18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1545 í B-deild Alþingistíðinda. (1411)

393. mál, vextir og þóknun lánastofnana

Fyrirspyrjandi (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka svörin. Hæstv. bankamrh. talaði ekkert um, og var náttúrlega ekki skylt samkv. þessum fsp., en þó hefði mér þótt vænt um það, hvað liði þessari upphæð, sem Seðlabankinn næði í, hvort það væri meiningin að skila henni aftur eða ekki, því að ég lit svo á, að þarna sé um að ræða — ég vil ekki kalla það þjófnað, en jafngildir því, að taka þetta af atvinnurekendunum.

Staðreyndin er sú, að þeir eru komnir með vextina upp í 12½%, ef er framlengdur víxill. Við þetta bætist stimpilgjald og þóknun, og ég hef séð hjá fyrirtæki hér í bænum, sem seldi víxil upp á eitthvað tæpar 5 millj., það var stuttur tími, að vextirnir voru 20 þús. af allri upphæðinni, svo var stimpilgjaldið eitthvað 11–12 þús., en þóknun 59 þús. Upphæðin var þreföld á við vextina. Þetta er allgóður skildingur. Það sjá allir menn, að þreföld upphæð þýðir 36%. Ef það var reiknað 12% af víxlinum, þá eru þetta 48%. Svo segja fyrirtækin mér, að þau verði að skrifa upp á þessa víxla, viðskiptavíxlana, svo hafa bankarnir þann prýðilega sið að afsegja þá á réttum tíma og færa svo hjá fyrirtækjunum eftir 1–2 daga, og þau verða að borga mánaðarvexti af þeim, reiknuð 12–18%. Með þessu öllu sé ég, að bankarnir geta farið upp í 64% með þessa stuttu víxla. Ég er nú að hugsa um að fara að setja upp einhvern banka í elli minni hér í bænum og ætla ekkert að vera verri en bankarnir hér, dunda við þetta. Samt er þessi aðdáanlega stjórn, að þeir geta ekkert eignast, þessir blessaðir bankar. Það er einhvern veginn haldið svona á hlutunum. Og Seðlabankinn, sem lánar bönkunum eigið fé fyrir 16–18%, ef þeir þurfa að fá yfirdrátt, og bindur fyrir þá 21% af fénu, hann getur ekkert grætt heldur, nema ef það er tilviljun, vegna þess að það verður einhver hagstæð gengisbreyting ytra, þannig að ég get ekki séð, að þarna sé nein sérstök búmennska á ferðinni.

Ég vænti mikils af bankamrh., af því að ég veit, að hann er gáfumaður og skilur þetta, og ég vonaðist eftir, að hann lagaði allt, sem áfátt væri. Ég er búinn að bíða í rúmlega tvö ár og hef ekki komið með nein frv. Ég var á ferðinni hér með frv. viðvíkjandi Fiskveiðasjóðnum. Það kom ósómi þangað, um leið og þessir bankahlunkar komust þar inn, en ég mun ekki fara út í það. En ég vona, að það fari nú að styttast í það, að bankamrh, fari að laga þetta eitthvað. Ég veit, að hann er sömu skoðunar og hann var, enda segist hann vera andvígur vaxtahækkuninni.

En hvernig í ósköpunum stendur á, að jafnmikill skörungur og hæstv. ráðh. er lætur kúga sig svona, að hann annaðhvort lagar þetta ekki eða segir hreinlega af sér bankamálastarfinu?

Það er ekki hægt að láta kúga sig svona. Það eru ákvæði í bankal. um það, að seðlabankastjórninni sé skylt að haga starfsemi bankans í efnahagsmálum í samræmi við vilja ríkisstj. Ég er ekki alveg viss um, nema ráðh. gæti haft svolítið meiri áhrif en þetta á vextina, ef hann beitti sér svolítið. Og nú vona ég, að hann fari að beita sér, því að sannleikurinn er sá, að með því að vera búinn að næla í þessi 10% af vörubirgðum fyrirtækja, sérstaklega iðnfyrirtækjanna, og hækka vextina, þá eru þeir alveg að kyrkja þessi fyrirtæki, og þetta hlýtur jafngáfuðum manni og iðnrh. að vera ljóst, svo að ég vona, að þeir félagar, því að við álítum þá vera einna mesta gáfumenn í þessari d. og raunar á þinginu yfirleitt, þeir fari nú að taka til höndunum og laga þessa vitleysu alla.

Ég hef víst ekki leyfi til að tala öllu meira. Ef bankamrh. ætlar ekkert að gera í þessu og fara að undirbúa eitthvað stórt nú í jólafríinu, þá ætla ég að fara af stað með eitthvað, ef ég kem á þingið í vetur, sem ekki er víst að verði, og koma þá með einhverjar ályktanir eða jafnvel lagabreytingar, þótt það væri ekki nema á Fiskveiðasjóðnum.

Það sagði mér einn skipstjórinn, vel á minnst, ég hitti hann, — ég er ræðinn og félagslyndur og tala við menn, ef ég hitti þá, — að þeir hefðu laumast til þess að færa 2½ millj. á lán sín í Fiskveiðasjóði eftir síðustu áramót, þegar þeir voru búnir að lækka gengið eða áður en þeir hækkuðu það víst, 2½ millj., sem þeir skulduðu af því fyrir gengistap. Ég ábyrgist ekkert, að þetta sé satt, en hann sagði mér þetta, og ég sagði honum, að hann skyldi stefna þeim. Hann ætlaði fyrst að reyna með góðu. En þá bætist það ofan á ef þeir taka fyrst 10% af birgðunum, skulda þá svo fyrir gengislækkuninni, hækka svo gengið aftur og færa þeim það ekki til tekna. Ég sagði bankamrh. frá þessu í gær, og hann ætlaði að fara að athuga þetta. En seint gengur honum að athuga, því að hann rændi 120 millj. af okkur með því að færa vitlaust gengistapið, — ég var útgerðarmaður hér á árunum, — og hann er ekki farinn að laga það enn. Ég vona, að hann fari nú að gera það, og ég vona, að hann láti ekki ræna þessa skipstjóra svona og skili fyrirtækjunum aftur því, sem tekið var af afurðunum um áramótin síðustu, og yfirleitt koma þessu öllu í lag. Ég held, að það sé betra en hjá þeirri vondu stjórn sem var.