18.12.1973
Efri deild: 44. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1570 í B-deild Alþingistíðinda. (1447)

152. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Eins og frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. hefur tekið fram, er enginn ágreiningur í n. um höfuðefni þessa frv., þ. e. a. s. þann tilgang, sem því er ætlað að þjóna, þannig að ástæðan til þess, að við fulltrúar Sjálfstfl. og Alþfl. í n. skilum séráliti, er ekki ágreiningur um kjarna málsins að þessu leyti til. Það eru hins vegar tvö atriði, sem valda því, að við höfum gert ágreining varðandi mál þetta og skilum séráliti. Það er annars vegar meðferð málsins og framkoma hæstv. ríkisstj, gagnvart Alþ., í sambandi við þetta frv. og hins vegar sú furðulega till., sem hér er flutt af hálfu meiri hl. n., um að breyta söluskattsl. með tollskrárl., sem segja má, að sýni, — það er kannske lofsvert út af fyrir sig, — að hugmyndaflugi hæstv. ríkisstj. séu lítil takmörk sett, þegar hún þarf að koma einhverju fram, og skal ég nánar víkja að því síðar.

Frv. þetta var lagt fram í þessari hv. d. fyrir fáeinum dögum eða nánar tiltekið 10. des. Og það er dálítið merkilegt, að frv. um tollskrárbreytingu hliðstæða þessari, þótt í víðtækari mæli væri, sem lagt var fram af fyrrv. ríkisstj., var einnig lagt fram 10. des. 1969, þannig að það er út af fyrir sig ekki nýtt, að þetta mál sé til meðferðar í des. En það, sem gerir allan gæfumun í framferði núv. og fyrrv. ríkisstj., er, að þess er nú krafist, að Alþ. afgreiði tollskrána fyrir jól, sem sagt á örfáum dögum, en frv., sem lagt var fram 10. des. 1969, var endanlega afgreitt frá Alþ. 30. jan. 1970, þannig að hér er að sjálfsögðu um þann reginmun að ræða, að með þeirri meðferð, sem þá var í málinu höfð, gafst þm. og samtökum, sem þetta mál varða, nægilegur kostur á því og tækifæri að skoða frv, og koma þar fram sínum sjónarmiðum, en voru ekki settir andspænis því, eins og við höfum leyft okkur að segja í nál., að verða nánast að samþykkja málið blindandi, þar sem þess er enginn kostur á svo stuttum tíma að gera á því nokkra efnisathugun.

Það þarf ekki að lýsa því fyrir hv. dm., að þetta er ein flóknasta og vandasamasta löggjöf, sem við búum við, og það að hagga einu atriði í henni getur leitt til mikils ósamræmis og vandræða, og þarf því nákvæmrar skoðunar við, þannig að með þessum hætti, sem hér er á hafður, er enginn kostur gefinn þess að skoða málið, og þær till., sem hér komu fram og hv. frsm. meiri hl. gat um, voru nánast eftirlegukindur, sumt frá rn., og svo örfáir till., sem ýmis samtök höfðu sent inn í sambandi við frv., eftir skjótan yfirlestur. En það er að sjálfsögðu ógerlegt fyrir alla þessa aðila, utan þings og innan, að gera sér nokkra grein fyrir málinu á svo skömmum tíma. En hvað sem þessu líður, sem má undarlegt heita og furðulegt, þá minnir það mig á, — ég hef leyft mér að gera þann samanburð, — að 900 ára afmæli Skálholtsstaðar bar svo brátt að einu sinni, þegar afmælið var, að það varð að vinna nætur og daga í næstum viku fyrir afmælið, vegna þess að menn vissu ekki fyrr en skyndilega, að þessi atburður stæði til! Það er nánast svipað með þetta frv., sem er með þessum fádæmum og flumbruhætti komið inn í þingið. Það var vitað um tollskrána, þegar hún var samþ. í jan. 1970, að innan fjögurra ára yrði, til þess að fullnægja samningunum við EFTA, að undirbúa nýjar breyt., því að þá átti að hefja á ný lækkun tolla. Það var fyrst fjögurra ára frestur veittur, aðlögunarfrestur, í samræmi við þá breytingu, sem þá var gerð um 30% lækkun tollanna, og síðan frá 1, jan. 1974 áttu tollar að lækka smám saman um 10% á ári.

