðgöngutíma þessa frv. í sambandi við togveiðiheimildir og þann mílufjölda frá landi, sem um er getið í þessu frv., ber mönnum að hafa í huga, að stærð fisks við landið vex ekki í réttu hlutfalli við fjarlægð frá landi, það er aðeins gömul bábilja. Það er líka af gamalli kerlingabók, að troll og dragnót skemmi botngróður, því að hann fyrirfinnst ekki neðan við 15–20 faðma dýpi og hvergi á svæðum, þar sem sandur er á hreyfingu. Mílufjöldi frá landi segir ekki heldur sömu söguna hvar sem er við landið, vegna þess að landgrunnið er mjög misbreitt, dýpi á því misjafnt, svo að ekki sé talað um, hversu misjafnt botnlag er um að ræða o. s. frv.

Ég skal nú láta þessum hugleiðingum lokið, því að sist sæti á mér að lengja umr. um þetta frv., svo ljós sem mér er nauðsyn þess, að það verði afgreitt fyrir hátíðar. Ég vil aðeins segja það, að þær brtt., sem hér liggja fyrir, eru samkomulagstill. þm. úr öllum flokkum, nema einum reyndar, Frjálslynda flokknum. Þær eru þess eðlis, að þess hefur verið freistað að finna málamiðlun, þar sem tekið hefur verið tillit til áðurnefndra atriða og margra fleiri. Ég mun nú reyna að gera grein fyrir ýmsum brtt. við frv. munnlega, þótt það hefði verið æskilegt að hafa hér hangandi stórt sjókort eða annað tæki, sem sýnt gæti hv. þm. betur, hvað um væri að ræða.

Eins og ég sagði áðan, eru þessar brtt. allmargar eða í allmörgum liðum. Brtt. sjálfar eru í 6 liðum, en samtals í 28 atriðum, að mig minnir. Og ég vil ítreka það, sem ég sagði fyrr, ef þm. vilja fylgjast með í hverju brtt. eru fólgnar, að þeir hafi hjá sér þskj. 120. Jafnframt því vil ég benda mönnum á að hafa við höndina eða fletta upp á bls. 16 og 17 í frv., þar sem eru kort af þeim veiðiheimildum, sem nú eru í gildi, og þeim veiðiheimildum, sem frv. sjálft gerir ráð fyrir. Með því að hafa þetta tvennt til hliðsjónar geta menn fylgst með hvoru tveggja, gr. í frv. og þeim myndum, sem eru á bls. 16 og 17.

Þessar samkomulagstill. eru niðurstaða þeirrar vinnu, sem unnin hefur verið í sjútvn. í haust. Ég mun reyna að gera grein fyrir hverri gr. fyrir sig, að svo miklu leyti sem það er hægt, án þess að geta bent á nákvæmt kort.

1. brtt. er við 2. gr., og hún nær í stafrófinu í undirliðum aftur að n, — og vorum við heppnir, að hún skyldi ekki ná aftur fyrir z. Við 2. gr. eru þá þessar brtt.:

A-liður við 2. gr.:

„Á eftir 1. mgr. komi: Þar sem í l. þessum er rætt um skip 350 rúmlestir og minni, eru undanskildir sérsmíðaðir skuttogarar með aflvél 1000 bremsuhestöfl eða stærri.“

