18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (1394)

388. mál, störf stjórnarskrárnefndar

Fyrirspyrjandi (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. forsrh. um störf stjórnarskrárnefndar. Fsp. er í þrem liðum:

„1. Hvað liður störfum stjórnarskrárnefndar?

2. Hvað hefur n. haldið marga fundi, og hvenær voru þeir haldnir?

3. Eru líkur á, að n. ljúki störfum fyrir þann tíma, sem ætlað er að minnst sé 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar á næsta ári?“

Þessi fsp. skýrir sig sjálf, og þarf ekki að hafa um hana löng ræðuhöld. Það hefur lengi verið talað um nýja stjórnarskrá, eiginlega allt frá stofnun lýðveldisins, og þá talið af sumum, að sú stjórnarskrá, sem við búum við og höfum búið við síðan, væri óhafandi. Þó að ég telji, að það hafi verið tekið of mikið upp í sig þá, finnst mörgum hafa gengið mjög seint allan þennan tíma með þessa tillögugerð, og með því að ný n. var skipuð fyrir nokkrum tíma, þá leikur bæði mér og mörgum öðrum forvitni á að heyra, hvað gengur með störf hennar og hvers sé að vænta.