13.12.1973
Neðri deild: 40. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í B-deild Alþingistíðinda. (1202)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hafði satt að segja hugsað mér að vera mjög stuttorður við þessa umr. málsins. En þegar maður sér, hvernig á er haldið af hv. þd. í þessu máli, sem kallað hefur verið æ ofan í æ, ekki aðeins af ráðh. og stuðningsmönnum ríkisstj., heldur og þm., að hér væri um lífshagsmunamál þjóðarinnar að ræða, þá satt að segja þakka ég þann heiður, sem þeir hinir sýndu okkur 5, sem sitjum hér í d. auk hæstv, forseta, að okkur sé falið að halda um þessa lífshagsmuni. Reyndar vil ég segja af mörgum orðum, sem hér hafa fallið í dag, að við gætum vel gert það, og án þess að nokkur blettur kæmi á það góða mál. En það er eiginlega á takmörkunum, herra forseti, að það sé hægt að bjóða þm. upp á að ræða þetta mál, þegar ekki eru fleiri mættir í húsinu, ég verð að leyfa mér að segja það. En ef hæstv. forseti kýs heldur að halda áfram á þann veg, að við ræðum málið, er kannske hægt að velta því fram og aftur fyrir sér í nokkrar klukkustundir, þangað til menn mæta.

Mér þykir full ástæða til þess að þakka hv. frsm. sjútvn. fyrir framlag hans til að reyna að ná samkomulagi í sjútvn. Nd., og reyndar ekki aðeins formanni, heldur og öðrum nm., sem sáu sjálfir, þegar málið kom til þeirra, að það hafði orðið mikil breyting á, auk þess sem margir nm. voru á allt annarri skoðun en þeir, sem frv. höfðu samið, eins og hafði komið fram á síðasta þingi. Einn þeirra var ég, sem m. a. sagði og segi enn, að það væri ekki nóg að stinga bringfara niður í mitt Ísland og draga hring í kringum landið sjálft og hafa mismunandi fjarlægðir og segja: Hér á þessi skipastærð að vera, í næsta hringfara, sem er nokkru utar, skal vera næsta skipastærð og svo víðara og víðara, þangað til við komum að því, að við ætluðum að láta hringfarann ná út að 50 mílum. Það nægir ekki til að gefa okkur einhliða rétt, heldur verðum við að stansa aftur við 12 mílur, og m. a. vegna þess hafa margir af höfundum þessa frv. snúið til baka með þá skoðun sína, að það ætti að kný,ja þetta í gegn með einhverju offorsi, eins og virtist liggja við um tíma, heldur bæri að endurskoða frv. og breyta því í samræmi við þá staðreynd að við hefðum aðeins yfirráðarétt einhliða yfir svæðinu, sem nær út að 12 mílna mörkunum.

