14.12.1973
Efri deild: 36. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (1240)

94. mál, lyfjaframleiðsla

Frsm. minni hl. (Auður Auðuns) :

Herra forseti. Ég vil aðeins segja það, að ég hef misskilið orð hv. frsm. meiri hl., þegar ég taldi, að það væri ætlunin að afgreiða þetta frv. fyrir jól. Hann hefur nú leiðrétt það, og tek ég að sjálfsögðu þeirri leiðréttingu hans og veit, að hann muni hafa hagað orðum sínum eins og hann lýsti síðar.

En þá vil ég leiðrétta anneð. Ég sagði ekki, að hv. frsm. hefði ekki túlkað rétt tilkomu brtt. við 8. gr., þ. e. a. s. um stjórn fyrirtækisins. Það sagði ég ekki. Ég sagði, að hann hefði sagt, að hún væri komin frá Pharmaco og rn. En ég verð að segja, að það er óþarfi að leggja í það þann skilning, að þar með hafi þeir Pharmaco-menn verið ánægðir með gang málanna. Það má segja, að það sé betri hálfur skaði en allur og eðlilegt, að fyrirtæki leggi sig fram um að fá einhverjar leiðréttingar á frv., sem það, eins og ég sagði, á yfir höfði sér, — stjfrv., sem bindur samningsgerðina að verulegu leyti. Og þá vil ég aftur segja, að ég hef enga trú á, að þessi brtt., þótt samþ. verði og frv., brtt. um fyrirkomulag stjórnarinnar, fái staðist til lengdar.

Aðalágreiningurinn mun þó vera um eignarhlutföllin. Hv. þm. fór ekkert sérstaklega vinsamlegum orðum um fyrirtækin í landinu, sem öll styndu undan fjárskorti og ætluðust til þess, að ríkið hlypi þar undir bagga, ríkið væri þó ekki nema fólkið í landinu og aðgerðir ríkisins væru þá með hagsmuni heildarinnar fyrir augum. En það er ekki alltaf, sem ríkisvaldið hefur fyrst og fremst hagsmuni heildarinnar fyrir augum. Og ég hef ekki trú á því, að verið sé að gæta hagsmuna heildarinnar með þessu frv., síður en svo. Ég skal ekki fara í neinar deilur við hv. þm. um annars vegar ágæti einkarekstrar og hins vegar um hve æskilegur ríkisrekstur sé. Ég skal láta það liggja á milli hluta. Það er mál, sem hér hefur oft verið rætt. En það er af reynslunni rótgróin tortryggni fólks á því, að ríkisreksturinn sé hagstæðari fyrir hagsmuni heildarinnar. Ég tel, að svo sé alla jafna ekki, og ég skal ekki eyða fleiri orðum í það. En þær ríkisstjórnir, sem hafa ástundað ríkisrekstrarbrölt, álít ég, að hafi ekki alltaf gert það með hagsmuni heildarinnar fyrir augum.