29.10.1973
Efri deild: 5. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

45. mál, sameining Flugfélags Íslands og Loftleiða

Félmrh. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Þetta frv. er flutt samkv. 28. gr. stjskr. til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út 11. júlí 1973, um ráðstafanir vegna sameiningar Flugfélags Íslands h/f og Loftleiða h/f. Þó að mál þetta sé mörgum kunnugt, þykir mér rétt að rekja hér sögu þess í stuttu máli og hver afskipti ríkisvaldsins hafa af því verið.

Þegar haustið 1971 varð ljóst, að flugfélögin tvö, Flugfélag Íslands h/f og Loftleiðir h/f, stefndu út í harðnandi samkeppni á þeim leiðum, sem þau starfræktu bæði. Sérstaklega var þetta áberandi á Norðurlandaleiðinni. Samgrn. vakti máls á þessu vandamáli við forráðamenn félaganna, og hófu þeir þá viðræður um ráðstafanir til að draga úr samkeppninni. Viðræður félaganna hófust í okt. 1971, og leit um tíma nokkuð vel út um árangur. En þó fór svo, að um miðjan jan. 1972 var þessum viðræðum hætt, án þess að árangur næðist. Haustið 1972, þegar fyrirætlanir flugfélaganna um flugáætlun vetrarins var kunn, var auðséð, að enn var stefnt að harðnandi samkeppni. Tók flugráð málið upp í okt. þá um haustið og lagði til við samgrn., að það skærist í leikinn og takmarkaði ferðafjölda, þannig að líkur væru fyrir viðunandi sætanýtingu miðað við sennilegan farþegafjölda. Rn. taldi rétt að reyna, hvort málið yrði leyst með öðrum hætti, áður en takmörkunarleiðin væri farin. Ritaði það því félögunum bréf, sem var dagsett 3. nóv. 1972, benti á þjóðhagslega nauðsyn þess, að félögin drægju úr innbyrðis samkeppni, en tók jafnframt fram, að ef ekkert hefði gerst í málinu fyrir 1. des. 1972, mundi horfið að skiptingu flugleiðanna milli félaganna.

Viðræður félaganna hófust síðan, en þann 23. nóv. 1972 rituðu félögin ráðh. sameiginlegt bréf og kváðust telja, að vænta mætti meiri árangurs, ef viðræður færu fram í áheyrn og með hugsanlegri aðstoð einhvers hlutlauss fulltrúa ríkisstj., sem báðir aðilar sættu sig við. Báðu þau um, að slíkur maður yrði tilnefndur. Hinn 24. nóv., sama ár var ráðuneytisstjóra samgrn. falið að leiða viðræður félaganna um ýmiss konar samvinnu, og skyldi stefnt að nánari samvinnu og samruna félaganna innan tiltekins árafjölda, ef það teldist hagkvæmt við athugun málsins. Jafnframt voru honum fengnir þrír sérfræðingar til aðstoðar, og skyldu þeir sitja viðræðufundi, eftir því sem ástæða þætti til.

Fulltrúar ríkisstj. komust fljótlega á þá skoðun, að skjót sameining félaganna væri eina leiðin til að koma á þeirri hagræðingu í ferðum og rekstri, sem nauðsynleg væri. Var því lagt til við fulltrúa þeirra þegar í byrjun des. s. l., að sú leið yrði könnuð til þrautar, og féllust þeir á það. Viðræðufundir voru reglulega allt fram til miðs mars það ár, með hléi um hátíðarnar, en 14. mars lögðu fulltrúar ríkisstj. fram till. að samkomulagsgrundvelli, og féllust fulltrúar félaganna loks á þessar till. 11. apríl þ. á. á 44. viðræðufundi.

Þegar fallist hafði verið á samkomulagsgrundvöllinn, var tekið til við að ræða um samstarfsformið, og var um síðir ákveðið að stofna eitt eignarfélag, sem allir núv. hluthafar Flugfélags Íslands h/f og Loftleiða h/f ættu aðild að, en eignarfélagið ætti síðan Loftleiðir og Flugfélagið og ræki þau til að byrja með a. m. k. sitt í hvoru lagi, en þó með náinni samvinnu. Þetta fyrirkomulag var nauðsynlegt til að geta haldið IATA-aðild Flugfélags Íslands h/f og jafnframt þeirri aðstöðu, sem Loftleiðir hafa utan IATA, en það skapar einstaka möguleika að geta sjálfir ákveðið fargjöld milli New York og Chicago annars vegar og Lúxembúrgar hins vegar, og munu Loftleiðir h/f vera eina flugfélagið, sem flýgur reglubundið milli Bandaríkianna og Evrópu, sem hefur slík réttindi. IATA-aðild Flugfélags Íslands er líka mikils virði, þar sem henni fylgja margvíslegir möguleikar til að hafa áhrif bæði á almenn fargjöld og sérfargjöld milli Íslands og annarra Evrópulanda. En samkv. öllum þeim tvíhliða loftferðasamningum, sem Ísland hefur gert við Evrópulöndin önnur en Lúxembúrg, eru IATA-fargjöldin ráðandi. Auk þessa opnar IATA-aðild leið til að hafa áhrif á hlutfall leiðarhlutans til Íslands. ef um keðjufargjöld er að ræða, e. t. v. með mörgum flugfélögum. Til að halda IATA-aðild varð Flugfélag Íslands h/f að vera til sem félag, en ekki deild í öðru félagi, auk þess sem félagið þurfti sem slíkt að eiga a. m. k. eina flugvél til nota og réttinda til reglubundins flugs á a. m. k. einni flugleið milli landa.

Hugmyndir þær, sem þannig varð samkomulag um varðandi félagsformið, ásamt samkomulags grundvellinum frá 11. apríl, voru síðan lagðar fyrir hluthafafundi Flugfélags Íslands h/f og Loftleiða h/f sama dag, 28. júní 1972, og samþ. þar með 98–100% atkv.

Áður en hér var komið, var ljóst, að hið fyrirhugaða rekstrarform rúmaðist ekki innan ramma hinna almennu íslensku hlutafélagalaga. Einnig var ljóst, að vegna þess að hlutafé Loftleiða hf. var aðeins tæp 20% af hlutafé Flugfélags Íslands h/f, var fyrirsjáanlegt, að nafnverð hlutafjár Loftleiða h/f hlyti að margfaldast og yrði það tilfinnanlegt fyrir hluthafa þau ár, sem arður færi niður úr tilteknu lágmarki. Einnig var ljóst, að ef ná ætti þeirri hagræðingu í rekstrinum, sem stefnt var að, yrði að búa svo um hnútana, að ekki yrði um margsköttun að ræða í hinu þrefalda félagsformi. Það var forsenda fyrir samþykki hluthafafundanna 28. júlí, að þessi atriði yrðu leyst með löggjöf á þann hátt, sem forráðamenn félaganna teldu viðunandi. Auk þess komu til ýmis önnur atriði, sem forráðamenn félaganna vöktu máls á. Meðal þeirra var áframhaldandi réttur félaganna á alþjóðaflugleiðum, sem Ísland hefur rétt á milli landa samkv. tvíhliða loftferðasamningum, sérleyfi í innanlandsflugi, ýmsar spurningar varðandi leiguflug, og einnig um stimpilgjöld og þinglýsingargjöld.

Ekki tókst að ganga frá því, sem lagabreytingar krafðist, fyrir hluthafafundinn 28. júní, en samgrn. staðfesti þann dag, að ríkisstj. hefði ákveðið að standa að því með útgáfu brbl., að hinum nýja félagsskap yrði skapaður lögformlegur grundvöllur, miðað við það rekstrarform, sem aðilar höfðu orðið ásáttir um, svo og til að tryggja, að ekki yrði um að ræða ósanngjarna skattlagningu hins nýja félags eða lauthafa þess. Um önnur atriði, sem ég minntist á, fjallaði samgrn. í bréfi til félaganna 25. júní á þann hátt, sem þau mátu fullnægjandi.

Fyrstu viku júlímánaðar þessa árs voru þau atriði, sem lagabreytingar kröfðust, síðan tekin til athugunar. Eftir nokkrar umr. féllust fulltrúar flugfélaganna á hugmynd samgrn., og voru brbl. síðan gefin út 11. júlí, eins og ég áður sagði. Að sjálfsögðu hafði samgrn. fullt samráð við fjmrn. um skattaákvæði brbl. og við viðskrn. um það, sem snerti hlutafélagalögin. Hið nýja félag, Flugleiðir h/f, var síðan stofnað 20. júlí 1973 og tók við yfirstjórn beggja flugfélaganna 1. ágúst s. l.

Skal nú vikið örlítið að efni einstakra gr. brbl.

