17.12.1973
Neðri deild: 43. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1500 í B-deild Alþingistíðinda. (1360)

145. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með þetta frv., sem hér er til umr. og er því samþykkur. Hér er orðið við tilmælum stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, sem áður hefur bent á það misræmi, sem hefur verið á fyrirframinnheimtunni, að sveitarfélög hafa ekki haft heimild til að innheimta nema 50% af útsvörum fyrra árs, en með þessu frv. er komið samræmi á innheimtu skatta til ríkisins og útsvara til sveitarfélaganna.

Ég vil einnig lýsa ánægju minni með þá breytingu, sem gerð hefur verið við meðferð málsins í Ed., þ. e. a. s. að afnuminn er sá mismunur, sem var á heimildum sveitarfélaga til að leggja á aðstöðugjöld. Ég ætla ekki að þessu sinni að fara að hefja upp neinar umr. hér um aðstöðugjöldin. Ég er ekki meðmæltur þeim, eins og þau eru, en ég tel miklu máli skipta, að þetta frv. fari í gegn eins og það er nú.

Það er ein spurning, sem mig langar að bera fram við hæstv. félmrh. Það er varðandi 3. gr., eins og hún er komin frá Ed., um hækkun á hinu nýja fasteignamati. Þetta þýðir að sjálfsögðu hækkaða fasteignaskatta. En mig langar að spyrja hæstv. ráðh., hvort þetta þýði einnig, að þau þjónustugjöld og önnur gjöld,sem eru miðuð við fasteignamat, eins og t. d. vatnsskattur og sums staðar lóðarleiga, hækki þá líka eins og fasteignaskatturinn.