Tilgangurinn með þessari brtt. er sá að koma skuttogurum okkar öllum upp fyrir þessa síldarbáta eða þessa síldarbátategund, sem ég talaði um hér áðan. Það er ekki sanngjarnt, að skuttogarar, sem mældir eru 299 lestir, lendi með bátum, sem hafa mörgum sinnum minni afkastagetu heldur en þessi skip. Þeir togarar, sem nú hafa verið keyptir frá Noregi, hafa verið byggðir til þess að geta fallið undir 300 tonna takmarkanir Norðmanna hvað varðar veiðiheimildir. Það er hægt að nefna dæmi um þetta. Ég get nefnt það, að togarar, einir þrír, sem hafa verið keyptir hingað til landsins og mældir 299 tonn, eru nákvæmlega jafnstórir ok togarar, sem sagðir eru vera 407 og upp í 440 tonn. Þessum mælingarreglum er víst ekki hægt að breyta, þær eru alþjóðlegar, en samkv. upplýsingum Hjálmars Bárðarsonar er von á, að alþjóðasamningur verði staðfestur nú innan tíðar um, að slíkar kúnstir verði ekki viðhafðar. Okkur í sjútvn. fannst ekki sanngjarnt, að nokkur skip, 5–6 skip, gætu komið undir bátastærðirnar með slíkum mælingaaðferðum, því að þessir skuttogarar, sem við höfum af millistærð, 400–500 tonn, eru fullt eins afkastamiklir og sennilega miklu afkastameiri en okkar gömlu togarar og slaga hátt upp í þá stóru togara, sem hafa verið fluttir hingað nú að undanförnu. Til þess er þessi 1. liður fram borinn. B-liðurinn, sem er við gr. A. 4, segir:

„Í stað „4 sjómílna“ komi: 3 sjómílna.“

Það er varðandi veiðiheimildir kringum Kolbeinsey. Hingað til hefur verið leyft að veiða upp að 3 mílum við Kolbeinsey, en frv. gerir ráð fyrir að veiða upp að 4. Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert að reyna að vernda fiskistofnana og koma í veg fyrir ofveiði, en þessi eina míla fyrir utan 3 við Kolbeinsey segir svo sem ekki neitt, því að 4 mílur frá Kolbeinsey, 5 mílur frá Kolbeinsey, 3 mílur, 6 mílur eða hvað sem er frá Kolbeinsey, það er nákvæmlega sami fiskurinn, þannig að þetta er ákaflega lítið verndunaratriði. En eftir þessu var óskað í till. frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, sem okkur bárust og þeir fluttu okkur, eins og segir frá í nál.

Næsti liður, c-liður, er við lið B. 1, Austurland. Hann er fólginn í því, að við Austfjarðasvæðið, sem er algerlega friðað fyrir togveiðum utan við 12 mílur nema við Hvalbak, er bætt dálitlu svæði sunnan við til verndunar fyrir togveiðum. Það er einkum gert með hliðsjón af óskum smáútgerðarmanna á suðurfjörðunum og þá sérstaklega á Djúpavogi. Þarna kemur dálítill geiri, dálítið væn sneið, þar sem togveiðar eru heimilaðar áður fyrir allar stærðir fiskiskipa, reyndar misjafnlega langt frá landi, en með brtt. er lagt til, að þessi svæði verði lokað fyrir togveiðum. Þetta togveiðisvæði skiptir kannske ekki ýkja miklu máli fyrir togarana — og þó, en þarna er komið í veg fyrir árekstra milli þessara skipa.

Næsti liður, d-liður, er um veiðiheimildir við Hvalbak, þar sem hafði verið gert ráð fyrir í frv., að veiðiheimildir við Hvalbak yrðu færðar frá 3 mílum út í 6 í frv., miðað við það, sem verið hefur og við höfum gert ráð fyrir þessari málamiðlunartill. að fara þarna á milli og fara niður í 4 sjómílur. Þarna er næstum því sömu söguna að segja og við Kolbeinsey, að þarna eru togaramið, og breytir ekki svo ýkjamiklu, hvort þarna er um 3, 4 eða 6 mílur að ræða, því að þarna er alls staðar sami fiskurinn, og Hvalbakurinn lítill. Í sambandi við þetta gæti ég kannske bætt við því, sem ég sagði áður um Norðurland, að till. Landssambands ísl. útvegsmanna höfðu gert ráð fyrir því, að 9 sjómílna fjarlægðin frá Grímsey væri minnkuð niður í 3 mílur. Á það gat n. ekki fallist, vegna þess að við vitum, að í kringum Grímsey og við Grímsey er fiskað mikið á litlum bátum, trillum og litlum dekkbátum, og gátum ekki fallist á að auka heimildir til togveiða á þessu svæði. Um þetta er ekki að ræða, hvorki við Kolbeinsey né Hvalbak, því að þar er ekki um smábátamið að ræða, heldur togaramið.