Við höfum bent á það, sem beittum okkur fyrir því í sjútvn. Nd., að það væri ekki nóg að einblína á hinn gamla flota okkar, sem var til fyrir tugum ára og enn er til, heldur yrðum við líka að horfa á, að samsetning flotans hefur gerbreyst. Alls staðar í kringum okkur eru sjávarpláss, sem munu byggja upp sína tilveru á því, að þeirra fiskiðnaður fái jafnt og stöðugt hráefni frá þeim nýju skutskipum, sem eru að nálgast sjötta tuginn og íslenska þjóðin hefur verið að fjárfesta í á undanförnum mánuðum. Á sama tíma og þessi sjávarpláss reikna með þessu og íslenska þjóðin hefur fjárfest í þessu, eins og stóð í því enska tímariti, Fishing News, fyrir stuttu, á þrettándu millj. punda verðmæti, koma menn, sem enn þá eru með í huga bátana, sem voru byggðir um og upp úr aldamótum og fram undir árið 1940, og segja: Þetta er sá skipastóll, sem við þurfum að byggja á. Eða hinir næstu koma, sem byggja á gúanóveiðunum, sem ég kalla, netaveiðum, sem örugglega, eins og frsm. sjútvn. sagði hér í kvöld, munu verða stórkostlega takmarkaðar á næstu árum, ef ekki áratug eða næsta hálfum öðrum áratug, og segja, að sumir þeirra, sem þar hafa talið sig riða feitum hesti frá, muni leggja þann veiðiskap niður. Hinu skulum við ekki gleyma, að þar í eru ekki aðeins okkar stærstu og merkustu fiskveiðipláss eða stöðvar, sem búa að miklu leyti við þessa veiðitækni á ákveðnum tíma árs og taka stórkostlega, — stórkostlega, leyfi ég mér að undirstrika, — mikið magn á stuttum tíma í þessi veiðarfæri. Það er staðreynd, sem við komumst ekki fram hjá. Ég hendi t. d. á Vestmannaeyjar, sem m. a. hafa náð þeirri sérstöðu að geta skilað í þetta veiðarfæri 98% hinum ágætasta afla yfir vetrarvertíðina. Hins vegar verður sú saga ekki sögð annars staðar um land og allra síst annars staðar hér á Suðvesturlandi. Því miður verðum við að horfast í augu við það, að það, sem kemur úr þessu veiðarfæri í mörgum öðrum verstöðvum, er ekki þannig, að við getum kinnroðalaust boðið það fram á alþjóðavettvangi og alþjóðamörkuðum nú síðustu missiri eða í framtíðinni. Þetta vita þeir, sem til þekkja. Auk þess verðum við líka að horfast í augu við, að það er ekki hægt að afskrifa hin gömlu, litlu skip, og það er alveg sama, í hvaða verstöð það er. Þess vegna þykir mér ákaflega fróðlegt að heyra þegar hv. þm. Friðjón Þórðarson talar um það í ræðu sinni hér í kvöld fyrir sínum brtt., að við þyrftum að sýna réttsýni og við þyrftum að horfa til allra hagsmuna í sambandi við veiðar og leyfi til veiða, og að sjálfsögðu ekki aðeins réttsýni og jafngildi gagnvart lögunum, heldur og, eins og hv. þm. ásamt samþm. sínum úr Vesturl., með leyfi forseta, segir í niðurlagi síðustu till.: „fiskibátar eru flestir undir 105 tonnum að stærð og hafa byggt veiðar á grunnmiðum kringum Snæfellsnes, enda komi til meðmæli Hafrannsóknastofnunarinnar.“ „Vegna þeirrar sérstöðu, sem er í verstöðvum við Breiðafjörð“ fór á undan. Þarna var réttsýnin, þarna var sanngirnin. Það voru þessir litlu bátar í verstöðvunum í þeirra eigin kjördæmi.

Hún kemur fram í margri myndinni þessi staðbundna föðurlandsást hjá sumum mönnum. Ég vil leyfa mér að segja það, þegar þessi sami hv. þm. í lok sinnar ræðu minnist á þá breytingu, sem verið er að gera og við leggjum til í sjútvn., að gerð sé á frv. frá mþn., um það, eins og ég hef alltaf beðið hér um, að fiskimenn við innanverðan Faxaflóa fengju sama rétt og aðrir fiskimenn. Nei, það mátti ekki. Það var réttsýni dómarans, sem þar kom upp í honum, og þeirra þm. Vesturl. Líklega hefur það átt að vera sama réttsýnin, sem kom fram í því, sem ákveðnir þm. kölluðu blekkingar hér í dag í sambandi við annað mál. Ég spyr: Hver er munurinn á fiski, sem er að alast upp og er drepinn fyrir norðan nes í sömu veiðarfæri af sömu bátastærð, á móti þeim, sem er drepinn fyrir sunnan Snæfellsnes af sömu stærð í sömu veiðarfæri? Ég hef aldrei nokkurn tíma heyrt réttsýninni lýst á þennan veg fyrr hér á hv. Alþ., og ég geri ekki ráð fyrir því, að við eigum eftir að fá að heyra það oftar.

