15.12.1973
Efri deild: 39. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1477 í B-deild Alþingistíðinda. (1326)

153. mál, launaskattur

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls í gær sagði ég nokkur orð sem sérstaklega var beint til fjmrh. Ég gerði ráð fyrir, að hann yrði við þessa umr. Hæstv. forseti tjáði mér áðan, að hann mundi verða við. (Forseti: Hæstv. ráðh. er á leiðinni.) Ég vildi mjög eindregið óska eftir því að fá að fresta þessum umr., þar til ráðh. kemur. — (Fundarhlé.)

Herra forseti. Í þeim orðum, sem ég sagði í gær við 1. umr. málsins, sagði ég, að ég mundi bera fram brtt. Þær yrðu að vissu leyti um formsatriði, en þó veigamikið atriði að því leyti, að gert yrði ráð fyrir, að 1% launaskatturinn, sem rennur til Byggingarsjóðs ríkisins, sé varanlegur, eins og upphaflega var samkv. l. um launaskatt frá 1965. Ég hef því leyft mér á þskj. 258 að bera fram brtt. um þetta efni. Þær eru þess eðlis, að þær fylgja nákvæmlega því, sem ég tel. að hæstv. fjmrh. hafi lofað, að breytt yrði, bæði hér í hv. d. í des. s. l. og í apríl s. l. En það er aðeins ein önnur lítil breyting, sem ég skal koma að síðar.

Samkv. þessu geri ég það að till. minni við 1. gr. frv., að í 1. mgr. verði sú breyting, að í staðinn fyrir 2½% standi 1%, þ. e. a. s. að mgr. eigi einungis við þann launaskatt, sem rennur til Byggingarsjóðs ríkisins. Og í brtt., sem ég geri við 2. mgr. frv., segir: „Skattur þessi rennur til Byggingarsjóðs ríkisins sem stofnfjárframlag“. Þetta orðalag er nákvæmlega eins og það stóð í l. frá 1965. En samkv. frv., eins og það er lagt fram, er reiknað með í þessari mgr. 1½% launaskatti til ríkissjóðs jafnframt. Þessi gr., þ. e. 1. gr. frv., verður þá, ef till. mínar verða samþ., eins og l. voru frá 1965, þó með einni breytingu, sem komin er inn í 1., þ. e. a. s. það er felldur niður launaskattur af tekjum sjómanna. Ég hefði haft tilhneigingu til að bera líka fram brtt. við það, en ég geri það ekki, bæði vegna þess að ég tel, að hæstv. fjmrh. hafi ekki lofað neinum breytingum á því atriði, og svo, að þó að þarna sé um 25 millj. kr. skerðingu á tekjum Byggingarsjóðs að ræða eins og ég kom inn á í umr. í gær, þá læt ég það gott heita í trausti þess, að nú fari að koma einhverjar efndir á margítrekuðum loforðum ríkisstj. um tekjuöflun til Byggingarsjóðs. — Þetta var um 1. gr. frv.

Þá er brtt. mín við 2. gr. frv. um, að hún falli niður, því að þarna er tekið fram, að Byggingarsjóður ríkisins greiði til ríkissjóðs 1% af hluta sjóðsins af innheimtum launaskatti. Það er vegna þess, að það er gert í 1. gr. frv. bæði ráð fyrir launaskatti til Byggingarsjóðs og ríkissjóðs. Þetta ákvæði í 2. gr. á því ekki við. En í síðari brtt. mínum er ein brtt. mín um það, að 10 gr. l. um launaskatt frá 1965 hljóði svo:

„Byggingarsjóður ríkisins greiðir 1% af innheimtum launaskatti, samkv. l. þessum, til ríkissjóðs vegna kostnaðar af framkvæmd laganna:

Þetta er nákvæmlega eins og 10 gr. l. var 1965, þegar l. áttu einungis við 1% launaskatt til Byggingarsjóðs ríkisins.

Þessar breytingar, sem ég hef nú greint frá, fela það í sér, að ekki er gert ráð fyrir nema 1% launaskatti til Byggingarsjóðs, eins og l. um launaskatt frá 1965 kváðu á um. Þar sem í frv. er gert ráð fyrir, að launaskatturinn til ríkissjóðs eigi að gilda aðeins í eitt ár, er eðlilegra, að það ákvæði komi í ákvæði til bráðabirgða, og ég geri till. um, að það hljóði svo:

„Frá 1. jan. 1974 og til loka þess árs skal fjárhæð almenns launaskatts samkv. 1. gr. nema 2½% og 1½% renna í ríkissjóð:

Þetta ákvæði á ekki að gilda nema til eins árs, og því er eðlilegt, að það komi þarna án þess að raska meginmáli laganna.

Af þessu leiðir, svo sem ég sagði í upphafi, að þessar till. gera enga efnislega breytingu á því frv., sem hér liggur fyrir, nema þá að 1% launaskatturinn til Byggingarsjóðs ríkisins verður varanlegur, eins og upphaflega var gert ráð fyrir, þegar Byggingarsjóði ríkisins var fenginn þessi mikilvægasti tekjustofn sinn.

Ég vil nú leyfa mér að vona, að hæstv. fjmrh., sem ég tel, að sé mér sammála samkv, því, sem hann hefur áður sagt um þetta efni, styðji það, að þetta frv. verði leiðrétt á þennan hátt, þannig að það komist í framkvæmd, sem hann hefur áður lofað í þessu efni. En ég tel að þetta sé ekkert hégómamál gagnvart Byggingarsjóði ríkisins.

Ég sagði, að það væri aðeins ein brtt., sem ekki varðar þetta meginefni, sem ég hef gert grein fyrir. Það vildi svo til, að það hefur verið vakin sérstök athygli mín á einum vankanti á þessum l., sem er að finna í 2. mgr. 3. gr. l. frá 1965. 2. mgr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú vanrækir launagreiðandi lengur en einn mánuð skil á launaskatti samkv. 1. mgr. þessarar gr., og skal hann þá sæta viðurlögum og greiða til viðbótar skattinum álag, er nemur 25% af því, sem greiða bar.“

Mér hefur verið bent á, að það sé skoðun þeirra embættismanna skattayfirvalda, sem við þetta fást, að þetta sé meinlegt ákvæði, vegna þess að menn þurfa að greiða 25% álag, þó að kannske fyrir slysni muni einum degi, og þeir þurfi ekki að greiða meira, þótt það dragist a. m. k. ár, að þeir greiði skattinn, þarna þurfi að vera einhver sveigjanleiki í þessu, sem skattyfirvöldin geti svo notað og tekið mið af, hvað vanskilin hafa staðið lengi. Með tilliti til þessa legg ég til, að í staðinn fyrir „nemi 25%“ komi: nemi allt að 25%. Þá mætti setja nánari ákvæði um framkvæmdina í reglugerð. En þetta er óskylt hinu atriðinu, og ég tek fram, að hæstv. fjmrh. hefur engu lofað um þetta atriði og ég hef ekki rætt það við hann.