H-liður: „Á eftir C. 5 komi nýr liður, sem verður C. 6 og orðast svo: Á svæði, sem afmarkast af línu, sem hugsast dregin réttvísandi austur af Hvalsnesi, að línu, sem hugsast dregin réttvísindi suður af Hvalsnesi, er öllum skipum heimilt að veiða allt að 6 sjómílum frá fjöruborði á tímabilinu frá 1. maí til 31. des.“

Eins og ég sagði áðan, breyttum við þeirri línu, sem hafði markað af Austurland og Suðausturland, þ. e. a. s. línu, sem áður var og hefði hugsast dregin suðaustur frá Selskeri að línu, sem hugsast dregin réttvísandi austur af Hvalsnesi. Eins og menn sjá af gráðunum, sem þarna eru tilgreindar, er Hvalsnesið nokkru sunnar en Selskerið og allmiklu vestar. Þar með friðast þetta svæði, sem ég nefndi áður, og kemur til góða smáútgerðarmönnum á suðurfjörðunum, en þessi gr., sem ég er að tala um núna, er um það að hleypa togveiðiskipum þarna inn að 6 mílum. Það er staðreynd, sem við höfum aflað okkur upplýsinga um, að á þessu svæði getur verið um allmikla ufsaveiði að ræða á ákveðnu tímabili, einkum síðari hluta sumars og á haustin. Þarna er um stóran fisk að ræða, og þessi veiðiheimild er ákaflega lítilfjörleg hvað snertir flatarmál. Ef menn hefðu kort við hliðina, þá gætu menn sannfært sig um það, að þarna er um mjög lítið svæði að ræða inni í þessari rétthyrnu, sem stingur sér upp af Hvalsnesinu, sem þó verður að athuga, að er utan við 6 sjómílur frá landinu. Ég hef kynnt mér þetta mál allvel og rætt við skipstjóra austur á landi, og kemur þeim öllum saman um þetta atriði.

Næsti liður er nýr liður, C. 7, sem er um það, að frá 17° v. l. að línu, sem er dregin réttvísandi suður frá Lundadrang, megi togararnir koma frá 12 og inn að 6 mílum. Till, þær, sem við höfum talað um áður, frá Landssambandi ísl. útvegsmanna fólust í því, að togararnir fengju að fara þarna inn að 4 mílum. Við vildum gera nokkurn greinarmun á bátunum og togurunum í þessu efni og settum þess vegna þarna 6 sjómílur. Og með því fá togararnir dálitla veiðiheimild, sem er þó þannig, að þarna verður ekki togað nema á tiltölulega takmörkuðum svæðum ýmissa ástæðna vegna, bæði vegna hrauns í botni og dýpis í álum.

Næsti liður, j-liður, er við gr. D. 2, og það er þessi liður, sem fjallar um Selvogsbankann.

Eins og menn geta séð af þeirri mynd, sem er á bls. 17 í frv., hafa togararnir aðeins leyfi til þess að veiða inn að 9 mílum sitt hvorum megin við friðaða svæðið á Selvogsbankanum. Þetta svæði er svo lítið, að það er ekki nema allt í allt rúmlega 70 fermílur, en n. hefur fallist á ýmissa ástæðna vegna, m. a. þeirra, sem ég nefndi fyrr í minni ræðu, að þarna væri nauðsynlegt að veita togurum nokkru meiri heimildir á vertíðinni en gert er ráð fyrir í frv., því að ef þeir hefðu ekki stærra svæði en þetta, þá mundi talsverður hluti þeirra leita á Vestfjarðamiðin og hella í sig smáfiskinum á þeim svæðum í meira mæli en yrði, ef þessi brtt. næði fram að ganga. Það er sem sagt leyfilegt fyrir togarana samkv. þessum lið að koma allt að 4 mílum frá grunnlínu, og það er sú grunnlína, sem er samkv. reglugerð nr. 189/1972, þ. e. a. s. bein lína yfir þetta svæði. Till. Landssambands ísl. útvegsmanna, sem voru þeirra sameiginlegu till., einnig þeirra frá Suðurlandinu, gerðu ráð fyrir því, að miðað yrði við 8 sjómílur frá gömlu grunnlínunni, þeirri grunnlínu, sem dregin er úr Geirfuglaskeri í Einidrang og norðvestur í Selvogsvita, og þarna munar geysilega miklu. Þar hefðu þeir farið yfir geysilega mikilvæg veiðisvæði þess flota, sem stundar veiðar fyrir Suðvesturlandi á vertíðinni. Hann kemur ekki aðeins frá þeim stöðum, sem eru á Suðurog Suðvesturlandi, heldur alls staðar að af landinu, eins og menn vita. Á svona mikla rýmkun gátum við nm. ekki fallist, en kusum að fara þarna svolitla millileið, samkomulagsleið, eins og reynt hefur verið í öllum greinum.

