29.10.1973
Neðri deild: 5. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

49. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er á ferðinni, er fram borið vegna samninga milli ríkisins og opinberra starfsmanna. Samningafundir hafa staðið yfir að undanförnu, en ljóst er, að þó að til samninga kæmi, gæti það aldrei orðið fyrir þann frest, sem er í lögum, 1. nóv. Er því komin fram ósk frá báðum aðilum um að lengja frestinn, áður en málið gangi sjálfkrafa til Kjaradóms. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja óskaði eftir því, að þessi frestur yrði lengdur til 20. des., en Bandalag háskólamanna til 14. nóv. Það varð því niðurstaðan að leggja til, að þessi frestur yrði til 15. des., enda hafði í umr. mínum við formenn flokkanna, sem ekki standa að ríkisstj., komið fram, að þeir vildu gjarnan, að fresturinn yrði ekki svo langur, að það væri ekki ljóst, ef samið yrði, hverjir samningarnir yrðu, áður en fjárlög yrðu afgreidd. Ég taldi mig taka tillit til þess, þegar ég legg til, að framlengingin verði til 15. des. En 19. des. fóru samningar fram 1970 og fjárlög voru þá afgreidd 20. des.

Slík mál sem þessi hafa verið fyrr hjá hv. Alþingi á ferðinni, t. d. 1970, og þá var samkomulag um það á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, að það mál þyrfti ekki að ganga til n. og gæti gengið með hraða í gegnum háðar deildir þingsins. Ég leyfi mér að fara fram á, að slík vinnubrögð verði viðhöfð nú, enda nauðsyn að fá þennan frest lengdan, að láta málið vera hjá sáttasemjara, ekki síst vegna þess, að jafnhliða þessum samningum er unnið að almennum kjarasamningum í landinu, og það þótti því ekki skynsamlegt að reyna að herða á gangi þessa máls. Jafnvel þótt einhverjar leiðir væru til samninga, þá mundu þeir aldrei nást fyrir þann tíma, sem lögin gera ráð fyrir, og líka of snemmt með tilliti til hinna.

Ég vænti því, að hv. alþm. vilji veita þennan frest og leyfa þessu máli að ganga með afbrigðum í gegnum þessa hv. deild.

Ég legg því til. herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr.