18.12.1973
Efri deild: 44. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1560 í B-deild Alþingistíðinda. (1436)

159. mál, Seðlabanki Íslands

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég get verið hæstv. ráðh. sammála um það, að Nd. hefur skotið inn í þetta frv. allsendis óskyldu atriði, sem að minni hyggju er óeðlilegt að fylgi efni þess frv., sem hér er um að ræða. Það er að vísu umdeilt atriði, hvert valdsvið viðskmrh. sem bankamrh. er að þessu leyti, en ég vek athygli hv. þd. á því, að bankaráð er þingkjörið, og það sýnist vera eðlilegt, að samstaða sé á milli þingkjörins bankaráðs og ráðh. í þingræðisstjórn, þannig að hvor um sig ætti að geta haft samvinnu sín á milli, og ágreiningur þar ekki að geta komið upp í veigameiri málum. Ef svo er, þá er alla vega ekki efni til þess af þingi að takmarka valdsvið þingkjörins bankaráðs, og það verður þá að ráðast, hvert valdsvið ráðherra er, eða áhrifamáttur hans, þannig að ég tel rétt að færa frv. í upphaflegt form, en tek fram, að ég er samþykkur aðalefnisinnihaldi frv.