Þetta mál hefur borið svo bráðan að hjá hæstv. ríkisstj. og virðist hafa komið henni svo gersamlega á óvart, að það er fyrst í ágústmánuði í sumar, að því er upplýst er af embættismönnum, sem mættu hjá n., að hæstv. fjmrh. kemur auga á, að það þurfi að breyta tollskránni, þessu geysilega plaggi. Ég veit, að það eru mjög mætir menn, sem að hafa unnið, og hinir færustu menn, svo að ég er ekki að lasta þá. En þó að þeir hefðu unnið nánast nótt og dag, þá er það með fágætum, að þeir skuli hafa getað komið þessu plaggi frá sér á svo skömmum tíma. Þetta sýnir auðvitað, hvaða sleifaralag er á vinnubrögðum hjá hæstv. ríkisstj. og að ætla svo þinginu að gleypa þetta allt saman á nokkrum dögum. Það er þó kannske ekki nema í samræmi við öll vinnubrögð önnur, sem ég hef hér lýst.

Engu að síður teljum við fulltrúar minni hl. n. svo miklu varða, að þetta mál nái fram að ganga, enda er hér um samningslegar skuldbindingar að ræða að nokkru leyti og hinu leyti leiðréttingar gagnvart iðnaðinum, sem nauðsynlegt er að gera, að við viljum stuðla að því, að þetta mál nái fram að ganga, eins og það liggur fyrir, og með þeim breytingum, sem hv. n. hefur orðið sammála um að flytja varðandi frv.

Ég vil sérstaklega láta það koma fram, og það getur orðið tilefni nokkurra hugleiðinga fyrir hv. frsm. meiri hl. n., sem var að vitna í skoðanabreytingar hjá sumum hér í þessari hv. d. Hann þrengdi svo hringinn, að þessir sumir gátu varla verið nema einn, þegar upp var staðið frá orðaleik hans í þessu efni. Ég held, að ég verði að taka það til mín, bar sem hann lýsti furðu yfir því, að viðkomandi hefði breytt skoðun á þeim 4 árum, sem liðin eru síðan tollskránni var breytt og samningur við EFTA gerður, varðandi tekjuöflun. Það getur vel verið, ég skal ekki segja um það. Ég hef ekki efnislega breytt um skoðun og skal koma að því síðar.

