18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (1395)

388. mál, störf stjórnarskrárnefndar

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Samkv. þál., sem samþykkt var á Alþ. 18. maí 1972, um endurskoðun stjórnarskrárinnar, kvaddi forsrh. n. saman til 1. fundar 12. sept. 1972. Á þeim fundi var Hannibal Valdimarsson, þáv. félmrh., kjörinn formaður n., Gunnar Thoroddsen alþm. varaformaður og n. ráðinn ritari, Guðmundur Benediktsson ráðuneytisstjóri. Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef fengið frá ritara n., var þegar hafin viðtæk gagnasöfnun innanlands og utan, og stendur hún enn yfir. 2. fundur n. var haldinn 15. ágúst s. l., 3. fundurinn 27. ágúst s. l. og hinn 4. 10. sept. s. l.

Varðandi spurninguna um það, hvenær líklegt sé, að n. ljúki störfum, er því til að svara, að þál. setur n. engin tímatakmörk um það, hvenær störfum skuli lokið. Það er því á valdi n., sem er þingkjörin og starfar alveg sjálfstætt, án nokkurra fyrirmæla af ríkisstj. hálfu, hvenær starfinu verður lokið.

Frekari upplýsingar um störf n. get ég ekki í té látið á þessu stigi, enda var mér samkv. áðurnefndri þál. ekki ætlað annað hlutverk en að kalla n. saman til fyrsta fundar.