13.12.1973
Neðri deild: 40. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

160. mál, almannatryggingar

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Jafnvel þótt ég væri sjálfskipaður talsmaður íslenskra sjómanna, allra, bæði utan Reykjavíkur og innan, þá auðvitað verður að fagna hverju slíku frv., sem fram kemur, og till. Að sjálfsögðu geri ég mér grein fyrir, að það eru ýmsir vankantar á því að framkvæma þetta frv., og þetta verður auðvitað að athugast, en alla vega hlýtur það að geta orðið til þess að leita lausnar á því vandamáli, sem er margþætt, í sambandi við okkar sjómannastétt. Það er bæði að fá menn á skipin, en það er kannske ekki aðalatriðið, heldur hitt að bæta þeim upp það, sem þeir hafa farið á mis í sínu lífi sem sjómenn, kannske í 40 ár, og þeir, sem eitthvað þekkja til, geta kannske nokkuð gert sér það í hugarlund.

En auk þessa vildi ég aðeins segja það, að þetta gefur mér ástæðu til að spyrja þann hæstv. ráðh., sem hér er, vegna þess að ég veit, að hann hefur oft tekið vel á árinni, þegar um hefur verið að ræða hagsmuni sjómanna, hvað líði endurskoðun lífeyrissjóðs sjómanna. Það var samþ. fyrir nokkrum árum að endurskoða lög um lífeyrissjóðinn, og þetta er einn af fáum sjóðum hinna svokölluðu vinnandi manna, a. m. k. þeirra, sem tilheyra verkalýðsfélögum, eru innan Alþýðusambands Íslands og eru bundnir íslenskum lögum. Fyrir nokkrum árum var samþykkt, að það ætti að endurskoða l., og ég þori örugglega að fara með það, að fyrir síðasta þing átti endurskoðað frv. að leggjast fram. Það hefur ekki sést enn þá. Nú er svo komið í sambandi við þennan sjóð, að þeir hinir öldnu sjómenn, sem þaðan taka lífeyri, eru orðnir — ég vil segja a. m. k, helmingi, ef ekki meira — verr settir en fólk, sem er í hinum almennu sjóðum verkamanna og verkakvenna, sem stofnaðir voru löngu eftir að þessi sjóður var stofnaður á sínum tíma eftir harða baráttu, sem ég veit, að hv. síðasti ræðumaður minnist vel, en hann er hins vegar einn af ríkustu lifeyrissjóðum þjóðarinnar.

Því hlýtur það að vekja furðu mína, um leið og hv. þm., síðasti ræðumaður, flytur þetta frv. í sambandi við breyt. á almannatryggingal., að það skuli ekki enn þá liggja fyrir frv. um breyt. á l. um þennan lífeyrissjóð, sem mundi örugglega geta orðið eitt hið fyrsta til þess að betrumbæta lífeyri þessara gömlu sjómanna, þannig að þeir mættu eiga betri elli en þeir eiga ella. Ég hef oft furðað mig á þessu. Það er margbúið að lofa því af hæstv. ráðh., og síðast vissi ég, að hæstv. forsrh. hafði gert það í eyru formanas Sjómannafélags Reykjavíkur, að þetta mundi vera væntanlegt innan skamms. En mig satt að segja furðar á því, að það skuli ekki vera komið fram enn þá, og því leyfi ég mér að spyrja hæstv. ráðh., Lúðvík Jósepsson, hvort ekki megi vænta þess, að þetta frv. fari að koma fram.