En mér finnst annað mjög lofsvert, og það er, að þessi hv. þm. og hans flokkur hefur breytt um skoðun í grundvallaratriðum. Í fyrsta lagi var flokkur hans mjög andvígur, — ég held, að hann hafi heitið Alþb. þá eins og núna, maður veit það ekki, hann skiptir svo oft um nafn, mjög andvígur því að gerast aðili að þessum bandalögum, ég tala nú ekki um EBE, og það er mál út af fyrir sig að lesa grg. í EBE-samkomulaginu. En ég skal ekki fara að gera það hér, því að ég ætla ekki að lengja umr. um málið. Ég held, að hann ætti að lesa grg., sem fylgir þessari tollskrá, vendilega, ef hann hefur ekki þegar lært þann boðskap, sem þar er að finna. Hann er mjög merkilegur, sá boðskapur, og ég held, að hann hefði gott af því að fletta upp í gömlum ræðum, — ég veit nú ekki, hvort það eru hans eigin ræður, en hans flokksleiðtoga að öðru leyti, — varðandi skoðanir þeirra á tollum og hvaða leiðir eigi að fara til að afla tekna, skoðanir þeirra t. d. á hátollum, lúxusvörutollum og ýmsu slíku, og bera það saman við grg., sem fylgir þessu frv. Ég held, að ég geti skrifað undir þessa grg. frá orði til orðs, eins og hún er. Hún er skynsamlega samin og hefur sýnilega verið tekin saman af mjög glöggum mönnum, sem gera sér fullkomlega grein fyrir því, að það þurfti á sínum tíma, eins og gert var 1970, að breyta um tollastefnu og hverfa frá hátollastefnunni, lúxusvörustefnunni, sem þá var kölluð. Það, sem er að finna í skýringunum um fjáröflunartollana, er mjög lærdómsríkt fyrir okkur öll. og það gleður mig, að stjórnarsinnar skuli vera komnir á þessar skoðanir, og ég held, að það væri ekkert síður vert fyrir þá að lesa þessa grg. og skýringu tollafræðinganna en hvetja okkur til þess að lesa Ólafskver, sem einhvern tíma var gert, kvölds og morgna. En þetta er mjög mikið fagnaðarefni, og það gleður mig sérstaklega að sjá þessar kenningar hjá núv. stjórnarflokkum. Ég skal ekkert segja um það, hvort hæstv. fjmrh. hefur nokkuð breytt um skoðun í því efni, ég hygg, að hann hafi haft þessa skoðun áður, svo að ég er ekki að víkja því til hans, en af því að hv. frsm. meiri hl. var að tala um skoðanaskipti, þá finnst mér rétt að benda á þetta. Hans skoðanaskipti eru mjög ánægjuleg. Hann harmaði mín skoðanaskipti, en ég gleðst yfir skoðanaskiptum hans.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta, en víkja að hinu atriðinu. Ég verð að segja, að það eru þolinmóðir menn í þessari hv. d., eins og ég skaut að hæstv. fjmrh., þegar ég gekk hér upp áðan. En allri þolinmæði eru takmörk sett. Látum vera að ætla okkur að samþykkja tollskrána, sem við vitum að er mikið og gott mál, þótt við getum ekki skoðað svo að segja einn staf í henni og verðum að gleypa frv. í trausti þess, að þar hafi góðir embættismenn að unnið, en að leyfa sér að setja í grg. slíkar hótanir sem er að finna í grg, um áhrif þessa frv. á tekjuöflun ríkissjóðs, það hygg ég, að sé einstætt í þingsögunni, þar sem segir, að því verði að líta á samþykkt þessa frv. sem skuldbindingu um hækkun söluskatts sem nemur a. m. k, einu söluskattsstigi. Ég skal játa, að ég hef kannske stundum verið ósvífinn í minni fjmrh.- tíð, en ég held, að ég hafi aldrei sett svona setningu í frv., því að þetta er með þeim endemum, vitandi það, að frv. sjálft hefur almennan stuðning, en það má segja, að menn verði að skuldbinda sig til þess að framfylgja hugdettu hæstv. ríkisstj. um það, hvaða leið verði farin til að vega upp á móti þessum tekjumissi. Ég játa fúslega, að það verður að bæta tekjumissi og hafa hallalaus fjárlög, og það væri betur, að hæstv. fjmrh. hugsaði oftar um það en hann gerir, a. m. k. í reynd, en að ætla stjórnarandstöðu að skuldbinda sig til að fara ákveðna leið í tekjuöflun til að standa undir útgjöldum af frv., sem ríkisstj. leggur fram sjálf og stjórnarandstaðan vill gjarnan fylgja, það finnst mér með fádæmum. Ég held a. m. k., að það sé ekki að finna í ræðum þeim, sem ég flutti, þegar rætt var um tekjuöflun í sambandi við lækkun tollanna 1970, að það væri skuldbinding fyrir þá, sem vildu greiða þessu frv. atkv., og raunverulega væru stjórnarandstæðingar skyldugir til þess að greiða fyrir því, að söluskattur næði fram að ganga. Mér þætti gaman að fá einhverjar ábendingar um, hvar slíka hugdettu væri að finna. Ég held, að þetta sé einhver frumlegasta og um leið einhver ósvífnasta krafa, sem gerð hefur verið til stjórnarandstöðuflokka á Alþ. Það skyldi ekki vera vegna þess, að stjórnin hefur ekki lengur meiri hluta á þingi, fyrir þessu máli a. m. k.? Ég veit það ekki. En manni kynni að detta í hug, að það væri af þeirri ástæðu. En hugarfarið er það sama engu að síður og ósvífnin sú sama. Hitt er svo annað mál. svo að ég skjóti því til hv. formanns fjh.- og viðskn., að það er líka merkilegt, að það skuli allt í einu vera orðið trúaratriði hjá þeim Alþb.- mönnum, að söluskattur sé lausn á öllum vanda. Einhvern tíma var nú sagt, að það væri ekki ákaflega góður skattur, söluskattur, og ekki góður fyrir alþýðu manna. En nú er hann orðinn harla góður. En látum það vera. Ekki skal ég andmæla því heldur, þannig að út af fyrir sig er sú hugmynd merkileg og lærdómsrík, og verður munað eftir því. En að hv. frsm. meiri hl. skuli orða það svo, að þetta virðist svo sjálfsagt, að varla taki að ræða það, að við allir þm. úr stjórnarandstöðunni séum skuldbundnir til að hækka söluskattinn — (RA: Afla tekna, sagði ég.) Erum við skuldbundnir til þess að afla tekna? (RA: Já.) Verður ekki ríkisstj. að afla tekna fyrir þeim málum, sem háun er að beita sér fyrir? Ef ríkisstj. hefur ekki fylgi til þess á Alþ., á hún að fara frá. Það er sú eina ályktun, sem verður dregin af því. Og það að fara að breyta söluskattslögum með tollskrárlögum er svo dæmalaust og fáránlegt, að það tekur engu tali, og þarf ekki að lýsa því. Ég held, að það taki varla að ræða það og að það sé eitthvert óskiljanlegt ábyrgðarleysi að samþykkja ekki nýjan tekjustofn. Þetta er alveg fáránleg fullyrðing, — ríkisstj. hlýtur að hafa í hendi sinni, hvaða leið hún fer í þessu, — að okkur leyfist ekki að mótmæla því, að þessi leið sé farin til þess að jafna þetta tekjutap. Það er fjarri öllu lagi, að stjórnarandstaða beri nokkra slíka ábyrgð til tekjuöflunar.

