13.12.1973
Neðri deild: 40. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (1218)

129. mál, kaupstaðarréttindi til handa Bolungarvíkurkauptúni

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Þegar mál þetta var til umr. hér á dögunum, hafði ég kvatt mér hljóðs af sérstöku tilefni, og er best að nota tækifærið og segja örfá orð um þetta mál nú.

Það er svo, að nú er uppi hér og hvar í þéttbýli hreyfing í þá átt að gera ákveðna þéttbýlisstaði að kaupstöðum, og er ekki nema gott eitt um það að segja. Það eru að vísu ekki alls staðar sömu ástæður fyrir því, að þessi mál eru skoðuð. Ég tel, eftir því sem ég þekki best, að þarna hafi Bolungarvík nokkuð mikla sérstöðu. Þetta er kauptún, sem hefur haft sérstakan lögreglustjóra frá 1934, og blómleg byggð, þannig að ég tel þetta á margan hátt eðlilegt. Hins vegar getur maður velt því fyrir sér, hvers vegna Bolungarvík hafi unað þessu skipulagi svo lengi, hátt í 4 áratugi, að hafa aðeins sérstakan lögreglustjóra, þar sem mig minnir, að þeir staðir, sem fengu sérstakan lögreglustjóra um svipað leyti, a, m. k. tveir, séu fyrir löngu búnir að fá kaupstaðarréttindi. Þess vegna hvarflar að mér, hvort það gæti átt sér stað, að það, sem hefði ýtt á þetta nú og vakið það upp, sé e. t. v. nýlegar breytingar á almannatryggingal., en þær hafa sennilega gert það að verkum, að íbúar Bolungarvíkur verða að sækja vissa þjónustu til næsta kaupstaðar, sem þeir hafa notið heima fyrir um langa hríð. Þetta er ofur skiljanlegt. Blómleg byggð vill ekki láta bjóða sér að verða allt í einu að sækja sjálfsagða þjónustu, t. d. á vegum almannatrygginga, um nokkra leið til næsta kaupstaðar, sem hægt hefur verið að taka heima hjá sér áratugum saman. Ég skil þetta mætavel. En ekki meira um það. Mig brestur staðarþekkingu ti1 að ræða þetta mál ítarlega að því er Bolungarvík varðar. Hins vegar hef ég alltaf unnað Vestfirðingum alls góðs, talið þá hina bestu nágranna og alls góðs maklega.

En það er óneitanlega a. m. k. eitt vandamál, sem þetta skapar. Það var, held ég hv. 3. þm. Norðurl. e., sem vék að því hér á dögunum, að það gæti næstum því riðið sýsluvegasjóðunum að fullu, þ. e. ef stærstu og öflugustu sveitarfélögin innan sýslnanna yrðu kaupstaðir. Þetta er alveg rétt athugað og var einmitt þetta, sem ég ætlaði að vekja athygli á. Jafnvel þótt þetta sérstaka mál með Bolungarvík væri ekki hér á dagskrá, væri orðið alveg óhjákvæmilegt að taka sýsluvegasjóðina og tekjustofna þeirra til gagngerður athugunar og meðferðar, og það má ekki dragast. Það verður að gerast á þessu þingi. Þessu vildi ég skjóta hér fram að gefnu tilefni.

En svo aðeins að endingu örfá orð um þetta mál almennt. Eiga staðir, þar sem þéttbýli myndast, en þar sem dreifð byggð heldur sér að nokkru leyti innan sama sveitarfélags, að sækja eftir kaupstaðarréttindum? Þeim er vorkunn. En almennt séð tel ég, að fara verði mjög gætilega í þessum efnum. Við vitum, að þéttbýli myndast yfirleitt fyrir þá sök, að það er fólkið, sem streymir á ákveðinn stað innan sveitarfélagsins. Það gerir þann stað sterkari en dreifbýlið, þaðan sem fólkið fer. Þess vegna tel ég að við eigum í lengstu lög að varðveita samvinnu og náin tengsl strjálbýlis og þéttbýlis, varðveita einingu sveitarfélagsins, þótt það geymi innan sinna vébanda bæði þéttbýli og strjálbýli. Og þeir, sem í þéttbýli flytjast á viðkomandi svæði, verða að gera sér grein fyrir því, að þeir hafa að mörgu leyti sterkari aðstöðu og ber þess vegna að taka á sig jafnvel auknar byrðar. Þeim ber að létta byrðar þeirri, sem eftir búa í strjálhýlinu. Þetta vil ég að lokum segja almennt um þetta mál.