Flatarmál þess togveiðisvæðis í heild, sem þarna opnast fyrir togveiðiskipin, er líklegast um 270–280 fermílur. Þó er það þannig, að togararnir fara ekki yfir nálægt því eins stórt svæði og Landssamband ísl. útvegsmanna gerði ráð fyrir. Vissulega verða þarna árekstrar nokkrir, bæði milli Grindvíkinga og Vestmanneyinga og annarra, netaveiðibáta annars vegar og togskipanna hins vegar, en sannleikurinn er sá, að í þessu máli verður aldrei gert neitt, sem öllum líkar.

Næsti liður, k, er um það, að nýr liður, B. 6 bætist við. Hann er í því fólginn, að þarna er tekið upp á nýjan leik það veiðihólf, sem Grindavíkur- og Suðurnesjabátar hafa haft á ákaflega takmörkuðu bili, tiltölulega fáar fermílur og mörgum sinnum færri fermílur, ef miðað er við það svæði, sem hægt er að toga á, því að sannleikurinn er sá, að þarna er ekki hægt að toga nema á tiltölulega fáum blettum. Upp úr þessu hólfi hafa komið nú undanfarið allmörg tonn og á síðasta ári líklega milli 3 og 4 þús. tonn af góðum fiski. Þarna er aðeins um að ræða veiði minnstu bátana, og þeir hefðu alveg jafnt gert sig ánægða með að færa stærðina langt niður úr 105 smálestum og allar götur niður í 70 smálestir. En þarna hafa minnstu bátarnir stundað veiðar, þeir bátar, sem hafa minnsta möguleika, smæstar vélar og erfitt með að færa sig langa vegu, og ef þessu svæði yrði lokað, þá er hætt við, að þeir þyrftu að stunda meira og minna veiðar austur við Ingólfshöfða, sem er um 150 mílur í burtu. Þess vegna höfum við í n, getað fallist á, að þetta svæði yrði opnað, eins og er nú gildandi, en ekki gert ráð fyrir í frv.

Næsti liður, 1, er um það, að nýr liður í gr. D., sem varðar Suðurland, bætist við, verði 7. liður og hljóði þannig:

„Á svæði, sem takmarkast að austan af línu, sem hugsast dregin réttvisandi suður af Lundadrang, og að vestan af 21° v.l.“, þ. e. a. s. af þeirri lengdargráðu, þar sem veiðihólf togaranna opnast yfir vertíðina, — „er öllum skipum heimilt að veiða allt að 6 sjómílum frá grunnlínu á tímabilinu frá 1, ágúst til 31. des.“

Ég vil vekja athygli á því, að þetta er lokað yfir vertíðina og aðeins opnað yfir haustmánuðina. Þetta er aðeins í samræmi við það, sem áður kom frá 17° að Lundadrangi, þannig að um sömu reglu er að ræða frá 17° að 21°. Sannleikurinn er sá um þennan lið, að skömmu eftir að kemur vestur fyrir þessa línu suður af Lundadrang, þá komum við vestur í Háfadýpið, sem gengur svo nærri landinu, að aðeins nokkrar sjómílur suður af landinu erum við komnir út á 1000 metra dýpi, þar sem enginn togari getur látið út veiðarfæri. Í rauninni er þarna ekki um meira svæði að ræða en það, að þarna er um endann á Reynisdýpinu að ræða og það svæði, sem er suður af Vestmannaeyjum. Þarna geta þeir verið sem sagt 6 mánuði á ári, og er alveg í samræmi við þá rýmkun, sem hafði orðið frá 17° að Lundadrang, þannig að þarna er um sömu heimildir að ræða, 6 mílur frá 12 mílunum.