Við erum samþykkir frv., við ætlum að beygja okkur fyrir þeim óhæfilegu vinnubrögðum, sem hér hafa verið viðhöfð, fullkomlega að ástæðulausu, og ætlum að afgreiða frv. á örfáum dögum. En hitt frábið ég mér og okkur öllum hér í stjórnarandstöðunni, að vera skyldugir til að hjálpa ríkisstj. til að koma í gegn einhverjum skatti, sem hún hefur ekki lengur fylgi fyrir í sínu eigin stuðningsliði til að koma í gegn. Það frábið ég okkur algerlega. Ég skal játa, að það er áreiðanlega hægt að finna í ræðum mínum frá 1969 og 1970, þegar ég ræddi um tollskrána, að það hafi verið geymt þá og ekki verið hækkaður söluskattur um 5 ára skeið með það í huga, að það hlyti að koma að því, að við mundum tengjast efnahagsbandalögum með einhverjum hætti og þá væri nauðsynlegt að hafa einhvern tekjustofn, sem nauðsynlegt væri að velja í stað aðflutningsgjaldanna. Þetta er alveg rétt, ég skal ekki neita þessu. Þarna var um að ræða 30% lækkun á tollum, sem var gerð í einu stökki og hafði að sjálfsögðu í för með sér heilmikið tekjutap. Og ég er ekki að segja, að það geti ekki komið til greina með einhverjum hætti að hækka söluskatt. En þetta eru engin rök til þess að hækka söluskattinn, og þessi vinnubrögð til þess að hækka söluskattinn eru forkastanleg með öllu. Það þarf þá a. m. k. að fara venjulegar leiðir og breyta eðlilega þeim lögum, sem um hann gilda. Það hefði ekki átt að taka lengri tíma að fá það fram og flytja það frv. hér en að leggja fram tollskrána, þannig að það er eitthvað skrýtið, sem liggur þar að baki.

