14.12.1973
Neðri deild: 41. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

Umræður utan dagskrár

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að blanda mér í þessar umr., en það er aðeins að gefnu tilefni.

Hæstv. iðnrh. sagði, að það væri rétt að krefja fyrrv. ríkisstj. um skýrslu um raforkumálin og undirbúning að því, sem nú væri að gerast. Það liggur alveg í augum uppi, að fljótlegt er að gera þá skýrslu, vegna þess, að meginatriði hennar eru vitanlega til í iðnrn., hæstv. ráðh. getur ábyggilega tekið þessi plögg, og það væri æskilegt, að þeim væri útbýtt hér meðal hv. þm. Þá kæmi það í ljós, að það hefur aldrei verið unnið meira að orkumálum en í tíð fyrrv. stjórnar og lagður grundvöllur að því, sem nú er verið að vinna.

Hæstv. ráðh. sagði, að núv. ríkisstj. hafi tekið ákvörðun um Lagarfossvirkjun. Hvernig stendur á því, að hæstv. ráðh. segir þetta? Allir hv. alþm. vita, að það var gert í tíð fyrrv. ríkisstj. Samt ber hæstv. ráðh. þetta hér á borð. Það hlýtur að vera málefnafátækt, þegar þarf að grípa til svo augljósra blekkinga. Og það mætti segja fleira. Það var unnið að undirbúningi Mjólkárvirkjunar, en undirbúningnum var ekki lokið, þegar fyrrv. stjórn fór frá. Það var unnið að undirbúningi hennar. Það var unnið að undirbúningi virkjana víða á Norðurlandi, og ég verð að segja, að ef stíflan í Laxárvirkjunina, sem hv. síðasti ræðumaður minntist á, hefði fengist samþykkt, þá væri vitanlega allt annað ástand í orkumálum á Akureyrar- og Laxársvæðinu. Þá hefði orkan aukist, að mig minnir um 12—3 megawött. Þeirri stíflu gæti verið lokið nú, ef vel hefði verið unnið 2 s. l. ár. Þá væru ekki þau vandræði, sem nú eru í orkumálum á Norðurlandi. En hvernig stendur á því, að hæstv. iðnrh. hefur ekki notað heimild um virkjun Svartár, í Skagafirði? Það hefði getað bætt mikið úr á Norðvesturlandi, og eftir að lína er komin á milli Skagafjarðar og Akureyrar, þá hefði það getað bætt úr á báðum svæðunum.

Ég skal ekki misnota tímann. En ég mæli eindregið með því, að skýrsla um orkumál og framkvæmdir í orkumálum og undirbúning þeirra frá tíð fyrrv. stjórnar verði lögð fram hér á hv. Alþ., svo að það liggi alveg ljóst fyrir, hvað gerðist á þessum árum í orkumálunum.

Ég vil svo vænta þess, að það takist að bæta úr því, sem hefur skeð í Hornafirði. Það vissu allir, þegar Smyrlabjargarárvirkjun var gerð, að sú hætta var fyrir hendi, að lónið tæmdist. Sú hætta var alltaf fyrir hendi. Þess vegna dróst að virkja þar, en það var gert að lokum, og hefði vitanlega þurft að hafa meira dísilafl til vara í Höfn. En það er í þessu máli eins og svo oft áður, að menn geta orðið vitrir eftir á. En það er auðheyrt á þeim, sem hér hafa tekið til máls, og þ. á m. hæstv. ráðh. tveimur, að þeir vilja beita sér fyrir því að bæta úr þessu, eins og í mannlegu valdi stendur og meira verður ekki krafist.