18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1548 í B-deild Alþingistíðinda. (1414)

393. mál, vextir og þóknun lánastofnana

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Hv. 1. þm. Sunnl. sagði, að hann tryði því ekki, að það væri rétt, að Seðlabankinn hefði ákveðið hækkun á vöxtunum, án þess að ríkisstj. hefði samþykkt það. Honum er óhætt að trúa því, því að þetta er staðreynd, og hann getur fengið þetta staðfest hjá þeim mönnum, sem ákváðu vaxtahækkunina, ef hann trúir mér ekki. Og hann getur líka fengið þetta staðfest af öðrum ráðh. úr ríkisstj. Seðlabankinn gerði ríkisstj. grein fyrir því, eins og ég sagði, að hann hefði ákveðið með þar til greindum rökum að hækka vextina. Ég, eins og ég sagði, lýsti yfir afstöðu minni til vaxtahækkunar. Ríkisstj. tók ekki sem slík afstöðu, vegna þess að forsrh. benti á, að það væri á valdsviði Seðlabankans að ákveða þetta.

Ég skal ekkert um það segja, ef ríkisstj. hefði tekið ákvörðun um að skora á bankastjóra Seðlabankans að hverfa frá þessari ákvörðun, hvað hefði verið gert. Það er allt annað mál. Þannig hefur málið ekki legið fyrir.

Það fer ekkert á milli mála og á ekki að þurfa að kenna mönnum um það hér og allra síst þeim, sem sátu í fyrrv. ríkisstj., hvaða kenningar hafa verið uppi, m. a. hjá bankastjórum Seðlabankans og mörgum öðrum, hvað hækkun vaxta ætti að þýða í efnahagskerfinu. Það hafa verið færð fram mörg og mikil rök fyrir því, að slíkt hefði afskaplega heilbrigð áhrif við aðstæður, eins og þær, sem við búum nú við. Ég hef ekki trúað á þessi rök og trúi þeim ekki enn. Ég vil hins vegar benda á það, að ríkisstj. beitti sér fyrir því með sérstökum tilmælum, sumpart til Seðlabankans og annarra aðila, að vextir á afurðalánum voru lækkaðir frá því, sem áður hafði verið. Þetta var framkvæmt. Hún beitti sér einnig fyrir því, að vextir á stofnlánum til atvinnuveganna voru lækkaðir. Þetta var líka framkvæmt. Hins vegar hefur það svo gerst, að sumir af stofnlánasjóðunum eins og t. d. Stofnlánadeild landbúnaðarins, hafa sjálfir tekið ákvörðun um að hækka stofnlánavextina aftur. Mér er líka vel kunnugt um það, að stjórnendur Fiskveiðasjóðs vilja gjarnan hækka stofnlánavextina þar aftur. Ég hef hins vegar neitað að fallast á það fyrir mitt leyti. Og því stendur enn sú lækkun, sem ákveðin var á stofnlánavöxtum í Fiskveiðasjóði.

Það er því algerlega rangt, sem hv. þm. Jón Árnason sagði, að sjávarútvegurinn hafi aldrei borgað hærri vexti en hann gerir í dag. Það er alrangt. Vextirnir eru mun lægri nú af stofnlánum sjávarútvegsins en áður var. Þeir eru líka lægri nú en áður var af afurðalánum. Hitt er rétt, að það hefur verið framkvæmd hér almenn vaxtahækkun.

Svo vil ég aðeins svara hv. fyrirspyrjanda, Birni Pálssyni, hvað hefði verið gert við það fé, sem Seðlabankinn, eins og þar var talað um, hefði tekið af ýmsum afurðum í sembandi við gengislækkunina. Það á að liggja alveg ljóst fyrir. Við gengislækkun þá, sem ákveðin var í des. 1972, kom fram á þeim birgðum, sem lágu fyrir í landinu, talsverður gengishagnaður. Og það var ákveðið í l., að þeim gengishagnaði, sem til féll vegna birgða af sjávarafurðum, yrði öllum ráðstafað aftur til sjávarútvegsins. Þetta hefur sumpart verið gert og sumpart verið unnið að því að fá fram tillögur fulltrúa stærstu sjávarútvegssamtaka í landinu, og er enginn ágreiningur um, að þeim afgangi sem enn er ekki búið að skipta niður á milli aðila í sjávarútvegi, verði öllum skipt til sjávarútvegsins. Alþingi hins vegar hefur tekið þann gengishagnað, sem kom af iðnaðarvörum, og ráðstafað honum sérstaklega til uppbyggingar á sérstökum sjóði fyrir iðnaðinn í landinu. (Gripið inn í: Hvað heitir sá sjóður?) Ég þekki það nú varla, en Iðnrekstrarsjóður mun hann heita. En sem sagt Seðlabankinn fær ekki þetta fé. Það, sem kom frá sjávarútveginum, rennur til hans aftur, hefur sumpart gert það. Því, sem kom frá iðnaðinum, hefur Alþingi ráðstafað í sérstakan sjóð vegna iðnaðarins.