15.12.1973
Efri deild: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (1315)

102. mál, veiðar með botnvörðu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi

Jón Árnason:

Herra forseti. Hér er vissulega um mál eð ræða, sem hægt væri að flytja langa ræðu um, en ég skal taka það strax fram, að ég mun ekki eyða mörgum mínútum í að ræða þetta mál við þessa umr. Það er hvort tveggja, að það gefst frekara tækifæri, þegar málið kemur aftur til d., og einnig, að ég er í þeirri n., sem fær málið til meðferðar. Ég vil þó aðeins með nokkrum orðum víkja að frv. strax í upphafi.

Ég tel, að í frv., sem hér liggur fyrir, sé stefnt í rétta átt. Það er á ýmsum stöðum við landið um aukna friðun að ræða fyrir dragnóta- og botnvörpuveiðum, og að því ber okkur að stefna. Það er alveg tvímælalaust, eins og kom fram hjá hæstv. sjútvrh. áðan. Það er líka rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að það er vitað um nokkurn ágreining, ekki bara við Faxaflóa, heldur víðar úti um landsbyggðina, í sambandi við það að taka grunnmiðin og leggja þau undir botnvörpu og dragnót. Ég sé ekki út af fyrir sig, að það sé æskilegt fyrir hæstv. ráðh. að fá heimildir til að skera úr eða kveða á í jafnviðkvæmum málum og hér getur verið um að ræða. Það er nokkurn veginn víst, hvort sem hann verður við umræddum beiðnum eða ekki, að það verði um ágang á hann að ræða af ýmsum aðilum, kannske viðstöðulaust, meira og minna allt árið, ef hann hefur slíkar heimildir. Því ætti hæstv. ráðh. að gera sér grein fyrir.

Frv. í þeirri mynd, sem það liggur fyrir og var afgreitt í gær í hv. Nd. er í nýju formi hvað ýmis atriði snertir og á annan veg en frv. var, þegar við í sjútvn. deildanna ræddum málið saman. Það er búið að skjóta inn t. d. því ákvæði, sem hæstv. ráðh. minntist hér á varðandi Faxaflóann. Það er rétt, að gert er ráð fyrir ýmsum nýjum heimildum til að takmarka meira botnvörpuveiðar en verið hefur. Þess vegna stingur þetta ákvæði alveg í stúf við það, sem hefur verið ríkjandi. Ég vil líka vekja athygli á því, að það liggja fyrir frá undanförnum árum, svo til á hverju einasta ári, samþykktir frá sveitarstjórnum, sem eiga lífsafkomu sína undir veiðum úr Faxaflóa, bæjarstjórninni á Akranesi, bæjarstjórninni í Hafnarfirði, bæjarstjórninni í Keflavík, sveitarstjórninni í Gerðahreppi og yfirleitt öllum, sem fiskveiðar stunda í Faxaflóa, að undanskilinni Reykjavík. Þar er ágreiningur um málið, og borgarstjórnin stendur ekki sem einn maður, eins og á sér stað á öllum öðrum stöðum í sjávarplássunum við Faxaflóa. Það er eina undantekningin. Til viðbótar má benda á það, að báðar fiskveiðideildirnar í Stýrimannaskóla Íslands sendu aðvörun til Alþ. á s. l. ári um, að ekki mætti koma til þess að opna Faxaflóann fyrir dragnóta- og botnvörpuveiðum. Þegar þetta er haft í huga, held ég, að Alþ. ætti að gera sér grein fyrir því, að í þessari d. hefur verið alveg sérstök samstaða um þetta mál, og ég vænti þess, að svo verði einnig áfram. Sjútvn. hefur verið þeirrar skoðunar, að það ætti ekki að leyfa í Faxaflóa dragnóta- og botnvörpuveiðar. Það var alveg einróma samþykkt, þegar þessi lög komu til framkvæmda seinast og voru afgreidd hér, og slíkt átti sér einnig stað í Nd., en það var svo til einróma þar, en algerlega einróma í þessari deild.

Nú erum við búnir að fá stutt tímabil, og datt engum í hug, að það lægi fyrir neinn verulegur árangur, sem væri hægt að byggja á, eftir svo stuttan tíma. Þess vegna værum við að kasta fyrir borð þeirri reynslu, sem fengist hefur þó á þessum tíma, sem liðinn er, síðan lög um friðun í Faxaflóa komu til framkvæmda. Frá Hafrannsóknastofnuninni liggja ekki fyrir neinar niðurstöður rannsókna, svo sem er höfuðnauðsyn, þegar búið er að gera ráðstafanir eins og með þetta veiðisvæði. Þá þurfa að liggja fyrir nákvæmar rannsóknir um það, hvernig fiskurinn hefur hagað sér á þessu veiðisvæði á þessu tímabili og hvort um aukningu hans er að ræða og hvað eiginlega má gera ráð fyrir, að eigi sér stað í framtíðinni, ef sams konar háttur verður á hafður um friðun fyrir þessum veiðum á þessu veiðisvæði.

Ég skal, eins og ég sagði í upphafi ekki tefja lengur og vil segja það sama og hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni: Það er nauðsynlegt, að víðtæk samstaða náist um afgreiðslu þessa máls, ekki bara Faxaflóann, heldur um málið í heild. Ég viðurkenni, að þar er í ýmsum atriðum og flestum atriðum gengið lengra í þá átt að friða ný veiðisvæði, og þess vegna væri það að fara alveg í öfuga átt, ef við, um leið og við viðurkenndum, að nauðsynlegt væri að friða það, sem við höfum ekki áður friðað við strendur landsins, ætluðum þá að opna upp á gátt það eina veiðisvæði, sem er þó búið að gera nokkra tilraun með og ætti að koma innan skamms tíma árangur í ljós um, hvort við erum á réttri leið eða ekki.