14.12.1973
Neðri deild: 41. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (1285)

131. mál, útvarpslög

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Að ýmsu leyti get ég fallist á það, sem hér hefur verið sagt í ræðum þeirra hv. flm., en hins vegar hygg ég, að það þurfi að kanna betur, hvort rétt sé stefnt með þessu frv. að því leyti að fela landshlutasamtökum eða einstökum sveitarfélögum útvarpsrekstur. Ég hef lengi haft þá trú, og það munu fleiri, að það væri möguleiki á því fyrir Ríkisútvarpið að víkka út starfsemi sína á þann hátt að koma upp sérstökum útvarpsstöðvum eða a. m. k. stúdíóum úti um landsbyggðina og koma þannig upp staðbundnum útvarpsstöðvum að vissu leyti. Að sjálfsögðu er eðlilegt að fara stillt af stað í þessu, en þó held ég, að það væri eðlilegt, ef á annað borð verður út í þetta farið, að þá yrði það gert með þeim hætti, að Ríkisútvarpinu sé falið að sjá um það og gera það dálítið myndarlega. Að sjálfsögðu yrði að framkvæma þetta í samráði við heimamenn. Það er nauðsynlegt af ýmsum ástæðum, fyrst og fremst með tilliti til þess að kanna allar aðstæður heima fyrir um möguleika á því að halda uppi slíkri starfsemi, því að það er auðvitað ekki alveg vandalaust að gera slíkt. Það þarf m. a. hæfa menn til þess að stjórna og koma fram í útvarpi, og þetta þarf allt að kanna ákaflega vel, þannig að ég er ekki beinlínis hrifinn af því að taka þetta úr höndum útvarpsins eða útvarpsráðs. Ég vil halda mér við það, sem hér hefur verið alla tíð, frá því að útvarp fór að verulegu leyti að starfa hér, að það sé ríkisútvarp og það sé þingkjörið útvarpsráð, sem fer með málefni þess. Og það vil ég gjarnan, að verði einnig úti um landsbyggðina. Ég hef ekki aðhyllst þá skoðun, sem fram hefur komið, einkum hjá ýmsum sjálfstæðismönnum, að heimila frjálst útvarp, ef svo má segja, einstökum mönnum eða félagssamtökum, að heimila þeim útvarpsrekstur. Ég hef ekki aðhyllst það, og ég held, að það þurfi að athuga það mjög gaumgæfilega, hvort ástæða sé til að fela þetta sveitarfélögum eða landshlutasamtökum, þó að þau séu út af fyrir sig góðra gjalda verð og eigi allt got skilið. Þannig er ég að ýmsu leyti sammála því, sem hér hefur fram komið, en hins vegar get ég ekki fellt mig við það efni að öllu leyti, sem felst í þessu frv., og tel, að það þurfi að skoða það miklu betur, áður en það verður lögfest. En sem sagt, ég vil leggja mikla áherslu á, að ég tel, að það séu ýmsir möguleikar í þessu máli og þá þurfi að kanna og ætti að hraða slíkri könnun. Eðlilegast er, að þetta fari fram á vegum Ríkisútvarpsins sjálfs.

En þegar maður talar um möguleika fyrir Ríkisútvarpið að hefja útvarpsrekstur úti um land, þá komum við einnig að því að hugleiða fjárhagsmálefni Ríkisútvarpsins, en eins og nú er um fjárhagsmálefni Ríkisútvarpsins eru þau mjög slæm. Eins og menn hafa veitt athygli í fjárlagafrv., er verulegur halli sýnilegur á Ríkisútvarpinu. Það er nú einmitt verið að gera ráðstafanir til að reyna að bæta þennan halla, og ég hygg, að reyndin verði sú, að það sé ekki til önnur leið en að hækka afnotagjöld Ríkisútvarpsins. Þau hafa staðið í stað ákaflega lengi og ekki fylgt eftir öðru verðlagi í landinu, og í rauninni er alveg ótrúlegt, hversu lengi Ríkisútvarpið hefur getað þolað það, að ekki væru hækkuð afnotagjöld þess. Þetta er því allt í samhengi, fjárhagur Ríkisútvarpsins og þeir möguleikar sem vera kunna fyrir hendi um að hefja útvarpsrekstur úti um land. En sem sagt, ég tel, að það sé vel farið, að þeir hv. flm. hafa hreyft þessu máli. Hins vegar held ég, að það hefði verið heppilegra, að það hefði komið fram í öðru formi, og þá hefði verið líklegra, að menn hefðu frekar getað tekið undir þeirra mál, því ég held, að það sé viðurhlutamikið og ekki eðlilegt að fela öðrum en Ríkisútvarpinu sjálfu rekstur stöðvanna.