13.12.1973
Neðri deild: 40. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

37. mál, Landhelgisgæsla Íslands

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég er einn meðflm. að þessu frv. nú í þriðja skipti, og ég vil taka undir öll þau rök, sem komu fram hjá hv. frsm. minni hl. allshn. Og ég vil sérstaklega undirstrika þau rök vegna þess, að það kom fram, ekki aðeins í nál. meiri hl. heldur og í ræðu frsm. meiri hl., að Landhelgisgæslan hefði fengið þau framlög til fjárfestingar og rekstrar, sem fram á hefði verið farið hin síðustu ár, — undirstrika þau orð forstjóra Landhelgisgæslunnar, sem hann bætti við, en ekki eru nefnd þarna: „þegar mikið er í húfi.“ Þetta hefur alla tíð verið gert, þegar á hefur þurft að halda í Landhelgisgæslunni. Hins vegar held ég, að það sé kominn þerna nokkur vítahringur, og auðvitað mun forstjóri Landhelgisgæslunnar segja þetta með hliðsjón af þeim kröfum, sem eru gerðar til hans í sambandi við Landhelgisgæsluna.

Ef landhelgin er ekki varin, ef skipin eru látin liggja inni á fjörðum samkv. fyrirskipunum æðstu stjórnvalda, þegar þau eiga að vera að verja landhelgina, þá þurfum við auðvitað ekki að bæta við skipum. Þetta er eðlilegt. Auk þess vil ég aðeins undirstrika varðandi það, sem hv. frsm. meiri hl. var að tala um, þegar verið er að segja: Af hverju gerðuð þið þetta ekki í fyrri stjórn, af hverju voruð þið ekki búnir að þessu? — að það vorum ekki við, sem færðum út landhelgina 1972. Við höfðum aldrei sagt, að við ætluðum að færa út landhelgina 1972. Hins vegar er það núv. hæstv. ríkisstj., sem gerði það, og það var hennar að sjá svo um, að það væri hægt að verja landhelgina, en ekki að koma fram eins og hún gerði gagnvart þjóðinni eftir á, eins og þetta væri eintómt raup og píp, það væri ekkert að marka þetta, sem þeir sögðu. Þeir vissu það fyrir fram, að það varð að semja, allt tóm sýndarmennska.

Auk þess er rétt að geta þess vegna þeirra orða, sem hafa fallið frá hæstv. forsrh. fyrr og síðar, að það særði hans barnslega hjarta ákaflega mikið á sínum tíma, þegar samskotin nægðu ekki til þess að byggja upp landhelgisgæsluna, hvorki skipaflotann né annað. Á síðustu dögum síðasta þings hafði hann mörg og stór orð um, að það væri ekki jafnmikið mark tekið á íslenskum sjómönnum og sjómannasamtökum, togaraskipstjórum, vegna þess að þeir hefðu ekki lagt nógu mikið í hans landhelgissöfnunarsjóð til þess að byggja upp Landhelgisgæsluna.

Með þessu frv. hefur stjórnarandstaðan í þriðja sinn komið til móts við brýna þörf þessara stofnunar, komið til móts við hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkana og boðist til að axla það, sem óneitanlega er byrði, taka á sig fulla ábyrgð af því að leggja t. d. skatt á þjóðina til að gera þessa stofnun okkar þannig, að hún megi verða til sæmdar fyrir okkar þjóð, en því er hafnað ítrekað. En það á að fara bónbjargarleiðina, ekki aðeins til þjóðarinnar allrar, heldur sérstaklega til einnar stéttar, og ef hún gefur ekki, kemur ekki með sitt skotsilfur og leggur í baukinn hjá hæstv. forsrh. og dómsmrh., þá er hún útskúfuð, eins og sjá má á mörgu.

Ég vil aðeins geta þess, þegar við höfum í huga orð bæði hv. frsm. og annarra, sem um þetta mál hafa talað úr röðum núv. stjórnarflokka: Af hverju voruð þið ekki búnir að þessu í fyrrv. stjórn, að kannske getur verið, að stærsti ávinningur núv. hæstv. ríkisstj. sé einmitt sá, að við vorum búnir í þá tíð að láta teikna, hanna og smíða skip, sem Ægir heitir. Það hefur að mér er sagt, sparað núv. ríkisstj. tugi millj., að það var gert á þann hátt, sem gert var. Það hefur verið hægt að ganga beint að þeim teikningum og því, sem þá var gert, vegna þess að höfð var það mikil framsýni við byggingu þess skips, að það hefur verið hægt að fara hér um bil í einu og öllu eftir þeim teikningum við byggingu þess skips, sem nú er væntanlegt, vonandi innan mjög skamms tíma. Ég harma það, að meiri hl. skuli taka þessa afstöðu til þessa frv. Ég hefði sannarlega óskað þess, að það hefði náðst samstarf um þetta mál, allavega að skapa þeim mönnum, sem að þessum málum vinna, þá starfsaðstöðu, sem þeir eiga skilið, en ekki gera þetta að því bitbeini, sem það virðist vera orðið og er að verða nú í þriðja sinn.