Það, sem gert er af sjútvn. hálfu, er, að það er nákvæmlega sami háttur hafður á með veiðar í Faxaflóa og alls staðar í kringum land í sambandi við dragnótina. Til þess að komið væri á móti þessari grundvallarsanngirni og réttlætiskröfu, þá sagði ég við mína meðnm.: Ég mun ekki flytja brtt. um auknar togveiðar fyrir minni báta í Faxaflóa fyrr en ég sé, hvort eitthvað annað slíkt kemur fram. Nú er það komið fram. Við höfum líka fyrir framan okkur í blöðunum í dag áskorun meiri hl. borgarstjórnar Reykjavíkur um að leyfa slíkt.

Ef á að taka tillit til þeirra mörgu krafna, sem koma fram frá Snæfellingum til sjútvn. Nd., þm. kjördæmisins að sjálfsögðu og sjútvn. beggja d., þá megum við fara að biðja guð fyrir okkur. Einn daginn kom sendinefnd frá Grundarfirði. Það var skorað á sjútvn. Nd. að leyfa togveiðar og dragnótaveiðar eins og hægt væri á ákveðnum svæðum, sem samkv. frv. átti að banna. Næsta dag kemur sameiginleg nefnd frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, og er sérstaklega undirstrikað af þessari n.: „Þetta er sameiginlegt álit allra útgerðarmanna landsins. Við vorum á þingi, og við höfum komið okkur saman um að mæla með þessu sem sameiginlegum till. okkar. Ef frá þessu verður breytt, eru þetta ekki okkar sameiginlegu till. lengur.“ Undir þetta er tekið af fulltrúum, sem þar voru, þ. á. m. fulltrúa frá Grundarfirði. Daginn eftir kemur ný samþykkt til sjútvn. Nd., og þá eru þeir búnir að vera með þm. síns ágæta kjördæmis og fleiri mönnum úr kjördæminu. Þá kemur undirskrift eins hins sama fulltrúa frá Grundarfirði, sem segir: Ég er með allt öðru. Það er búið að tala við mig, það er búið að heilaþvo mig, ég er með allt öðru. — Þar réðu að sjálfsögðu útnesjastaðirnir, sem eðlilegt er. Þeir hafa annarra hagsmuna að gæta heldur en þeir í Grundarfirði. En ég var á laugardaginn eftir á fundi í Grundarfirði og talaði við fjölda manna, m. a. menn, sem eru að fara í að kaupa sér skuttogskip. Þeir þurfa auðvitað á því að halda að geta komið með jafnan og góðan afla til sinna fiskverkunarhúsa. Nei, hinir voru fleiri, þeir voru háværari og þeir hljóta að ráða. En nú skulum við segja, að það hljóti að ráða meiri hl. og sá hinn háværasti, sem hv. þm. túlkaði hér í kvöld. En er ekki svolítið eftir? Má ég spyrja þessa löglærðu hv. þm.: Hvað ná sveitarstjórnarmörkin langt út í haf? Hvað nær Grundarfjörður, Ólafsvík og Hellissandur, Stykkishólmur, hvað ná þeirra mörk langt út í fiskveiðilögsöguna? Ná þau út fyrir þau mörk, sem t. d. við sjómenn í Reykjavík og Hafnarfirði höfum stundað veiðar innan um áratugaskeið, sem við höfum stundað, frá því að togveiðar hófust? (Gripið fram í: Það er sögulegur réttur.) Er það sögulegur réttur, alveg hárrétt hjá hv. þm. En síðan hvenær náðist hinn sögulegi réttur til þeirra, sem kannske hafa verið með færi eða eitthvað annað fram til þessa? Á að útiloka alla hina? Hvar eiga skiptin að vera? Á eitthvert ákveðið landssvæði eða eitthvert ákveðið kjördæmi að geta sagt við íslenska fiskimenn: Þú mátt ekki koma þarna, burt með þig? — Ég veit, að Breiðfirðingar hafa friðað í sambandi við sína einkahagsmuni innanverðan Breiðafjörð. Gott og vel, því hefur ekki verið mótmælt af neinum öðrum. Hins vegar hafa þeir ekki aðeins friðað fyrir netum. Það er að sjálfsögðu skv. lögum friðað fyrir botnvörpu og dragnót. En það er friðað fyrir öðru líka. Utanaðkomandi bátar fá ekki að veiða þar skelfisk. Þetta er orðinn einkaflói þeirra við Breiðafjörð sunnanverðan. Ég er að velta fyrir mér, hvað mundi ske, ef Reykvíkingar settu upp útgerðarstöð við norðanverðan Breiðafjörð, þó að ég viti hins vegar, að það geti verið erfitt að sigla þangað fyrir mörg skip. Hvað þessir aðilar geta átt mikinn sjó fyrir sínu landi, hlýtur auðvitað að verða atriði, sem Alþ. Íslendinga verður að taka til athugunar, þegar svo er komið. Að vísu verður að hafa í huga í sambandi við það, sem hér er verið að reyna að leysa, — ég mun koma að því síðar, hver var ástæðan, — það er verið að reyna að leysa vandamál, sem skapast vegna þess frv., sem lagt var fram, og mun ég þá koma að því nokkrum orðum.

