18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1537 í B-deild Alþingistíðinda. (1401)

392. mál, tafir á lagningu rafmagns á sveitabæi

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, enda ræðutíminn takmarkaður.

Vorið 1971 lá fyrir tilbúin rafvæðingaráætlun til þess að ljúka sveitarafvæðingunni á 4 árum. Var þessi áætlun nákvæm og ítarleg og virtist vera þannig úr garði gerð, að unnt væri að standa við hana. Þegar núv. ríkisstj. kom til valda, þótti henni þetta of langur tími og gaf út tilkynningu um, að rafvæðingunni skyldi lokið á þremur árum. Það hefur verið unnið að sveitarafvæðingu með eðlilegum hætti í 2½ ár, síðan núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum. En það var auðséð á árinu 1971, að það hlyti að taka 4 ár að ljúka rafvæðingunni, ekki aðeins vegna þess, að oft vill standa á afgreiðslu efnis: spenna, víra og staura, heldur ekki síður vegna þess, að það er takmarkað vinnuafl sem Rafmagnsveitur ríkisins ráða yfir til þess að vinna að línulögn og öðrum framkvæmdum. Þetta geta ekki gert nema tiltölulega vel þjálfaðir menn, og nú fyrir stuttu var á orkuráðsfundi farið yfir þessar áætlanir og þær framkvæmdir, sem eftir er að vinna, til þess að ljúka áætluninni, og er sýnilegt, að þeim getur ekki orðið lokið fyrr en á árinu 1975. M. ö. o.: þetta verður í framkvæmd fjögurra ára áætlun, eins og ákveðið var af fyrrv. ríkisstj. En hæstv. núv. ríkisstj. þurfti í þessu máli eins og mörgum öðrum að gefa út loforð, sem hún getur ekki staðið við.