14.12.1973
Neðri deild: 42. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (1305)

138. mál, almannatryggingar

Flm. (Pétur Pétursson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja einu sinn enn mál. sem ég er búinn að flytja á tveimur þingum áður, en það má kannske segja að allt er þegar þrennt er. Megininnihald þessa litla frv. er, að tannlækningar ungmenna skuli falla undir venjulegar sjúkrasamlagsgreiðslur, þ. e. a. s. ungs fólks upp að 20 ára aldri. Þessu máli hefur alltaf verið vísað til ríkisstj. að undanförnu, og rökin fyrir því hafa verið, að lög um almannatryggingar séu í endurskoðun. Ég efa það ekki, að þau séu í endurskoðun, en mér finnst vel hægt að taka þetta mál út úr og afgreiða það sérstaklega, því að það eru alveg tvímælalaust, og mun ég koma nokkuð að því síðar, hrein vandræði, að þessi þáttur læknisþjónustunnar skuli vera meðhöndlaður á þann hátt, sem gert er.

Málið snýst um, að tannlækningar ungmenna falli undir reglur um greiðslur úr sjúkrasamlögum. Að vísu eru skólatannlækningar mikils virði, svo langt sem þær ná. En fjölmörg börn og ungmenni hafa hreint ekki aðstöðu til að njóta þessarar þjónustu því miður. Í stórum landshlutum eru engir tannlæknar, og þá þarf að reikna með ferðakostnaði, sem getur vel orðið stórar fjárhæðir til viðbótar við sjálfan tannlækningakostnaðinn, sem ég tel, að sé ekki neinar smáupphæðir.

Það vita flestir, hvað það kostar að fara til tannlækna. Ég var að afla mér verðskrár tannlækna í gær. Það eru fjöldamargar þessara aðgerða, sem ég veit ekki, hvað þýða, en ég sé þó, að þær fara upp í 13 þús. kr. og margar á 4, 6, 8, og 10 þús. Það fyrsta á blaðinu er viðtal, það kostar 420 kr., og að gera kostnaðaráætlun skriflega kostar nærri 600 kr., 595 kr. Ef gerð er tannhreinsun, kostar það fyrir hverjar byrjaðar 10 mínútur 500 kr.

Ég geri ráð fyrir, að flestum hv. þm. sé vel kunnugt um það, hvað tannlækningar kosta nú á tímum. Og þá kemur þessi spurning: Hvernig á efnalítið fólk að ráða við þetta, ráða við það að halda tannheilsu í ungu fólki? Margir draga allt of lengi að leita tannlækna eða að fara til tannlækna með börn og ungmenni, einungis vegna þess, að þetta fólk hefur ekki efni á því að fara til tannlæknis. Svo getur jafnvel farið svo og hefur farið svo, eins og áreiðanlega mörgum er kunnugt, að síðar er viðgerð óframkvæmanleg. Auðvitað yrði nokkur viðbótarkostnaður við þessar aðgerðir, en heilbrigðisþjónustan er greidd mjög myndarlega af almannafé, og tannlækningar eru að mínu mati ekkert ómerkilegri lækningar en margs konar aðrar aðgerðir, sem gerðar eru. En mér finnst höfuðatriði þessa máls vera sá ójöfnuður, sem á sér stað á milli þeirra, sem hafa efni á því að leita til tannlækna, og hinna, sem hreint ekki hafa efni á því. Og þessi ójöfnuður er alveg óþolandi.

En hvernig stendur þá á því, að málinu er alltaf vísað til hæstv. ríkisstj. ár eftir ár? Á síðasta þingi t. d. voru allir nm. í hv. heilbr: og trn. sammála um þessa meðferð málsins nema fulltrúi Alþfl. Mig langar til að spyrja hæstv. heilbrrh. við þetta tækifæri um það, hvort þetta mál sé á leiðinni, hvort það sé líklegt, að það komi fram á þessu þingi, eða hvaða hugmyndir hann hafi um þessa sérstöku hlið heilbrigðismálanna, sem hefur verið meðhöndluð á þennan hátt á undanförnum árum. Mér finnst ekki, að tannlækningar séu eins konar þriðjaflokks læknisaðgerð, og mér finnst, að það eigi að veita þessu máli fulla athygli. Hér er aðeins gert ráð fyrir, að þessi greiðsla nái til fólks undir 20 ára aldri. Auðvitað ætti þetta að taka til tannlækninga allra landsmanna, en það var mín hugmynd, að þetta spor væri kannske ekki of stórt til að stiga í einu og væri viss áfangi að því að koma þessum þætti heilsugæslunnar inn í löggjöf almannatrygginganna.

Ég satt að segja skil ekki annað en hv. þm. hljóti að viðurkenna nauðsynina á því, að þetta sé gert, og ég verð að segja, að ég skil ekki þá tregðu, sem hefur verið á því að gera eitthvað í þessum málum. Þegar ég segi: eitthvað, þá gæti ég t. d. látið mér detta í hug, að í væntanlegri endurskoðun á almannatryggingal. væri þessi þáttur tekinn út úr, vegna þess að mér finnst það varla boðlegt að láta þennan tiltölulega stóra þátt í heilbrigðismálum fjölmargra heimila vera alltaf á eftir. Og þá er ég ekkert að gera lítið úr skólatannlækningunum, sem eru góðra gjalda verðar, eins og ég sagði áðan, svo langt sem þær ná. En ég vil vona, að hv. þm. sjái sér fært að standa að þessum áfanga nú eða þá að hæstv. heilbrrh. geti upplýst, hvenær sé von á þessu máli út af fyrir sig, og skal ég þá taka þær upplýsingar fullkomlega til greina. En ég er orðinn þreyttur á því, að mér sé sagt ár eftir ár, að þetta komi á næstunni, en svo kemur ekki neitt.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.