17.12.1973
Neðri deild: 43. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (1375)

86. mál, rannsóknarnefnd vegna landhelgisgæslu

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vil nú ekki teygja umr. um þessa till. á langinn, svo oft sem búið er að taka hana á dagskrá og taka hana út aftur. En það vildi ég segja, að það eitt held ég, að væri til vansæmdar fyrir Alþingi Íslendinga, ef það viki því frá sér að leita sannleikans í þessu máli, sem hér er um að ræða, því að um það og það eitt er till. Till. byggist á ákvæði í stjórnarskrá ríkisins, og orðalag stjórnarskrárinnar er viðhaft um það frjálsræði, sem n, skuli hafa til þess að rannsaka mál, til þess að komast að því sanna í því ágreiningsmáli sem þarna er um að ræða. Það eitt er tilefnið, eins og segir í till. sjálfri, að upp kom ágreiningur um það, hvernig hefði verið háttað framkvæmd landhelgisgæslu á tilteknum dögum, sem í till. segir, og vitnisburðir vestfirskra sjómanna voru vefengdir, rengdir. Því var haldið fram, að þeir væru ósannindamenn að því, sem þeir hefðu sagt, og við flm. þessarar till, kærðum okkur ekkert um, að vestfirskir sjómenn lægju undir því, að þeir væru að ljúga um þetta mál, og notuðum okkur því ákvæði stjórnarskrárinnar um það, að málið skyldi kannað til botns og það sanna leitt í ljós, hver sem sekur væri.

Það er algerlega rangt hjá þeim hv. þm., sem hafa talið, að við vissum ekki, flm., að hverjum málinu sé stefnt. Því er stefnt að þeim, sem sekir eru, ef einhverjir eru sekir um þetta. Því var haldið fram, að landhelgisgæslunni hefði verið mjög slælega framfylgt þessa ákveðnu daga, sem tilgreindir voru, og það voru vitnisburðir vestfirskra sjómanna. Þeir voru sagðir ljúga þessu, og undir því vildum við ekki láta þá liggja, og við höfðum aðstöðu til þess á Alþ. að krefjast þess, að rannsókn yrði sett í gang, svo að það kæmi í ljós, hvort þeir væru ósannindamenu eða ekki. Þeir, sem eru að reyna að tefja þetta mál, vilja ekki láta hið sanna koma í ljós, og það væri til skammar fyrir Alþingi Íslendinga, ef þeir kæmust fram með það.

Menn eru að hneykslast á því og þ. á m. furðufyrirbærið hv. 3. uppbótarþm. Reykv., að ég hafi sagt, að ef málið upplýstist til fulls í þn., þá þyrfti það ekki að fara lengra. Málið er borið fram til þess, að það upplýsist til fulls, á hvaða stigi málsins sem það gerist. Ef það upplýsist til fulls, hefur till. ekki lengur þýðingu. Ef það upplýsist fyrir þn., er málinu þar með lokið. Ég vil spyrja þetta hv. furðufyrirbæri þingsins: Hvers vegna ætti málið að ganga lengra, ef það hefðu fengist fullar upplýsingar í n.? Og hann svari. Hann má svara strax, ef hann getur. (BGuðn: Hvernig hefði nú verið að athuga skýrslu forsrh.?) Það lágu engar skýrslur fyrir frá forsrh. eða dómsmrh., þegar við bárum fram till. Það er ekki til neins að koma með svona þvætting inn í þetta mál, það mætti reka það öfugt ofan í fyrirbærið á sömu stundu.

Hann slær því föstu — eða reyndar á ég nú að segja: það slær því föstu — (Gripið fram í: Það á að segja hv. þm.) — ég má nota ábendingarfornafnið það, án þess að setja hv. framan við það, vænti ég, — að í þessari till. okkar felist vantraust á ríkisstj. (BGuðn: Ekkert annað. Ekkert annað) Það þýðir það, að hv. þm., undarlega fyrirbærið, sem ég er að tala um, virðist slá því föstu, að hér sé um vantraust á ríkisstj. að ræða, (Gripið fram í.) Þá ætla ég að slá því föstu, að hv. fyrirbæri greiddi till. atkv., sem er í andstöðu við ríkisstj. (BGuðn: Ég fer eftir málefnum) Tilvera hans er hér til þess að leggja ríkisstj. að velli. En samt sem áður kemst hann að þeirri niðurstöðu, að hann verði á móti, hann er líklega byrjaður núna þessa stundina að styðja ríkisstj. (BGuðn: Ert þú að styðja ríkisstj. með svona till.?) Ég vænti þess, að ríkisstj. standist það, að hið sanna komi í ljós í þessu máli.

Ég á að vera að dómfella dómsmrh. með þessari till. Það er slík fjarstæða, að það er ekki svaravert. Ég er margbúinn að taka það fram, að ég vil, að sannleikurinn komi í ljós í þessu máli, gegn hverjum sem hann beinist. Og svo var sagt hérna rétt áðan: Það hefði mátt ætla, að ég hefði verið flm, þessarar till. — Ekki var hún þó verri en það. En atkv. gat hann ekki greitt henni, þótt hún væri þess eðlis, að það mætti ætla, að hann væri flm. Allt er þetta á eina bókina lært, eitt rekur sig á annars horn.

Þessi till. er ekki sérstök í sögu þingsins. Það hefur oft og iðulega komið fyrir, að Alþ. hefur leitað sannleikans í málum, og það eitt er að gerast hér. Ef það væri sérstakt í sögu Alþ., þá væri það furðulegt og það bæri að harma. Nei, það er til sóma fyrir Alþ. að leita sannleikans í hvaða máli sem er. Það er til smánar fyrir sérhvern þm. að beita sér gegn því, að sannleikurinn komi í ljós í máli, þessu máli sem öðrum. Þess vegna eru allar tilraunir þm. til þess að tefja fyrir þessari till. og drepa málinu á dreif með snakki til skammar. Þingleg meðferð á þessari till. sem fyrst og rannsókn sem fyrst, svo að sannleikurinn komi sem fyrst í ljós, það er það eina, sem er Alþ. til sóma.