17.12.1973
Neðri deild: 44. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1512 í B-deild Alþingistíðinda. (1383)

101. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Mig langar til að segja fáein orð í sambandi við þetta mál, sem ég tel mjög athyglisvert, þar sem um er að ræða að reisa nýja verksmiðju og þar sem að hráefnið er áður ónotað íslenskt hráefni. Mér finnst þetta athyglisverð nýlunda og tel helstu kostina vera þá í fyrsta lagi, að notað er alíslenskt hráefni, sem annars yrði ekki notað til neins eða hefur ekki verið notað til neins, í öðru lagi, að hér er verið að nýta jarðhita, sem tæpast nýtist til annarra nota í bili a. m. k. Hér verður byggður upp byggðarkjarni, sem er mjög þýðingarmikið fyrir viðkomandi hérað. Af fyrirtækinu verða þó nokkrar gjaldeyristekjur, hér skapast atvinna fyrir talsverðan hóp manna, og má segja, að hér sé um að ræða þátt í byggðajafnvægi, dreifingu atvinnufyrirtækja um landið. Hins vegar finnst mér vera neikvæðar hliðar á þessu máli einnig, og má þar fyrst nefna, að auk þess stofnkostnaðar, sem fylgir sjálfri verksmiðjunni, fylgir umtalsverður kostnaður við boranir, vegalagningar, raflínu og hafnargerðir. Það virðist ekki af skýrslum vera fullkomið öryggi fyrir öflun hráefnis einkum í framtíðinni, og eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, virðist óöryggi ríkja um afkomu fyrirtækisins, enda þótt það sé engan veginn talið vonlaust. Í aths. frá hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins segir svo í niðurstöðum með leyfi hæstv. forseta:

„Hér að framan hefur verið drepið lauslega á nokkur atriði í sambandi við hugsanlega þangvinnslu við Breiðafjörð. Mörg fleiri mætti vafalaust nefna, sem athugunar þyrftu við, en þessi virðast einna mikilvægust frá viðskiptalegu sjónarmiði. Sé þess talinn nokkur kostur virðist rétt að ráðast ekki í framkvæmdir, fyrr en frekari vísindalegar og verklegar tilraunir, einkum varðandi þangtekjuna og efnisgæði afurðanna, hafa farið fram. Sérstaklega mikilvægt virðist að reyna sláttutæknina og flutningakerfið fyrir blautt þang við raunverulegar aðstæður, áður en lengra er baldið. Þá virðist aðkallandi að reyna að fá skýrar línur um hugsanlegan viðskiptasamning við AIL, einkum að því er varðar verðlagsviðmiðanir, og hvort tilboð AIL sé algerlega bundið afhendingu strax 1974. Þá virðist nauðsynlegi að tryggja sölu á því magni mjöls, sem AIL hefur ekki boðist til þess að kaupa.“

Þetta er frá því í júní s. l., og er mér tjáð, að ýmiss konar breytingar hafi síðan orðið á samningunum, bæði að því er varðar verð og magn, og það allt til betri vegar. Ég lít á þetta álit hagrannsóknardeildarinnar sem eins konar varasemi. En vegna þess að það virðist alveg óhjákvæmilegt og bráðnauðsynlegt, að hægt sé að byggja verksmiðjuna á árinu 1974, vil ég fyrir mitt leyti ekki bregða fæti þar fyrir. Það hefði kannske verið æskilegt að gera nánari rannsóknir, eins og hér hefur verið rætt um, en ég tel þó vera réttlætanlegt að ráðast í fyrirtækið.

En mig langar til að ræða dálítið um iðnaðarmálin almennt í sambandi við þetta fyrirtæki, því að ég tók eftir því, að þegar þessi skýrsla var gerð, var pundið reikna á 227 kr., en nú er það, eins og við vitum, 195 kr. og þar er strax orðin yfir 10% lækkun. Auk þess vitum við, hver verðlagsþróunin er í landinu að því er varðar vinnulaun o. fl. Mér er kunnugt um fyrirtæki, Kísiliðjuna við Mývatn, sem er að mörgu leyti byggt upp á svipaðan hátt og þetta. Þar verður væntanlega á þessu ári ofurlítill hagnaður, kannske 3–5 millj. kr., eftir að afskrifaðar hafa verið 49 millj., en fyrirsjáanlegt er, að á næsta ári, ef ekki koma til verulegar verðhækkanir á afurðum, verður umtalsverður halli á því fyrirtæki, 20–30 millj. kr. áætlað. En svo er það bara með iðnaðinn eins og hann leggur sig og þá alveg sérstaklega útflutningsiðnaðinn, að þeir erfiðleikar, sem við er að eiga í því efni, eru svo stórvægilegir, að ég vil ekki trúa öðru en að stjórnvöld taki verulega föstum tökum á þessum málum. Ég hef séð orðsendingu, sem Félag ísl. iðnrekenda hefur sent hæstv. iðnrh. 4. nóv., og þar eru tilteknar till., sem ég ætla að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Að felldur verði niður söluskattur á öllum aðföngum, þar með töldum fjárfestingarvörum framleiðsluiðnaðarins.

2. Að felldur verði niður launaskattur á framleiðsluiðnaði til samræmis við sjávarútveg og landbúnað.

3. Að þeim iðnfyrirtækjum, sem flytja út verulegan hluta framleiðslu sinnar, verði veittar bætur vegna óhagstæðrar verðþróunar, er þau hafa orðið fyrir frá gengislækkuninni í des. 1972.“

Sá gífurlegi munur, sem hefur orðið af því, að krónuverð fyrir dollar var 97 kr., en er nú 83, gefur alveg glögglega í skyn, hvað þessir erfiðleikar eru miklir, og þó að segja megi, að samkeppnisiðnaðurinn sleppi eitthvað betur en það, sem við höfum kallað útflutningsiðnað, þá auðvitað hnígur þetta í sömu áttina með tiltölulega miklum hraða. Iðnaður almennt í landinu á nú í svo stórkostlegum erfiðleikum, að ég vil ekki trúa öðru en gripið verði til einhverra ráða til þess að aðstoða þennan atvinnuveg, eins og sakir standa í dag, svo að ég tali nú ekki um þegar við bætast væntanlegar launahækkanir og svo til daglegar hráefnahækkanir.

Það má kannske segja, að þetta sé óskylt því frv., sem hér er um að ræða, en þó ekki, því að þessi verksmiðja hlýtur að verða fyrir erfiðleikum eins og aðrir, þegar þar að kemur, nema eitthvað alvarlegt sé í málinu gert. Þeir aðilar, sem eru að fást við iðnað nú, ég vil segja, hvort sem er til útflutnings eða fyrir innlendan markað, eiga í slíkum erfiðleikum, að það er fyrirsjáanlegt, að iðnfyrirtækjum verður að loka, ef ekki verða einhverjar ráðstafanir gerðar. Við heyrðum það hér í þessum sal frá einum hv. þm., sem hefur með niðurlagningariðnað að gera, að þar er ekki unn annað eð ræða en hætta þeim iðnaði, nema einhverjar sérstakar ráðstafanir komi til. Ég hef tekið þetta mál upp hér til að minna á það, en vil hins vegar lýsa yfir fylgi mínu við þetta frv. og styðja það, að því verði hraðað í gegnum hv. deild.