18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1535 í B-deild Alþingistíðinda. (1397)

388. mál, störf stjórnarskrárnefndar

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég tel að þessi fsp. hafi verið mjög tímabær, því að hér er um það að ræða að endurskoða sjálfa stjórnarskrána, sem hefur verið mjög lengi á dagskrá, jafnvel áratugum saman. Og það virðist þannig, að 4 fundir hafi verið haldnir í þessari hv. n., stjórnarskrárnefnd, frá þeim tíma, sem hún var kjörin, 18. maí 1972. Ég verð að segja, að mér finnst þetta mjög ámælisvert. Það er sagt, að það sé verið að safna gögnum. Það er hægt að safna gögnum fram til 1980, það er hægt að draga björg í bú, ef svo má segja. En þetta er dæmigert um það, hversu allt er svifaseint, erfitt að gera breyt. í þjóðfélaginu vegna slælegra vinnubragða. Ég vil bara segja, að það er óverjandi, ef þessi svokallaða stjórnarskrárnefnd á að sitja yfir þessu svo lengi sem aldur einstakra þm. leyfir.