Næsti liður, m, er stuttaralegur nokkuð í brtt. við gr. E. 1. Þar segir: „Í stað 12 sjómílur“ komi: 6 sjómílur.“ Þarna er í frv, gert ráð fyrir, að allir togarar séu reknir út frá hefðbundnum veiðisvæðum sínum hér milli Reykjaness og Snæfellsness út fyrir 12 sjómílur, að undanteknu því litla hólfi, sem kemur hér víst á eftir í frv., en ekki brtt. Þarna gerum við ráð fyrir, að togararnir fái nokkuð aukna veiðiheimild á þessu svæði, og ég hygg, að um þetta verði ekki sérlega mikið deilt og þetta sé ekkert ákaflega mikill hagur fyrir togarana, þótt það sé nokkur bót fyrir þá. Aðalsvæðið, þar sem gæti orðið hætta á árekstrum, er syðst á þessu svæði, þ.e.a.s. á Eldeyjarbankanum. Þar hefur venjulega verið lokað á vertíðinni svæði fyrir línubáta og netabáta, og það er það svæði, sem hefur orðið helsti ásteytingarsteinn milli þessara veiðiaðferða. En ég geri ráð fyrir því, að þessu viðkvæma svæði yrði lokað yfir vertíðina, og þá er þetta ekki svo ýkjamikið, en þó nóg til þess, að vaxandi togarafloti landsmanna yrði gefið færi á því að ná nokkrum afla á þessu tímabili.

Næsti liður, n-liður, er brtt. við F. 2. Menn hafa það hjá sér á bls. 2. Lagt er til af n., að dálítið verði rýmkað um fyrir togarana á þessu bili, þannig að farið verði inn um 6 mílur í staðinn fyrir 3. Við vitum vel, að sumir og kannske flestir á Snæfellsnesi hafa verið að fetta fingur út í að hafa þarna opið hólf fyrir togarana. En einhvers staðar verða vondir að vera, sérstaklega ef vondum fer fjölgandi upp á síðkastið, og sannleikurinn er sá, að togaramenn hafa ekki gert of mikið úr því að hafa heimildir á þessu svæði. Þeir hafa kannske á örlitlum tíma ársins haft gagn af því að geta veitt þarna í suðurkantinum í Kolluál. Landssamband ísl. útvegsmanna gerði ráð fyrir miklu ríflegri veiðiheimildum handa togurunum á þessum svæðum, Faxaflóasvæði, Reykjanessvæði og Selvogsbankasvæði, en þarna er aðeins fallist á það að færa inn um 3 mílur frá því, sem gert er ráð fyrir í frv., þ. e. a. s. á suðurhluta Breiðafjarðar. Breiðfirðingar hafa aðallega gert aths. varðandi það, að togararnir hirði göngurnar, sem komi inn með Kolluálnum síðari hluta vertíðar, en með því að banna allar togveiðar á norðurhluta þessa svæðis er svokölluðum Grænlandsgöngum, sem Breiðfirðingar álíta, að komi þarna inn í Breiðubugtina, norðan til, gefin greið leið inn eftir. Þessar hugmyndir, bæði þeirra og annarra í þessum efnum, eru því miður ósannaðar allar, og vantar mikið upp á rannsóknir í þessum efnum, sem okkur eru nauðsynlegri en flestar aðrar rannsóknir. Þarna held ég að hafi fengist millileið á einu af þeim svæðum, sem mest er rifist um af heimamönnum. Það er þannig á Snæfellsnesi, að ef maður hittir mann á götu í Grundarfirði og spyr hann um þessi atriði, þá hefur hann alveg ákveðna skoðun, næsti maður hefur alveg gagnstæða skoðun, og þannig hefur orðið raunin á um þær sendinefndir, sem við höfum tekið á móti í sjútvn. varðandi þessi efni. Ég skal ekki og vil ekki leggja dóm á það, hver hefur rangt eða rétt fyrir sér í þessum efnum, en þegar málið er vel skoðað og allra hlutur er rannsakaður, þá held ég, að þarna höfum við komist að málamiðlunartill., sem flestir geti sætt sig við.