Samkv. 1. málsgr. 3. gr. hlutafélagalaga, nr. 77 frá 1921, er gert ráð fyrir, að einstaklingar standi að stofnun hlutafélaga, en hér var formið það, að hluthafar Flugfélags Íslands h/f og Loftleiða h/f gáfu stjórnum sínum umboð til þess að stofna eignarfélagið, sem hluthafar síðan skyldu fá beina aðild að, er eignarmatinu væri lokið og gengi hlutabréfa í hvoru félagi ákveðið. Í 38. gr. hlutafélagalaganna segir, að slíta skuli hlutafélagi, ef hluthafar verða færri en 5. Hinu nýja fyrirhugaða félagsformi fylgdi, að allir hlutir í Flugfélagi Íslands h/f og Loftleiðum h/f yrðu eign hins nýja eignarfélags, og var því talið rétt að gera þetta frávik frá almennum reglum, og er það gert í 2. gr. brbl. Í þeirri gr. er einnig ákveðið, að stjórnarmenn í Flugfélagi Íslands h/f og Loftleiðum h/f þurfi ekki að vera hluthafar, og leiðir það einnig af félagsforminu, þar sem aðild hluthafanna er bein í eignarfélaginu, en óbein í dótturfélögunum. Í 3. gr. brbl. er ákvæði, sem undanskilur Flugfélag Íslands h/f og Loftleiðir h/f frá ákvæðum hlutafélagalaganna um, að enginn hluthafanna geti farið með meira en 1/3 atkvæða, enda er hér öll hlutafjáreign á hendi eins aðila. Í 4. gr. brbl. er ákveðið, að félögin 3: hið nýja eignarfélag, Flugfélag Íslands h/f og Loftleiðir h/f, skuli teljast einn skattaðili. Og í 5. gr. er ákvæði, sem vernda á hluthafa gegn ósanngjarnri skattbyrði, og hef ég vikið að þessu hvoru tveggja hér á undan. Sé 3% arður greiddur, má telja öruggt, að hluthafar verði skattlausir. Athygli er vakin á, að ákvæði 5. gr. er aðeins ætlað að gilda til og með 1980. Í 6. gr. eru svo ákvæði um, að almenn tímatakmörkun, sú sem ákveðin er til útgáfu jöfnunarhlutabréfa, skuli ekki gilda um væntanlega úthlutun hlutabréfa vegna hlutabréfaskipta í tengslum við aðild Flugfélags Íslands h/f og Loftleiða h/f að hinu nýja sameiginlega félagi.

Með því samkomulagi, sem hér hefur lauslega verið lýst, er stefnt að því í fyrsta lagi að fella þá liði í starfsemi félaganna, sem betur verða eða eru reknir í einu lagi en tvennu, saman þegar í byrjun, og má þar til nefna ýmisleg innkaup og afgreiðslur erlendis og væntanlega líka heima. Segir í blaðaviðtali við tvo forstjóra beggja félaganna í lok ágúst s. l., að þeir telji, að aðeins slíkar byrjunaraðgerðir muni spara félögunum hundruð millj. árlega. Þá verður strax nú í vetur fækkað og hagrætt þeim ferðum, sem hin harða samkeppni hefur gert óhagkvæmastar, og er þar sérstaklega um að ræða ferðir til og frá Norðurlöndum. Síðan er hugmyndin og stefnan að sameina fleiri þætti, eftir því sem reynslan kennir, að hagkvæmt sé, og án þess að viðskiptavild og viðskiptasambönd bíði hnekki af. Þá er talið víst, að staða hins nýja félags til margs konar samninga, svo sem um tryggingar o. fl., verði mun sterkari og hagstæðari en áður. Í fyllingu tímans er svo stefnt að algerri sameiningu, en í byrjun er fyrst og fremst um að ræða rekstur tveggja félaga undir einni sameiginlegri stjórn. Að mati forráðamanna er þó óvissu háð, hve langan tíma alger sameining tekur.

Það er sannfæring mín, að með sameiningu hinna tveggja íslensku flugfélaga, þótt í áföngum sé af hagkvæmnisástæðum, sé stigið gæfuspor fyrir þennan mikilsverða atvinnurekstur, sem hefur alla tíð átt við harða samkeppni að etja á vinnumarkaði og einnig innbyrðis. Sameiningin vekur góðar vonir um, að eitt sterkara hlutafélag og niðurlagning ósjálfráðrar innri samkeppni valdi því að styrkja íslensk flugmál og tryggja framtíð þeirra á einu harðasta samkeppnissviði, sem ríkir nokkurs staðar á alþjóðavettvangi. Að þessu merka spori stignu er unnt að líta bjartari augum á, að sú atorka og fyrirhyggja, sem brautryðjendur íslenskra flugmála hafa á margan hátt sýnt í uppbyggingu og starfi Flugfélags Íslands h/f og Loftleiða h/f, skili þjóðinni álitlegum árangri í framtíðinni.

Ríkisstj. og samgrn. hafa því talið og telja, að ekki sé áhorfsmál, að létta beri félögunum sameininguna eftir fremstu getu, bæði með útgáfu á væntanlegri staðfestingu hv. Alþ. á þessum brbl. og öðrum þeim aðgerðum og fyrirgreiðslu sem mögulegt er að veita og eðlilegt getur talist. Ég vænti greiðrar afgreiðslu hv. þd. á þessu frv. og legg til. herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. samgn.