17.12.1973
Efri deild: 42. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1484 í B-deild Alþingistíðinda. (1342)

94. mál, lyfjaframleiðsla

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Ég gat því miður ekki verið viðstaddur 2. umr. hér í hv. þd., vegna þess að ég var fastur við æðimargar atkvæmagreiðslur í þeirri d., þar sem ég hef atkvæðisrétt.

Hv. þm. Magnús Jónsson bar hér fram 3 fsp. til mín. Í fyrsta lagi, hvort ekki væri rétt skilið, að ekki væri hugsað að breyta þeirri reglu, sem nú gilti um lyfjaframleiðslu. Þetta er alveg rétt skilið. Það er ekki ætlunin að breyta því neitt, það sé hægt að halda áfram lyfjaframleiðslu í einstökum apótekum, eins og verið hefur. Það stendur ekki til að gera neinar breytingar á því.

Í annan stað taldi hv. þm., að það fyrirkomulag, sem þarna væri gert ráð fyrir, að stofna sameiginlegt fyrirtæki, sem um er fjallað í II. kafla, væri dálítið óeðlilegt fyrirkomulag, og kannske hefði verið eðlilegra að hafa það form á, sem stundum hefur verið haft hér í þinginu, að stofna fyrst undirbúningsfélag, en byggja síðan endanlegt fyrirtæki á grundvelli þess. Um þetta er það að segja, að við höfum haft þann hátt á að stofna undirbúningsfélög, þegar um er að ræða framleiðslu, sem ekki hefur verið fyrir í landinu, og þá hefur verið kannað sérstaklega, hvort það væri skynsamlegt og fjárhagslega hagkvæmt að ráðast í slíka framleiðslu. Hins vegar í sambandi við lyfjaframleiðslu, þá er um nokkra framleiðslu að ræða í landinu, bæði hjá Lyfjaverslun ríkisins og hjá einstökum apótekum, og þess vegna held ég, að sá háttur, sem á er hafður í þessu frv., sé fullkomlega eðlilegur, og um þetta hafa farið fram viðræður, eins og mönnum er kunnugt um.

Hvað viðvíkur þriðju spurningunni um fjármögnun, þá get ég raunar ekki svarað henni. Það er ætlunin, ef þetta frv. verður samþ., að fara þarna í alvarlegar viðræður við einkaaðila um, hvort áhugi sé á því að koma á laggirnar slíku sameiginlegu fyrirtæki, og það verður náttúrlega á grundvelli þeirra viðræðna að ráðast, hvernig hlutafé verður háttað, og önnur fyrirkomulagsatriði. Ég veit ekki annað en að um þetta sé samkomulag og það sé mat allra, sem að þessum málum vinna, að það væri mjög nauðsynlegt og hagkvæmt fyrir Íslendinga að koma upp einu eins öflugu fyrirtæki á þessu sviði og hægt er. Markaðurinn hér innanlands er, sem kunnugt er, ákaflega takmarkaður, og við eigum þarna í samkeppni við erlenda aðila, sem búa yfir mjög háþróuðum iðnaði á þessu sviði, enda hefur reynslan því miður verið sú að undanförnu, að íslensk lyfjaframleiðsla hefur sífellt farið minnkandi í baráttunni við innflutt lyf. Ég held, að það sé ástæða til að reyna að gera ráðstafanir til þess, að þeirri þróun linni og jafnvel að dæminu verði snúið við.

Í því sambandi, vil ég minna á, að mjög hæfir vísindamenn hafa látið uppi þá skoðun nú að undanförnu, að við höfum tök á því að hefja lyfjaframleiðslu til útflutnings. Einn af hæfustu apótekurum landsins hefur bent á fúkkalyf í því sambandi. Og í annan stað hefur verið bent á það, að hægt væri að vinna lyfjaefni úr fiskúrgangi. Ef sú hugmynd reynist framkvæmanleg, höfum við þar vissulega ærið hráefni og kynnum að hafa tök á því að búa til ákaflega verðmæta vöru úr efnum, sem nú er hreinlega fleygt.