Í sambandi við þennan lið hafa nokkrir þm. flutt brtt. um veiðar út af Breiðafirði, en því miður virðist ég ekki hafa þessa brtt. hjá mér. En hún er þess efnis, að liður F. 2 í frv. falli niður, þ. e. a. s. litla hólfið, sem er þarna vestur af nesinu og norður yfir Kolluálinn, togararnir séu burtrækir. Og svo er aðalatriðið í þeirra till., c-liður brtt. á þskj. 236, að veittar séu veiðiheimildir í Breiðafirði, sem ekki yrðu settar í lög, heldur yrði rn. að ákveða hverju sinni, hvar, hverjum og hvernig ætti að leyfa togveiðar í Breiðafirði. Um þetta atriði eins og fleiri önnur hef ég haft samband við hæstv. sjútvrh., og hann hefur alls ekki getað fellt sig við það, að um slíkar heimildir yrði að ræða.

Síðan gerðu þeir Breiðfirðingar breytingu á þessum till. sínum í sambandi við það veiðisvæði, sem nú er ákveðið, að það verði fært norður af því, sem er í frv. núna, en það er einmitt svæðið, þar sem veiðist talsverður koli, og Vestfirðingar og fleiri hafa gert miklar aths. og mjög strangar aths. við, að það yrði opnað fyrir togbátum líka. Þess vegna féllst n. á að láta þær veiðiheimildir duga, sem eru í frv., þ. e. a. s. hafa það óbreytt, en síðan getur rn. heimilað dragnótaveiðar á kolasvæðinu suður af bjarginu.

Þá hef ég tekið fyrir allar þær brtt., sem eru varðandi veiðiheimildir. Það er innifalið í 1. brtt. út að lið n.

2. brtt., sem við flytjum, er við 7. gr. Þar segir: „Rn. er heimilt í samráði við Hafrannsóknastofnunina að ákveða hámarkshlutfall smáfisks af afla veiðiskipa, sem landa má úr hverri veiðiferð, og viðurlög við brotum á þeim reglum.

Stundum og því miður allt of oft kemur það fyrir, að veiðiskip lenda í smáfiski, — nóg er af honum, — fylla sig og fara í land. Ef einhver slík takmörkun yrði á þessu, þannig að smáfiskur mætti ekki fara upp fyrir ákveðið mark, þá yrði kannske reynt að koma í veg fyrir þetta. Nm. gátu ekki fundið aðferð til þess að koma því í réttan búning, hvernig ætti að framkvæma þetta, en við vonum það allir í n., að fiskifræðingarnir og Hafrannsóknastofnunin og rn. geti fundið þá aðferð, sem dugir til að koma í veg fyrir gegndarlaust smáfiskadráp víða um landið.

3. brtt. er við 9. gr., og er hún flutt vegna 8. gr. í rauninni, sem við getum fundið á bls. 4 í frv. Í 8. gr. segir:

„Nú er botnvörpuskip í fiskveiðilandhelgi, þar sem því er óheimil veiði, og skulu þá veiðarfæri öll vera í búlka innanborðs, þannig að toghlerar séu í festingum og botnvörpur bundnar upp.“

Nú er þannig með skuttogarana, að hlerarnir hanga alltaf í gálgunum eða festingunum, sem þeir eru venjulega í, og þeir eru ekki teknir inn fyrir á sama hátt og gengur með síðutogarana. Trollið er tekið inn í rennu að aftan og ekki bundið upp á síðuna, eins og gerist á síðutogurunum, þannig að þarna er um allt annan frágang að ræða, og þess vegna þótti okkur rétt að setja í 9. gr., sem er heimildagr. um ýmis efni í sambandi við þetta frv., að hæta inn í hana eins og segir í brtt.:

„Á eftir orðunum „sem landa má“ komi: Og um búnað veiðarfæra á þilfari skuttogara, sem eru í fiskveiðilandhelgi, þar sem þeim er óheimil veiði.“

Þetta er framkvæmdaatriði, og ég vona, að hv. þm. skilji það.