Ég álít, að grundvallarhugsunin í frv. sé algerlega röng. Á þetta hefur verið bent af mörgum mönnum og mér oftar en einu sinni hér á hv. Alþ. Ég álít, að þetta sé rangt hjá mönnum, jafnvel þótt það séu hv. þm. og margir af þeim með skynsömustu mönnum þjóðarinnar, eins og kom fram hér í dag, þegar þeir töluðu hér hver af öðrum. (Gripið fram í) Það er rangt að setja niður sirkil í miðju Íslandi, draga hring í kringum landið og segja: Hér fyrir innan er smáfiskur, og hér eiga að vera smábátar, — eða: Hér er ekki smáfiskur, við skulum vera svolítið innar í vikum og fjörðum, — og segja: Þetta á að vera alfriðað. En svo drögum við hring eftir hring og ákveðum báta- og skipastærðirnar eftir því. Þetta er höfuðvitleysa. Að ætla sér að fara að taka af íslenskum togurum, þegar svona stendur á, Kolluálinn, er enn vitlausara, einfaldlega vegna þess, að ,jafnvel þó að það verði stansað við 12 mílna fjarlægðina, hefur það ekkert að segja, enda mætti segja mér, að íslenskir togarar mundu þá fyrst setja vegg fyrir utan 12 mílurnar við Kolluálinn ef fólk trúir því, að fiskurinn fari eftir einhverri malbikaðri götu þarna upp eftir og inn á Breiðafjörð til þeirra á Hellissandi og Ólafsvík. Ég hef aldrei nokkurn tíma heyrt slíkar kenningar. Jú, kenningar hafa heyrst. Talað er um, að fiskur kæmi að norðanverðu frá og upp Kolluálinn úr suðvestri. En heldur nokkur maður, að togari gæti verið alltaf á sama dýpi og ákveðnum stað? Heldur nokkur maður, að netabátar á þessum stöðum geti verið með net niðri í dýpinu í Kolluál, eða ættu þeir alltaf að koma með sinn fisk blóðsprengdan, eins og staðreynd er, að þeir gera, þegar þeir koma með fiskinn þarna frá?

