18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1546 í B-deild Alþingistíðinda. (1412)

393. mál, vextir og þóknun lánastofnana

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. bankamrh. hefur svarað mörgum fsp. frá hv. þm. Birni Pálssyni. Enginn vafi er á því, að þingheimur hefur undrast, þegar hæstv. ráðh. sagði, að vaxtahækkunin hefði verið framkvæmd án hans samþykkis. Enn fremur munu hv. þm. hafa undrast, þegar sami hæstv. ráðh. sagði, að ríkisstj. eða aðrir ráðh. hefðu ekki tekið afstöðu til vaxtahækkunarinnar. Þetta er mjög ótrúlegt hvort tveggja. Ég ætla að segja það hér, að ég trúi þessu ekki. Að vísu hefur það komið fram, að aðgerðir í efnahagsmálum hafa verið mjög svo vafasamar í mörgum tilfellum. Það má vel vera, að sambandið á milli hæstv. ríkisstj. og Seðlabankans sé með þeim hætti, að ekki sé við góðu að búast. En að Seðlabankinn ákveði eins gífurlega mikla vaxtahækkun og hér er um að ræða, án þess að ríkisstj. hafi samþykkt það, það er mjög ótrúlegt. Þessi vaxtahækkun hefur mjög geigvænlegar afleiðingar fyrir atvinnuvegina í landinu, fyrir iðnaðinn, fyrir landbúnaðinn, fyrir sjávarútveginn og fyrir verslunina. Það er á orði haft nú, að allur atvinnurekstur sé rekinn með tapi, og það er háskalegt, þegar til lengdar lætur. Hæstv. ríkisstj. heldur uppi verðbólgustefnu, m. a. með því að láta vaxtahækkun koma til framkvæmda, eins og nú er, og skapa atvinnuvegunum erfiðleika með þeim hætti. Það söng öðruvísi í hæstv. núv. ráðh., þegar þeir voru í stjórnarandstöðu. Þá ætluðu þeir að auka lán, lækka vexti og draga úr kostnaði við atvinnureksturinn.