Næsta brtt. er nr. 4 og er við 10. gr., og er sú till. í 7 liðum.

A-liður er um, að sú breyting verði gerð á 1. tölul., að orðin „fyrir eitt ár í senn“ falli niður. Þessi brtt. er sett inn, eftir að ég hafði kannað hjá ráðh. og rn., hvernig þeim félli við þessa gr., og ráðh. fannst það of bindandi að segja „fyrir eitt ár í senn“, og vildi ekki taka þetta með til þess að geta sett heimildir fyrir mjög stuttan tíma í einu, þannig að þetta yrði þá fellt burt. Það er heldur takmarkandi atriði.

Sama er að segja um b-lið. Hæstv. ráðh. kvaðst ekki vilja hafa veiðiheimild til dragnótaveiða örugglega í gildi fyrir heilt veiðitímabil. heldur geta takmarkað hana við styttri tíma.

C-liður er um niðurfellingu á afganginum á 1. tölul. Þessi niðurfelling þýðir það, að hugsanlegar eru dragnótaveiðar á Faxaflóa. Það væri óskandi, að sem flestir þm. kynntu sér þetta mál frá öllum sjónarmiðum. Það er dálítið einkennilegt að gera flota lítilla báta héðan úr Flóanum og Suðurnesjum svo erfitt fyrir, að eigendurnir sjá sér varla annað fært en að selja skip sín, ef þeir fá ekkert að fiska hér í Faxaflóanum með veiðarfærum, sem þeir kjósa helst og veiða sennilega besta fiskinn. Þessi brtt. gengur þó ekki lengra en það, að áður en slíkar heimildir yrðu veittar, yrðu að koma til umsagnir frá fiskifræðingum og Fiskifélagi og svo að lokum vilji rn. til þess að veita slíkar heimildir í ákaflega takmarkaðan tíma og væntanlega í litlum mæli, þannig að ég lít ekki eins alvarlegum augum á þessa breyt. og sumir hv. þm. gera. Ef menn halda, að dragnótin veiði eitthvað smærri fisk en þau veiðarfæri, sem nú þegar eru leyfð í Flóanum, þá er það alger misskilningur, enda liggja fyrir um það tölur. Ef menn vilja leita umsagnar mikilhæfs fiskifræðings í þessu efni, þá hefur Jón Jónsson fiskifræðingur skrifað um þetta mjög greinargóða blaðagrein nú í júlí í sumar, sem menn geta kynnt sér, ef þeir vilja.

Þá komum við að d-lið þessarar brtt., sem er um að fella burt orðið „eingöngu“ í 1. mgr. 4. tölul. Hvaða skip er eingöngu gert út til síldveiða á Íslandi, þar sem allar síldveiðar eru bannaðar? Um þetta þarf raunar ekki fleiri orð, þó að ástæða væri kannske til. Getur vel verið, að aðrir nm. vilji fjalla um þetta frekar, en ég sé ekki ástæðu til þess, þar sem það er hverjum manni augljóst, að þetta er óhæft í gr.

Næsti liður er, að á eftir orðinu „nauðsynleg“ í 2. málslið hljóði afgangurinn þannig: Þar á meðal, að allur afli annar en síld sé upptækur til Landhelgissjóðs Íslands, ef hann fer fram úr ákveðnum hluta af heildarafla. — Þarna er í rauninni um tvenns konar breyt. að ræða. Í fyrsta lagi það, að í stað ríkissjóðs, sem við höfum allir miklar áhyggjur af, komi Landhelgissjóður Íslands, sem okkur í n. finnst eðlilegra, að peningar renni til samkv. þessum ákvæðum, — og einnig það, að þarna er miðað við ákveðinn hluta af heildarafla, þannig að allur afli, sem inn kemur þarna, sé ekki gerður ónýtur, með því að henda honum í sjóinn, þó að hann sé smávægilegur, því að þannig er með þessi síldveiðiskip, að þau stunda einmitt veiðar með mismunandi veiðarfærum og jafnvel með fleiri veiðarfærum í senn.

