13.12.1973
Neðri deild: 40. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

37. mál, Landhelgisgæsla Íslands

Frsm. meiri hl. (Jón Skaftason) :

Herra foresti. Á þskj. 38 hafa nokkrir þm. Sjálfstfl. flutt frv. til l. um breyt. á l. nr. 25 frá 22. apríl 1967, um Landhelgisgæslu Íslands. Aðalefni frv. er það, að með því er gert ráð fyrir, að úr ríkissjóði skuli árlega verja um 100 millj. kr. til Landhelgisgæslunnar til tækjabúnaðar, kaupa á skipum og flugvélum og öðrum þeim tækjum, sem nauðsynlegt er, að Landhelgisgæslan hafi yfir að ráða, til þess að hún geti sinnt sínu veigamikla verkefni í þjóðfélaginu.

Allshn. þessarar d. hefur athugað þetta frv. á nokkrum fundum. Hún gat ekki orðið sammála um afgreiðslu þess, og liggja hér frammi tvö nál. frá meiri hl. og minni hl. á þskj. 188 og 192.

Við, sem meiri hl. skipum og skilum nál. á þskj. 188, leggjum til, að frv. þessu verði vísað til ríkisstj. í trausti þess, að hún hafi forgöngu um að leysa eðlilegar og sanngjarnar fjárhagsþarfir Landhelgisgæslunnar í framtíðinni, eins og hún hefur gert á undanförnum árum. Það kom fram í n., þegar þeir mættu þar á fundi þann 26. nóv. s. l., Pétur Sigurðsson forstjóri Landhelgisgæslunnar og Baldur Möller ráðuneytisstjóri í dómsmrn., að Landhelgisgæslan hefði fengið allt það fé til umráða og ráðstöfunar, sem farið hefði verið fram á nú hin síðustu árin, bæði til fjárfestingar og til rekstrarþarfa. Afstaða okkar í meiri hl. byggist fyrst og fremst á þessari staðreynd. Hitt er svo annað mál, að bæði ég og aðrir þeir, sem meiri hl. skipa, erum vafalaust inni á því, að æskilegt væri, að Landhelgisgæslan hefði árvissan tekjustofn, sem einhverju munaði, því að það er rétt, að það skapar nokkurt óöryggi um rekstur gæslunnar, ef ekki er hægt að ganga út frá því með nokkurri vissu, hvaða tekjur gæslan fær á hverju ári. En sannleikurinn er sá, að svo hefur til gengið á undanförnum mörgum árum, að það hefur ekki verið talið fært af þeim, sem ráðið hafa, að ákveða Landhelgisgæslunni slíkan tekjustofn, og vil ég í því sambandi minna á, að með frv. er að finna fskj., þar sem getið er fjárframlaga ríkissjóðs til Landhelgisgæslunnar á árabilinu 1962–1972, sem sýnir, að að meðaltali hefur árlega á þessu tímabili verið veitt til Landhelgisgæslunnar úr ríkissjóði innan við 10 millj. kr. Það er því nokkuð mikið traust á núverandi valdhöfum, þegar þeir, sem minni hl. skipa, leggja til, að nú sé allt í einu lögboðið að meira en tífalda þetta árlega framlag úr ríkissjóði til Landhelgisgæslunnar frá því, sem var á þeim valdatíma, sem þeirra menn fóru með ríkisstj. í landinu. Út af fyrir sig er allt gott um það að segja. En með vísan til þess, sem ég hef sagt um það, að Landhelgisgæslan hafi fengið þá peninga, sem hún hefur sótt eftir á undanförnum 2–3 árum, og með hliðsjón af því, að margir telja nú, að fjárlög ríkisins séu orðin nógu há, teljum við, sem meiri hl. skipum, ekki tímabært nú að samþykkja þetta frv., þó að við teljum vissulega, að það komi mjög til álita að hverfa að þeirri braut að ákveða Landhelgisgæslunni ákveðinn og árvissan tekjustofn.