17.12.1973
Neðri deild: 43. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (1364)

69. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er samið af sérstakri n., sem til þess var skipuð að endurskoða þau lög, sem giltu um löndun á loðnu til bræðslu á síðustu vetrarvertíð. Þeir aðilar voru kvaddir til í þessa n., sem höfðu mest með framkvæmd þessara mála að gera og eiga hér mestra hagsmuna að gæta, þ. e. a. s. fulltrúar bæði seljenda og kaupenda að þessum vörum. Þeir hafa orðið sammála um þá endurskoðun á gildandi l., sem felst í þessu frv. Hér er haldið í meginatriðum við það skipulag, sem í gildi hefur verið, en minni háttar breytingar gerðar á, þannig að nokkur atriði eru gerð skýrari en áður var til þess að taka þar af öll tvímæli. En ég hygg, að allir viðurkenni, að það skipulag, sem tekið var upp á síðustu vertíð í þessum efnum, hafi reynst mjög vel og það sé alveg nauðsynlegt, að þetta sé skipulagt á þennan hátt. Það er þó ein allveruleg breyting, sem gerð var á frv. frá gildandi l., þar sem gert er ráð fyrir að fella niður ákvæði úr gildandi l., sem hljóðaði á þessa leið:

„Eigi er heimilt að stöðva löndun í verksmiðju, meðan móttökuskilyrði eru fyrir hendi“ Þetta sjónarmið var ríkjandi, þegar fyrstu l. um þetta efni voru sett, að loðnulöndunarnefnd skyldi þó aldrei hafa ,leyfi til þess að stöðva löndun í verksmiðju, ef það væri ljóst, að þar væru möguleikar með eðlilegum hætti til þess að taka við meira magni. Að öðru leyti hafði n. talsvert vald til þess að dreifa flotanum á hinar ýmsu löndunarhafnir, og meginreglan er sú enn, eins og var á síðustu vetrarvertíð, að afgreiða skuli skipin í þeirri röð, sem þau koma í löndunarhöfn. Nú er hins vegar gert ráð fyrir að breyta þessu þannig, að löndunarnefndin hafi einnig heimild til að stöðva þar löndun um stuttan tíma, þar sem annars er pláss til að taka við meira hráefni, í því skyni, að hún nái betra valdi á því að dreifa flotanum en áður og koma fleiri verksmiðjum strax af stað til vinnslunnar. Það er ljóst, að skipstjórnarmenn leggja allmikla áherslu á það, að þessi heimild verði fyrir hendi og hægt sé að nota hana. Hins vegar hafa fulltrúar verksmiðjueigenda að sjálfsögðu verið meira hikandi, en þeir hafa það fallist á, að þessi breyting yrði gerð. Þetta er í rauninni að mínum dómi mesta efnisbreytingin.

Hv. sjútvn. Ed. hefur fjallað um frv. og alveg sérstaklega um þetta atriði, eins og hún var beðin um, og varð niðurstaða hennar að hreyfa ekki við þessu, eins og það kemur fram í þessu frv., eða m. ö. o. að reikna með því, að þessi breyting verði á gerð frá gildandi lögum. Það er nauðsynlegt að fá þetta frv. afgr. nú, helst fyrir jólahlé, vegna þess að gildandi lög renna út um áramót, og hér þurfa helst af öllu að liggja fyrir skýr lagaákvæði, strax og komandi loðnuvertíð hefst.

Ég sé ekki þörf á því að ræða málið frekar við þessa umr., en legg til, herra forseti, að að lokinni umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. til fyrirgreiðslu, og ég vænti þess, að hún afgreiði málið fljótlega.