Þá er það næst f-liður. Hann er sama eðlis og það, sem ég var að tala um áðan. Þar er aðeins um þetta ákvæði um ákveðið hlutfall af heildarafla að ræða, og um það þarf víst ekki að segja margt, ef menn kanna greinina vel.

Sama er að segja um g-liðinn, þar kemur aðeins „til Landhelgissjóðs Íslands“ í staðinn fyrir „til ríkissjóðs“, og ég á bágt með að trúa því, að nokkur þm. hér á hv. Alþ. verði til að mótmæla þessum orðalagsbreytingum.

5. brtt. er fólgin í því að fella saman 2. og 3. tölul. í frv. annars vegar og 4. og 5. tölul. í frv. hins vegar, þ. e. a. s. nm. fannst eðlilegt að miða sektirnar við þær stærðir, sem gert er ráð fyrir í frv. Í frv. er gert ráð fyrir 3 stærðum: Í fyrsta lagi veiðiskipum allt að 105 lestum, í öðru lagi veiðiskipum allt að 350 lestum, með þeim undantekningum, sem getið er um í 1. brtt., og loks stærri veiðiskipum, þ. e. a. s. togurunum. Þess vegna fannst okkur eðlilegt að hafa sektirnar þrenns konar, en ekki í 5 liðum, þar sem stærðarmörkin eru þrenns konar. Að öðru leyti breytist gr. ekki neitt.

Næsta brtt., 6. brtt., er við 14. gr. og er í stuttu máli um það, að þar sem talað er um fangelsi „að 2 árum“ í 14. gr. komi: „að 6 mánuðum“. Satt að segja hefði ég persónulega, — en eins og ég sagði áðan, er nú farin þarna samkomulagsleið, — viljað minnka þetta miklu meira. Mér finnst alveg fáránlegt árið 1973 að gera ráð fyrir því, að skipstjórar séu settir í tugthús, í fangelsi í 2 ár fyrir að brjóta þessi lög. Það er næstum því eins og manndráp, ef ekki meira. Ég er dálítið hissa á því, að þeir menn, sem sömdu þessa gr. í frv. — ég vil taka fram, að við þm. höfðum auðvitað ekki svona hugmyndaflug, — að þeir lögspekingar, sem hafa sett þetta inn í frv. skyldu ekki setja inn í þetta eins og 50 vandarhögg líka. Ég hef heyrt þær röksemdir, að þetta væri sett þarna til þess að geta dæmt útlendingana nógu andskoti hart. Þó að okkur sé ekkert sérlega vel við Breta og þeir hafi komið heldur rustalega fram við okkur í þessu deilumáli, þá eru breskir sjómenn líka menn. Ég kæri mig ekkert um að beita öðrum refsiákvæðum við þá heldur en aðra menn. Við erum allir menn, hvar sem við eigum heima í veröldinni. Tveggja ára tugthús finnst mér fáránlegt, og það er með naumindum, að ég geti sætt mig við þessa brtt., að fara upp í 6 mánuði. Ég vonast til, að hv. þm. séu ekki búnir þeim hefndarhug að þurfa endilega að fara að hafa nautn af því að loka menn inni í tugthúsi í mörg ár, þó að þeim verði á að brjóta einhver ákveðin lagaákvæði.

Með þessu hef ég farið yfir þær brtt., sem n. hefur lagt fram. Eins og ég gat víst um áður, vil ég ekki verða til þess að draga þessar umr. um of á langinn, en ég vil minna hv. þm. á það og sérstaklega þá fulltrúa, sem telja sig vera sérstaklega friðunarsinnaða, að gæta þess, að lög um veiðiheimildir í fiskveiðilandhelginni falla úr gildi um áramótin. Ef þetta frv. kemst ekki í gegn fyrir hátíðar, þá verðum við einu sinni enn að framlengja þær veiðiheimildir, sem nú eru í gildi og eru miklu meiri heldur en þær, sem gert er ráð fyrir í frv. og brtt. Er vonandi, að friðunarmenn verði ekki til þess, að við þurfum að halda þeim áfram. Og ég vil óska þess, að hæstv. forseti reyni að koma þessu máli af í þessari d. sem allra fyrst, þannig að Ed. geti fengið málið sem fyrst til meðferðar.