Í okkar till. lokum við algerlega fyrir togarana að norðanverðu í Breiðafirði, þannig að þeir geta fengið allar þær Grænlandsgöngur, sem þeir óska eftir inn Breiðafjörð. En megum við hinir líka lifa? Ég sé ekki, að fiskimaðurinn á Snæfellsnesi hafi meiri rétt en fiskimaðurinn í Reykjavík eða Hafnarfirði, auk þess sem ég bendi á það, að þessir hv. þm. hafa fordæmt það og talið alveg sjálfsagt að loka Faxaflóanum fyrir smábátunum, um leið og þeir vilja og mæla með, að Breiðafjörðurinn sé opnaður fyrir þeirra smábátum sérstaklega. Að vísu veit ég, að margir reykvískir bátar hafa sótt þangað norður eftir og munu gera, ef þetta verður leyft. Hvað þýðir það? Hvað þýddi sókn þeirra síðasta vetur suður fyrir Reykjanes? Mætti kannske telja upp einhverja, sem ekki komu aftur úr þeim róðrum? Vera má, að það mætti telja þá.

Þá er ein höfuðvilla, sem var í þessu frv. hjá þeim, sem sömdu það. Auk þess að álíta, að það væri hægt að marka einhverjar fjarlægðir á sjókort og segja: þarna á þessi stærð báta að vera, — þá er það ein höfuðvilla þeirra að álíta, að minni bátar geti sótt allan sinn fisk, ef nær landi sé. Þar á ég við hina djúpu ála, sem ganga víðs vegar að landinu, bæði Kolluál og eins inn í Húnaflóann og víðar. Inni í Húnaflóa hefur ekki fengist fiskur að ráði nú í mörg ár, eða frá því að togveiðar voru bannaðar. En við skulum sleppa því. Ein trúarkenningin hefur verið sú, að smáfiskur væri allur nærri landi. Þetta er mikill misskilningur. Ef menn skoða t. d. samsetningu aflans á svæðinu, sem er upp við landssteina í Grindavík, — það hefur verið leyft að veiða þar, og þar hefur mér verið sagt, að hafi komið á land 4 þús. tonn á s. l. ári, og margir bátar og margir menn hafa haft sína afkomu af, — þá sjá menn, að það er enginn smáfiskur, þetta er göngufiskur af mörgum tegundum. Og hver á að segja, að það eigi endilega að hafa þetta svæði lokað, vegna þess að það sé verið að vernda smáfisk eða hrygningarsvæði? Það eru ekki nokkur hrygningarsvæði þarna. Þetta er göngufiskur, eins og víðs vegar um Faxaflóann og Breiðafjörð, og kemur inn sérstaklega á tveimur stöðum. En þar er líka uppeldisfiskur og smáfiskur. Það er bara ekki sama, hverjir veiða þetta. Það á að vera einkaréttur, og sveitarstjórnarmörkin, sem ná 100 mílur í haf út, eiga að ráða.

Ég hefði satt að segja ekki talið ástæðu til að tala við þessa umr., nema ástæða gæfist til. En guð minn almáttugur, hún gafst, þegar þessi brtt. þeirra herramanna úr Vesturl., Akraborgarmanna, kom hér fram, þegar þeir telja alveg sérstaka nauðsyn að halda okkar togurum frá sínum nauðsynlegu miðum, sem þeir hafa notið um áratuga skeið. Þetta var kannske ákaflega auðvelt fyrir þá, meðan togararnir voru bara úr Reykjavík og Hafnarfirði, en það er ekki svo auðvelt lengur. Þeir eru nefnilega líka t. d. af Akranesi, þeir eru að verða úr Grundarfirði, og þá spyr ég hv. þm., sem þessa brtt. hafa flutt: Hvar í andskotanum ætla þeir að standa, þegar að því kemur? Nú biðst ég afsökunar á þessu orðbragði, en ég spyr: Hvar ætla þeir að standa? Á hvern einasta stað í kringum landið, þar sem útgerð er stunduð, þar sem fiskvinnsla er, hefur verið óskað eftir skuttogara. Þeir eru komnir á flesta staði. Og svo á um leið að drepa þá, — við erum búnir að leggja milljarða kr. í þessa fjárfestingu, — og það segi ég alveg með fullri vissu, að þeir eru í dauðateygjunum strax við fæðingu. Það er ekki vegna þess, að þessi skip séu ekki fær um að bjarga sér, því að það kemur ekki verri fiskur á land úr þeim, þau eru ekki dýrari í rekstri en hin skipin, en það eru sum af hinum skipunum, sem geta skilað miklu meiri arði á stuttum tíma með netamokstrinum en þeir. En þessi skip hafa það fram yfir öll hin, að þau geta skilað jöfnu hráefni til fiskvinnslustöðvanna hér um bil allt árið og geta þá kannske snúið sér á aðra markaði, eins og ferskfiskmarkaðinn erlendis, þegar bátaflotinn getur skilað því, sem þarf að skila til fiskvinnslustöðvanna.