Annars kemur mér dálítið á óvart, hvað nái. hv. minni hl. er ákaflega neikvætt. Ég hélt satt að segja, að um þetta mál væri ekki raunverulegur ágreiningur. Það er vitnað í lok nál. í málefnasamning ríkisstj., og ég er að sjálfsögðu feginn því, að menn fylgi þeirri áskorun hæstv. forsrh. að lesa þann ágæta samning að morgni, á kvöldin og um miðjan dag. (Gripið fram í) En hitt er mesti misskilningur, sem þar segir, að þetta frv. sé ekki í neinum tengslum við það fyrirheit í stjórnarsáttmálanum að endurskipuleggja lyfjaverslunina með því að tengja hana við heilbrigðisþjónustuna og setja hana undir félagslega stjórn. Að sjálfsögðu er þetta frv. liður í heildarendurskoðun lyfsölulaganna, en meginþættir þeirra eru fjórir: innflutningur og heildsala, framleiðsla, smásala og rekstur lyfjabúða og almenn ákvæði um lyf. Að lyfjaframleiðsla sé ekki hluti af lyfjaverslun, er svo fráleitt sjónarmiðs að ekki þarf frekar um það að tala, held ég. Ég læt nægja að benda á þann ríka þátt, sem lyfjaframleiðsla hefur fram að þessu verið í starfsemi flestra stærstu lyfjabúðanna hér. En eins og ég sagði áðan, hefur framleiðslutækni fleygt svo fram og kröfur um gæði og sönnun gæðanna eru svo ört vaxandi, að ef ekki verður haldið vel á málum á vettvangi lyfjaframleiðslu, eru allar horfur á því, að innan tíðar verði svo til einungis á markaðnum hér lyf, sem framleidd eru erlendis, vegna þess að framleiðsluaðstaðan hér er svo léleg, hún er svo frumstæð í samanburði við það, sem gerist annars staðar, að við erum hreinlega ekki samkeppnishæfir.

Í nál. er einnig minnst á öryggissjónarmið og bent á, að það sé öryggissjónarmið, sem mæli gegn algerri miðskipan framleiðslu í einu fyrirtæki. Það er alveg rétt, að það er nauðsynlegt að undirstrika öryggissjónarmið, og það má líta á þau sem tvenns konar: Í fyrsta lagi öryggi um birgðir, þ. e. a. s. að ævinlega séu í landinu nægar birgðir af lyfjum, sem við þurfum á að halda, og að það sé tryggt með einhvers konar yfirstjórn, að slíkar birgðir séu tiltækar, og í öðru lagi er öryggi um gæðin. Gæðakröfur krefjast kostnaðarsamrar rannsóknartækni, en sá kostnaður verður að sjálfsögðu hlutfallslega minni, eftir því sem hver framleiðslulota er stærri. Um öryggi í framleiðslu og birgðahaldi er það að segja, að engum stendur það nær en ríkisvaldinu að sjá um, að slíkt sé tryggt. Lyfjaframleiðslu lyfsala og ríkisins má auðveldlega skipuleggja með tilliti til ákjósanlegasta öryggis. Slíkt má t. d. gera með því að geyma ávallt hluta birgða fjarri framleiðslustað og jafnframt má gera ráð fyrir því, að framleiðslan verði ekki öll undir sama þaki. Það hefur aldrei staðið til að hér yrði endilega um að ræða eina byggingu, þar sem væru framleidd öll lyf, heldur gætu fyrirtæki, sem nú eru fyrir, haft með sér þá samvinnu, sem gert er ráð fyrir, þó að þau starfi áfram hvert á sínum stað. Þarna mæla hagkvæmnissjónarmið ekki í móti, þar eð framleiðsla einstakra lyfjaforma er vel aðgreinanleg. En á þetta atriði í sambandi við öryggi yrði að sjálfsögðu að leggja megináherslu af hálfu ríkisins.

Eins og ég sagði áðan, verða engar hömlur settar á starfsemi annarra lyfjaframleiðenda aðrar en sjálfsagðar faglegar kröfur. Enda þótt þróunin hafi verið í þá átt, að lyfjabúðir hafi dregið úr hlutverki sínu sem lyfjaframleiðendur og framleiðendum fækki þannig, er engan veginn hægt að fullyrða, að þar með sé komin upp einhver einokun. Réttur þeirra, sem uppfylla ákveðin fagleg skilyrði, er ótvíræður, og mér finnst raunar, að í nál. minni hl. komi fram býsna einkennilegar andstæður í rökstuðningi. Þar er í fyrsta lagi talað um, að þetta sameiginlega fyrirtæki, sem rætt er um, muni verða svo öflugt, að það muni byggja út smærri framleiðslu, sem nú fer fram í apótekum, en í annan stað, er því haldið fram, að lyfjaverð kunni að hækka af þessum sökum, að það kunni að verða dýrara að framleiða lyf í þessu fyrirtæki, en í hinum smærri. Mér sýnist, að þessi sjónarmið stangist algerlega á. Ef þetta sameiginlega fyrirtæki framleiðir lyf á dýrari hátt en hægt er að gera af öðrum, þá náttúrlega blómgast framleiðslan hjá þeim einkaaðilum, sem kynnu að vilja keppa við þetta fyrirtæki.

