18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1559 í B-deild Alþingistíðinda. (1431)

156. mál, línusvæði fyrir Vestfjörðum

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Svar mitt við þessari fsp. er, að það er hægt að ákveða slíkt svæði úti fyrir Vestfjörðum. En til þess eð það verði gert, tel ég nauðsynlegt, að um það berist til sjútvrn. beiðnir að heiman með grg. um, hvaða svæði er um að ræða og um hvaða tíma er að ræða, sem svæði eigi sérstaklega að marka fyrir línuveiðar. Það hefur verið gert að marka slík línuveiðisvæði hér við Suðvesturland, og það er vissulega hægt að gera það úti fyrir Vestfjörðum líka. En ég legg áherslu á, að það þarf að koma frá heimaaðilum og helst að skapast nokkuð sterk samstaða um, hvaða svæði er um að ræða og hvaða tímabil. Mundi sjútvrn, vinna að því, að reglugerð yrði sett um sérstakt línuveiðisvæði úti fyrir Vestfjörðum, ef beiðni kæmi fram um það.