Herra forseti. Þessi atriði, sem hér hafa komið fram í sambandi við brtt. frá þeim félögum úr Vesturl., eru kannske nóg að þessu sinni. En ég vil aðeins undirstrika það til viðbótar því, sem ég sagði í byrjun minnar ræðu um brtt., sem kemur frá sjútvn., að við, eins og kemur fram í okkar nál., áskiljum okkur rétt til að flytja og fylgja brtt. Þessi brtt. er komin til af illri nauðsyn, sjálfsagt, að margra okkar mati. Ég veit, að félagi minn, hv. þm. Guðlaugur Gíslason, hefði sjálfsagt viljað hafa þetta allt öðruvísi og einnig formaður sjútvn., þeir eru báðir úr Vestmannaeyjum. Þeir heygðu sig þó fyrir þeirri staðreynd, að það er ekki hægt að taka togaraflotann allt í einu út fyrir, allra síst þegar svo stendur á sem nú, að það er ekki verið að skipta 50 mílum, heldur 12 mílum. Það er ekki hægt að segja: Nú skuluð þið fara út fyrir 12 mílurnar og vera þar með öllum breska flotanum. Það er ekki hægt. Við verðum a. m. k., eins og Grundfirðingar fleiri en einn, sögðu að gefa þessum skipum og útgerð þeirra umþóttunartíma eins og Bretunum. Þar af leiðandi tel ég, að um leið og við stórlega skerðum það, sem þeir höfðu og hafa samkv. núgildandi l., skerðum við líka ákaflega mikið það, sem kom fram hjá Landsambandi ísl. útvegsmanna. Þeir vildu fá miklu meira, en samt vildu þeir líka skerða það, sem þeir hafa í dag, til þess að koma á móti óskum bátamanna. En sjútvn. Nd. hefur skert það enn frekar til þess að reyna að ná samkomulagi. Ég held, að verstöðvarnar í Vestmannaeyjum, Grindavík og á Reykjanesskaganum hafi kannske komið þar hvað helst á móti óskum t. d. Vestfirðinganna, sem hvað verst eru settir landfræðilega og dýptarlega séð á sínum miðum gagnvart útfærslu, jafnvel þótt þar hafi bæst við 8 mílna útfærsla eða friðun gagnvart breska flotanum, með sinn bátaflota, að þeim veitir ekki af þeirri útfærslu. En þá koma Vesturlandsmenn, sem við héldum satt að segja, að við hefðum komið vel til móts við, og segja: Nei, við ætlum að vera sér á báti. Staðbundnu föðurlandsvinirnir vilja hafa sitt fyrir sig. Það er gamla Akraneskenningin.

Ég vænti þess, að það gefist tóm til þess að ræða þetta mál efnislega í Sþ., ef breytingar verða gerðar hér aftur í Ed., þannig að það gefist nægur tími að rabba um þetta fram á Þorláksmessu. En ég satt að segja hefði álitið, að þeir menn, sem hafa tekið að sér störf til þess að gæta réttlætis, samúðar og ég man nú ekki eftir öllum þeim orðum, sem hv. þm. Friðjón Þórðarson hafði í sínu máli til þess að ná fram samkomulagi á Snæfellsnesi, mættu nú kannske aðeins líta frekar um landið og muna eftir því, að það eru fleiri fiskimenn til en á Snæfellsnesi.