17.12.1973
Neðri deild: 43. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1511 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

86. mál, rannsóknarnefnd vegna landhelgisgæslu

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki gert ráð fyrir að tala meir í þessu máli, en það var vikið hér aðeins að ummælum, sem ég hafði átt að hafa um daginn, — (KP: Aðeins hærra.) — ég er nú ekki eins raddsterkur og þú vinur minn, — um það, að ég álíti, að hæstv. forsrh. hefði ekki getað sagt annað en það, sem hann sagði. Það er alveg rétt. Ég álít, að það hefði hvorki verið viturlegt né leyfilegt fyrir hann að tilkynna, áður en hann fór að undirbúa samningana, um það bil sem hann var að fara til Bretlands, að landhelgin yrði ekki varin. Það hefði verið eins og hver annar bjánaskapur. Auðvitað hefðu þeir þá allir ruðst inn. Þegar hæstv. ráðh. var að þessu spurður, gat hann ekki svarað öðru en þessu, að það yrði óbreytt. (Gripið fram í: Var hún ekki varin?) Hún. Það gefur auga leið, það var klippt minna, við heyrðum ekkert um, að það væri klippt aftan úr togurum. Það þarf engan speking til að sjá, hvers vegna var hægt á vörslunni á þann hátt. En hann gat vitanlega ekki verið að tilkynna: Landhelgin verður ekkert varin. — Þetta ætti hver heilvita maður að skilja, að það var verið að reyna að stilla gæslunni í hóf, til þess að Bretar kæmu ekki með herskipin aftur inn í landhelgina og gerðu ómögulegt að semja. Það vita allir, að forsrh. vildi reyna samninga og vildi semja upp á skapleg kjör. Þetta ætti hver maður með fullu viti að skilja. En hitt er svo annað, að það er eðlilegt, að menn séu misgreindir, og bjáni getur aldrei orðið að spekingi.