13.12.1973
Neðri deild: 40. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1414 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, þar sem þessari umr. er nú að verða lokið. Mér þykir leitt til þess að vita, að brtt. okkar þriggja þm. af Vesturl. hafa orðið til þess að koma hv. 10 þm. Reykv. úr eðlilegu jafnvægi, eins og heyra mátti af orðum hans hér áðan. Honum var tíðrætt um staðbundna föðurlandsást og réttsýni og annað í þeim dúr. En lái mér hver sem vill, þó að ég hlusti á það, sem breiðfirskir sjómenn hafa fram að færa af sinni reynslu og sínu lífsstarfi, a. m. k. til jafns við það, sem þessi sjálfskipaði talsmaður allra íslenskra sjómanna hefur fram að færa. Hann hneykslaðist mikið á því, að við Breiðfirðingar skyldum ekki vera hrifnir af því að fá togarana inn í Kolluál, og vitnaði eitthvað í Grundfirðinga í því sambandi, hefur nýlega verið þar á fundi. En það má kannske minna hann á, að sá eini aðili þarna vestur við Breiðafjörð, sem er að fá skuttogara, Guðmundur Runólfsson, formaður Útvegsmannafélags Snæfellinga, er engu síður ákveðinn á þessari skoðun en hinir. Og ég veit ekki annað en hann sé einmitt einn af þeim, sem gengu frá þessum till., sem við erum hér talsmenn fyrir.

Það er alveg laukrétt hjá þessum hv. þm. og flokksbróður, að það þurfa fleiri að lifa en breiðfirskir sjómenn, mikil ósköp. Og ég held, að Breiðfirðingar hafi í samanburði við aðra landsmenn ekki gert mikið að því að bægja bræðrum sínum úr sjómannastétt af miðum Breiðafjarðar. Mér er a. m. k. ekki kunnugt um það. Það má kannske segja, að við fórum að líta í kringum okkur, þegar aðkomubátar hvaðanæva af landinu voru farnir að stunda skelfiskveiðar inni á hafnarsvæðinu í Stykkishólmi. En að öðru leyti er mér ekki kunnugt um, að Breiðfirðingar reki aðra sjómenn af breiðfirskum miðum.

Ég ætla ekki að eyða tímanum í að skattyrðast frekar við þennan ágæta flokksbróður, en aðeins taka það fram, að þessar till. okkar eru í raun og veru ekki mínar till. Ég hef enga þekkingu á við hv. 10. þm. Reykv. í þessum efnum og dettur ekki í hug að jafna mér til hálfs við hann, hvað þá meira, að því er lýtur að sjómennsku og þorskveiðum. En hitt er annað mál, að þessar till., sem við höfum leyft okkur að bera fram, þrír þm. af Vesturlandi, eru þær till., sem fulltrúar Breiðfirðinga gátu sameinast um, og okkur fannst nokkurs um vert, að þeir gátu þó náð samkomulagi heima fyrir, þrátt fyrir mjög ólíka hagsmuni og alls konar hagsmunaárekstra. Okkur þótti það mikils vert um þetta atriði, að við töldum ómaksins vert að framvísa þessum till. við hv. þingheim. En sínum augum lítur hver á silfrið. Það er svo með suma menn, að ef till. koma fram, sem þeim eru á einhvern hátt andstæðar, þá hrökklast þeir úr sínu hversdagslega jafnvægi. En aðrir mættu þó reyna að horfa á till. og vita, hvort þær eru einhvers nýtar, þannig að leitast megi þó við að leiða málið, þetta erfiða mál, til farsælla lykta.