18.12.1973
Efri deild: 44. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1560 í B-deild Alþingistíðinda. (1435)

159. mál, Seðlabanki Íslands

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Frv. þetta hefur tekið nokkurri breytingu í Nd. Það hefur verið bætt inn í frv. nýrri gr. um mjög svo annað atriði en það, sem frv. raunverulega fjallaði um, en eins og sjá má, er 2. gr. frv. nú svo hljóðandi:

„Allar meiri háttar framkvæmdir á vegum bankans eru háðar sérstöku samþykki beggja, ráðh. og bankaráðs:

Út af fyrir sig hef ég ekkert við þessa breytingu að athuga sem slíka, en ég hefði talið rétt, að hún hefði fylgt öðrum breyt. á l. um Seðlabankann, sem augljóslega þarf að gera. Hún á lítið skylt við það málefni, sem þetta frv. fjallaði um. Aðalatriðið er þó, að þetta frv. nái fram að ganga fyrir áramót, því að nái frv. ekki fram að ganga, ber skylda til að lækka gengi krónunnar um áramót, nokkurn veginn niður á það stig, sem var eftir síðustu gengislækkun. Færi þá málið að verða alleinkennilegt fyrir þann, sem flutti þessa brtt. í Nd., ef hann væri búinn að ná því fram, að gengi kr. yrði nú lækkað niður í það, sem hann þurfti að yfirgefa flokk sinn út af á sínum tíma.

Aðalatriðið er, að sú heimild fáist samþ. fyrir áramót, sem felst í 1. gr. frv.

Ég fyrir mitt leyti mæli eindregið með því, að frv. verði samþ. óbreytt. En sýnist hv. d. rétt að fella það út úr frv., sem sett var inn í það í Nd., og senda það enn á ný til Nd. til athugunar, þá er verið að stofna málinu í hættu. Ég fyrir mitt leyti mæli því með því við hv. d., að hún sjái sér fært að samþ. frv. í þeim búningi, sem það er, þó að þarna hafi verið skotið inn í málið mjög svo óskyldu atriði varðandi löggjöf Seðlabankans.