14.12.1973
Neðri deild: 41. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1446 í B-deild Alþingistíðinda. (1258)

Umræður utan dagskrár

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að verða við tilmælum hæstv. forseta um að lengja ekki þessar umr., enda þótt ærið tilefni hafi gefist til af hálfu hæstv. orkuráðh. sjálfs. Ræða hans hér áðan var þess eðlis, að í rauninni er mjög örðugt að komast hjá því að ræða hér nánar um orkumálin. En ég vil taka undir það, sem kom fram í hans fyrri ræðu, að það hörmulega ástand, sem skapast hefur á Hornafirði, hefur að mörgu leyti skapast af ófyrirsjáanlegum atvikum. Á hinn bóginn getum við séð fyrir, að það er að skapast öngþveiti og neyðarástand í öðrum landsfjórðungum í orkumálum af ástæðum, sem eru fyrirsjáanlegar. Þar á ég m. a. við Norðurland, vegna þess að við vitum, að núv. ástand þar er mjög varhugavert, vegna þess að rennsli Laxár er tvínýtt með þeim hætti, sem nú er, eftir að nýja virkjunin er komin í gagnið, og það þýðir, að rennslistruflanir í Laxá hafa tvöföld áhrif á orkuframleiðslu í fjórðungnum. Þetta er fyrirsjáanlegt, og þetta getur haft stórkostlegar afleiðingar.

Ég vil aðeins mótmæla því, sem hæstv. ráðh. sagði, að ástandið væri eins, ef Gljúfurversvirkjun hefði komist í framkvæmd. Nú er ég ekki talsmaður Gljúfurversvirkjunar, eins og hún var hugsuð einu sinni, en það hefði verið mjög auðvelt að ráða bót á ástandinu á Norðurlandi, ef lítils háttar jarðvegsstífla, vatnsborðshækkun, hefði verið samþ. í Laxá, og það væri hægt að gera það mjög skjótt enn, ef allir aðilar, sem að málinu stæðu, féllust á það.

En meginástæðan til þess, að ég tók hér til máls, var sú, að fyrir skömmu barst mér sú fregn, — ég kann ekki á henni sönnur, en vildi aðeins æskja þess, að hæstv. ráðh. tjáði sig um það, að Landsvirkjun hefði samþykkt, að engin orka yrði seld til Norðlendinga fyrr en á árinu 1977, þegar allar túrbínur Sigölduvirkjunar væru komnar í gagnið. Betur væri, að þetta væri ekki rétt, en af þessu hafa menn áhyggjur ofan á annað á Norðurlandi.