18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1557 í B-deild Alþingistíðinda. (1428)

398. mál, framkvæmd sveitarafvæðingar á Austurlandi 1973

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin. Ég mun ekki ræða þau neitt frekar hér, enda tjóar lítið að sakast um orðinn hlut. Ég vil þó benda á, að tafir þær, sem orðið hafa, stafa áreiðanlega að hluta af því, að ákvarðanir eru teknar nokkuð seint og efni sennilega pantað of seint. Þetta minnir á það, sem oft hefur gerst hér, að þannig hefur þetta viljað ganga til um ýmsar opinberar framkvæmdir. Þetta eru kunnir ágallar á okkar kerfi. Ég vil leyfa mér að minna aðeins á þetta. Jafnframt minni ég á það, að nú er það í fyrsta skipti, að framkvæmdaáætlun ríkisins er felld inn í fjárl. og verður væntanlega afgreidd fyrir áramót, að það ætti að gefast nú fremur en áður, tækifæri til að ráða bót á ágöllum af þessu tagi. En vafalaust kemur hér fleira til.

Ég vil leyfa mér að treysta því, að hæstv. ráðh. og ríkisstj. geri það, sem í þeirra valdi stendur, til að greiða fyrir þessum framkvæmdum og vinna upp þá töf, sem orðið hefur, þannig að hægt verði að standa við þriggja ára áætlunina á eðlilegum tíma, um leið og undirbúnar eru ráðstafanir vegna þeirra bæja, sem eftir eru, en það hefur áður komið fram hér á hv. Alþ., að að því er nú unnið á vegum ríkisstj.