14.12.1973
Neðri deild: 41. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (1253)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vil af heil um hug taka undir þau orð, sem sögð hafa verið um nauðsyn þess að koma Hornfirðingum til hjálpar í því neyðarástandi, sem nú virðist því miður hafa skapast á þeim stað, og ég treysti því, að allt, sem í mannlegu valdi stendur, verði gert til þess að ryðja þeim erfiðleikum úr vegi, sem orðið hafa á vegi þessa fólks. En hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, vakti athygli á því, að í raun og veru væri vandamálið stærra. Það væri um að ræða vandræði í raforkumálum Austfirðingafjórðungs yfir höfuð að tala. Þessi aths. er algerlega rétt. Ég vil taka undir hana og undirstrika hana sérstaklega. Og því vil ég bæta við, að það er ekki aðeins um að ræða öngþveiti, — ég treysti mér ekki til að nota vægara orð, í rafmagnsmálum Austfirðingafjórðungs, heldur einnig á Norðurlandi og í Vestfirðingafjórðungi. Við heyrum daglega auglýsta skömmtun rafmagns á Norðurlandi, og allir vita, að það er á mörgum stöðum á Vestfjörðum um að ræða hreint neyðarástand í orkumálum. Það er m. ö. o. í þremur landsfjórðungum: á Austurlandi, á Norðurlandi og á Vesturlandi, um að ræða vandræðaástand í orkumálum, og víða þarf að gripa til skömmtunar, sem veldur almenningi stórkostlegum óþægindum. Það er augljóst mál, að eitthvað meira en lítið hefur farið úrskeiðis við stjórn raforkumála á undanförnum mánuðum eða árum. Það hefur aldrei áður, að því er ég minnist, komið fyrir, að stórfellds orkuskorts hafi orðið vart í þremur landsfjórðungum á landinu. Það hefur aldrei áður komið fyrir, að grípa hafi þurft til skömmtunar samtímis á jafnmörgum stöðum og á sér stað einmitt í þessum mánuði. Þetta bendir til meiri háttar vanrækslu eða óstjórnar í orkumálunum. Þess vegna er nauðsynlegt, að ekki aðeins Hornfirðingum verði bjargað, eins og sjálfsagt er og bráðnauðsynlegt, heldur að gerð sé allsherjarúttekt á ástandinu í orkumálum þessara þriggja landsfjórðunga. Eitthvað meira en lítið er að. Um það þarf Alþ. að fá skýrslu, hvernig á þessum vandræðum stendur. Það þarf að grípa sem fyrst til ráðstafana til að vinna bug á þessum vandræðum, annað er stjórnvöldum og Alþ. ekki sæmandi. En fyrst er að fá glöggar upplýsingar um, hvernig á þessum ósköpum stendur, og síðan er að ráða bót á þeim.

Ég vil nota þetta tækifæri, sem hér hefur gefist, til þess að vekja athypli á þessum augljósu staðreyndum.