18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1541 í B-deild Alþingistíðinda. (1407)

136. mál, grænfóðurverksmiðjur

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Stutt aths. — Það er rétt, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að olía er ekki mjög stór hluti af kostnaði við slíkan rekstur sem hér um ræðir, grasþurrkun. En ég hygg þó, að sagan sé þar ekki öll sögð. Bæði er það svo, að olíuverð fer ákaflega hækkandi og þessi hluti verður að öllum líkindum stærri, og jafnframt hafa athuganir sýnt, að fóðurgildi verður betra með þurrkun grass við lægra hitastig. Af þessum ástæðum tveimur hafa verið gerðar nokkrar athuganir á grasþurrkun og slíkri fóðurframleiðslu við jarðhita. Þær athuganir sýndu, að kostnaður við tækin varð æðimiklu hærri, þau verða stærri og viðameiri, og því kostnaðarmeiri. En ég er þeirrar skoðunar, að þetta beri að endurskoða með tilliti til breyttra aðstæðna og hækkandi olíuverðs. Þessi endurskoðun er þegar raunar hafin. Baldur Líndal verkfræðingur er með hana í athugun og hefur lofað að skila skýrslu í jan. eða febr. Mér sýnist því, að þetta mál allt ætti að skoða í ljósi þeirra upplýsinga, sem þar koma fram.