14.12.1973
Neðri deild: 41. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (1261)

Umræður utan dagskrár

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi gjarnan halda mig að því, sem forseti mæltist til, að umr. snerust um það, sem var upphaflega vakið máls á. En vegna þess, sem búið er að segja hér um ástand raforkumála á Norðurlandi, og vegna þess að þar hafa komið fram villandi upplýsingar, svo að ekki sé meira sagt, vildi ég segja um það nokkur orð.

Eftir þeirri áætlun, sem gerð var um Laxár virkjun eða Gljúfurversvirkjun, þá var upphaflega meiningin, að hún tæki til starfa árið 1972. En eins og við vitum, er það ekki fyrr en seint á árinu 1973, sem hún kemur í gagnið. Ég vil taka það fram, að það mun ekki vera hægt að sýna fram á það með rökum, að svonefnd Laxárdeila hafi á nokkurn hátt tafið framkvæmd við þennan fyrsta áfanga Gljúfurversvirkjunar. Það var aldrei breytt einu eða neinu í hönnun og farið eftir upphaflegri áætlun um framkvæmdir. Það er aðeins það, að framkvæmdirnar hafa tekið lengri tíma, og við hvern er að sakast um það, skal ég ekki ræða. Sú stífla, sem um var deilt og komið var í veg fyrir, að gerð yrði, átti að koma árið 1978 eftir þessari áætlun. Hins vegar var það ljóst 1970, að það mundi vera mjög hæpið, að hægt yrði að gera þá stíflu, og þá hafði fyrrv. ríkisstj. möguleika á því að ná samningum um ákveðna stíflugerð í Laxá.

Málin horfa þó þannig við núna, að þegar virkjunin tekur til starfa, — hún skilar kannske heldur minna en menn áttu von á, — þá er verulegur orkuskortur. Þetta hlýtur að byggjast á því,að það hefur verið röng orkuspá á Norðurlandi. Hvenær menn hefðu getað séð, að orkuþörfin væri miklu meiri en þetta, get ég ekki dæmt um, en það er augljóst, að forráðamenn orkumála á þessu svæði hefðu átt að geta séð það fyrr en núna, að það þyrfti að gera meira í þessum málum. Nú er okkur tjáð, að í fyrsta lagi sé hægt að fá dísilstöð á þetta svæði á næsta ári. Næsta lausn er sú, að snemma á árinu 1975 geti komið lína, sem flytur rafmagn að sunnan. Hins vegar hafa margir hv. þm. barist gegn því, að fyrsti hluti þeirrar línu, sem þegar er kominn, yrði lagður, það er lína frá Akureyri til Varmahlíðar. Þar á eftir er svo næsta úrræðið fyrir Norðlendinga virkjun háhitasvæðis, Kröflu eða Námaskarðs, sem gæti í fyrsta lagi komið 1976. En minna má á það, að í Laxárdeilunni var það ábending heimamanna, þeirra sem vöruðu við því flani, sem Gljúfurversvirkjun var, að menn sneru sér að gufuvirkjun. Þá mátti ekki nefna það við orkuyfirvöld, það var fordæmt, en nú er það lausnarorðið.

Ég held, að það sé ekki rétt að deila um orðna hluti, heldur snúa sér að því að reyna að bæta úr. En það er farið rangt með, þegar talað er um, að það hefði verið hægt að vera búið að gera stíflu í Laxá núna. Það hefði ekki verið hægt.