Ég vil taka það sérstaklega fram hér, að það eru einmitt lyfsalarnir sjálfir, sem komu á framfæri þessari hugmynd, að ríkið og einkaaðilar tækju upp samvinnu til að stuðla að lyfjaframleiðslu. Apótekarafélag Íslands bar fram þegar árið 1967 till. um stofnun slíkrar sameiginlegrar lyfjaverksmiðju, en þá var raunar gert ráð fyrir því, að einkaaðilar ættu þar býsna stóran meiri hluta. En þessi till. var byggð á þeirri skoðun Apótekarafélagsins, að framleiðsla lyfjabúða væri þjóðhagslega óhagkvæm. Því miður varð ekki frekar úr framvindu þessa máls þá, enda virtist áhugi þáverandi stjórnarvalda á málinu tiltölulega lítill, eins og hv. þm. Magnús Jónsson minntist á áðan.

Þessi hugmynd lyfsalanna frá 1967 var tekin upp í sambandi við undirbúning þessa frv., og það hefur ekki farið á milli mála, að eignarhlutur hafi verið eina ágreiningsatriðið, sem máli skiptir. Jöfn eignarhlutföll var niðurstaða, og hlutur ríkisins getur því aðeins orðið stærri, að félag lyfsala og lyfjafræðinga samþykki það.

Mér virðist það hafa farið fram hjá sumum hv. þm. hér í d., að Lyfjafræðingafélag Íslands hefur í umsögn, sem send var Nd. í fyrra, lýst mjög eindregnum stuðningi við þetta frv. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Lyfjafræðingafélag Íslands telur brýna nauðsyn á því, að miðhverfingu lyfjaframleiðslunnar í landinu verði komið á, sem allra fyrst. Slík miðhverfing hlýtur að auka bæði fjölbreytni og gæði íslenskrar lyfjagerðar og geta orðið henni í alla staði mikil lyftistöng. Með tilliti til þess, að ekki virðast horfur á því, að íslenskir lyfsalar og lyfjafræðingar beri gæfu til þess að sameinast einir og óstuddir um miðhverfingu lyfjaframleiðslunnar í landinu, lýsir Lyfjafræðingafélag Íslands yfir eindregnum stuðningi sínum við framkomið frv. til l. um lyfjaframleiðslu.“

Apótekarafélag Íslands sendi líka umsögn frá sér og þar var um sömu jákvæðu afstöðuna að ræða. Þar var komist svo að orði, með leyfi hæstv. forseta: „Í grg. frv. er sú skoðun Apótekarafélagsins réttilega tilfærð, að stefna beri að uppbyggingu öflugs lyfjaframleiðslufyrirtækis.“ Hins vegar setti Apótekarafélagið viss skilyrði, sem komið hefur verið til móts við í frv., eins og það er lagt fram í dag. En í ályktun Apótekarafélagsins í fyrra, var einnig komist svo að orði, þegar búið var að ræða um þessi skilyrði: „En í þeirri von, að vel takist til með samstarfi ríkisins og lyfjaþjónustustéttanna og það opinbera láti ekki sitja við orðin tóm í frv., en greiði fyrir nauðsynlegri fjáröflun, þegar til stofnunar og rekstrar fyrirtækisins kemur, getur Apótekarafélag Íslands veitt frv. stuðning sinn, ef gerðar verða á því þær efnisbreytingar, sem fram koma í eftirfarandi aths.“

Þarna er sem sé um að ræða stuðning allra þeirra aðila, sem að þessu máli vinna. Og ég veit satt að segja ekki, hverra hagsmuna þeir hv. þm. eru að gæta, sem geta ekki fallist á þessa meginhugmynd, sem er ekki aðeins bugmynd ríkisstj., heldur einnig apótekara og lyfjafræðinga. Ég sé ekki betur en að þeir einu, sem geti beðið hnekki af því, ef þessi hugmynd nær fram að ganga, séu erlendir lyfjaframleiðendur og þá umboðsmenn þeirra, sem hagnast á því að flytja slík lyf inn. Þjóðhagslega séð, tel ég, að hér sé um að ræða verulegt stórmál, mjög nauðsynlegt mál, og ég á erfitt með að skilja, hvernig hægt er að koma að ágreiningi í sambandi við mál eins op þetta.