18.12.1973
Sameinað þing: 38. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1559 í B-deild Alþingistíðinda. (1433)

156. mál, línusvæði fyrir Vestfjörðum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég er satt að segja hálfundrandi á þessari fsp. hv. 1. þm. Vestf. Þetta er mál, sem honum var gjörla kunnugt. Þessi spurning var borin fram við sjútvrh. á fundi Fiskveiðilaganefndar, sem við áttum báðir sæti í, og hann lýsti því yfir þar, eins og hann gerði nú, að þetta væri framkvæmanlegt, og þurfti því enga fsp. hér á hv. Alþ. til þess. Ég vissi, að þetta var framkvæmanlegt og er. En það er svo sem út af fyrir sig ágætt, að það upplýsist hér á hv. Alþ., en þetta vissi hv. þm. og þurfti ekki að spyrja.

Ég tek undir það, að ég tel mjög æskilegt, að þessi tilraun væri gerð. Ég er ekki viss um, að menn séu kannske almennt sammála um það á Vestfjörðum. En ég tel, að það sé sjálfsagt að gera tilraun með það og láta á það reyna.