29.10.1973
Efri deild: 5. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

34. mál, tilkynningar aðsetursskipta

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Frv. það um breyt. á l. nr. 73 25. nóv. 1952, um tilkynningar aðsetursskipta, sem hér er lagt fyrir hv. d., er flutt vegna fyrirsjáanlegra vandkvæða að öllu óbreyttu við skráningu Vestmanneyinga við gerð íbúaskrár á þessu ári miðað við 1. des. n. k. Þetta meginefni frv. felst í 3. gr., þar sem lagt er til, að aftan við 18. gr. 1. komi bráðabirgðaákvæði. Bráðabirgðaákvæðið felur það einkum í sér, að þannig er ótvírætt gengið frá málum með lögfestingu þess, að allir, sem samkv. gögnum þjóðakrár áttu lögheimili í Vestmannaeyjum hinn 22. jan. 1973, þegar jarðeldurinn braust út, og ekki hafa með sérstökum hætti tilkynnt brottflutning sinn með búsetuskiptum frá Vestmannaeyjum, skuli skráðir með lögheimili í Vestmannaeyjum 1. des. n. k. Heimildir um aðsetursskipti Vestmanneyinga síðan 23. jan., liggja að sjálfsögðu fyrir, en þær eru í mjög misjöfnu formi, og á þeim gögnum kemur að jafnaði ekki fram skýr yfirlýsing hlutaðeigandi, hvort hann vill halda lögheimili í Vestmannaeyjum eða skipta um lögheimili. Bráðabirgðaákvæðin lúta að því, að Hagstofan, sem sér um gerð þjóðskrár, geti á fullnægjandi hátt gengið úr skugga um það fyrir þjóðskrárgerðina, sem miðuð er við 1. des., hverjir af Vestmanneyingum á meginlandinu hafa í raun og veru tekið ákvörðun um að flytja heimilisfang sitt. Eina örugga leiðin til að koma þessu til leiðar er að festa það í lögum, að eins og á stendur skuli tilkynningar um lögheimilisflutning frá Vestmannaeyjum látnar í té á sérstökum eyðublöðum, sem þar til eru sniðin, og ákveðinn tímafrestur verði gefinn til að senda þessar tilkynningar, svo að unnt sé að taka þær til greina við íbúaskrárgerðina 1. des. En einnig er tekið fram, að allir þeir Vestmanneyingar, sem ekki tilkynna brottflutning á þennan hátt, skuli skráðir áfram með lögheimili í Vestmannaeyjum 1. des. n. k. Tilkynningar um brottflutning verða ekki teknar til greina, nema það sé sá einstaklingur sjálfur, sem 3 hlut á, sem tilkynninguna gefur. Þrátt fyrir þetta er ekki gersamlega lokað fyrir, að flutningur á skráðu heimilisfangi geti átt sér stað, því að þrátt fyrir bráðabirgðaákvæðið helst réttur sveitarstjórna til að gera aths. við íbúaskrárnar, en um slíkar aths. fer með þeim hætti, að þær eru þá bornar undir bæjarstjórn Vestmannaeyja, sem fær tækifæri til að svara aths. Ef ekki verður samkomulag milli þessara aðila, er það þjóðskrár að skera úr, og fer um það eftir starfsháttum, sem fyrir löngu hafa fengið festu.

Síðan eru í frv. tvær aðrar gr., þessu meginefni frv. algerlega óskyldar.

Í 1. gr. frv. er lagt til, að ný mgr. bætist við 5. gr. 1. um tilkynningar aðsetursskipta, og er það ákvæði við það eitt miðað, að settur er tímafrestur, sem gilda skal um það, hvenær mönnum, sem dveljast í landinu án þess að vera tilkynningarskyldir, skuli skylt að tilkynna aðsetur sitt, ef hagir þeirra breytast svo, að eftir ákvæðum laga um aðsetursskipti verði þeir tilkynningarskyldir.

Síðan er í 2. gr. lagt til, að fyrri mgr. 17. gr. 1., þeirrar gr., sem fjallar um viðurlög, breytist þannig, að sektarupphæðir hækki. Þarna er um að ræða að færa sektir til samræmis við breytt peningagildi, frá því að lögin voru sett fyrir tveimur áratugum, en sektarupphæð mun hafa staðið óbreytt síðan.

Meginákvæði frv. um aðseturstilkynningar Vestmanneyinga er í fyllsta samræmi við fyrri stefnu allra opinberra aðila að stuðla að því, að samfélag Vestmanneyinga í útlegðinni raskist í engu að óþörfu. Um garð þessa ákvæðis hefur verið haft samráð við þá aðila, sem málið er skyldast. Brýn þörf er á að hraða afgreiðslu málsins, eins og frekast er kostur, til þess að unnt sé að kunngera þann hátt mála, sem þar er ráðgerður, með sem lengstum fyrirvara. Ég vil leyfa mér að láta í ljós þó von, að Alþ. framfylgi í þessu máli markaðri stefnu um að greiða fyrir því, að Vestmanneyingum sé gert sem hægast um vik að halda bólfestu í heimabyggð sinni þrátt fyrir röskunina, sem af eldsumbrotunum leiddi.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.