Það er sagt, að þetta sé ofboðslegur tekjumissir fyrir ríkissjóð. Ja, ofboðslegur? Ég veit ekki, hvað segja skal. Sannast sagna eru menn hættir að tala hér í milljónum, þeir tala í milljörðum. Einhvern tíma var sagt af góðum manni, að milljónin væri ekki neitt. En hvað er milljón núna? Það liggur við, að milljarður sé sáralítið, þegar er verið að ræða fjárlög hæstv. núv. ríkisstj., stökkin eru svo stórkostleg. En í 30 milljarða fjárl. skiptir sköpum, að hæstv. fjmrh. fái 1% hækkun söluskatts. Það er auðvitað allt of fjarstætt til þess að leggja við því eyra. Við höfum í grg. minni hl., sem ég ætla ekki að fara að lesa hér upp, bent á það, hvað aðflutningsgjöld hafa hækkað ofsalega, og meira að segja er það talið mögulegt núna, frá því að fjárlfrv. var lagt fyrir þingið í haust, að hækka áætlaðar tekjur af aðflutningsgjöldum um einn milljarð, þrátt fyrir þá niðurfellingu og lækkun aðflutningsgjalda, sem hér er um að ræða. Það er talað um, að þetta sé samtals rúmar 600 millj., 200 millj, voru þegar inni í fjárlagafrv., þannig, að hér eru það 400 millj., sem allt snýst um, sem er þó alger áætlunartala. Dettur nokkrum manni í hug, að þessar tekjur af aðflutningsgjöldum verði ekki enn meiri en þessi hækkunum einn milljarð, sem nú er allt í einu bætt inn við 3. umr. fjárl., að það eigi ekki enn eftir að hækka á næsta ári? Við sjáum a. m. k. ekki bóla á neinum ráðstöfunum til að koma í veg fyrir það, að efnahagskerfið þrútni þannig út og hækkanir verði slíkar og aukning á kaupgetu, að það séu líkur til þess, að stóraukning verði enn á innflutningi umfram þá áætlun, sem hagrannsóknadeildin gerir núna. Mér er vel kunnugt um, að hagrannsóknadeildin áætlar alltaf varlega, og ég trúi vel tölum hennar. En þær eru alltaf í lægri kanti, og það er hyggilegt út af fyrir sig. En 400 millj. kr. í því dæmi eru auðvitað algerir smámunir, þannig að þessi vinnubrögð sem ofbjóða öllum eðlilegum — ég vil segja: mannasiðum gagnvart Alþ., eru með öllu óverjandi að þessu leyti, og ég harma það, að jafn mætur maður og hæstv. fjmrh. skuli setja þetta minnismerki um sig í þingsöguna. Ég harma það mjög og einlæglega og vonast sannast sagna til, að hann afturkalli þessa till. Það væri honum til langmestrar sæmdar. Þá getur þetta frv. flogið í gegn á örskömmum tíma, og hæstv. iðnrh. yrði áreiðanlega manna glaðastur, ef það væri afgreitt héðan úr þinginu með sem skjótustum hætti, ég efast ekkert um það. Hann hefur áhuga á því. Og við ætlum ekki að setja fótinn fyrir áhuga hans í þessu máli, þó að við leyfum okkur að snúast gegn þessu hugarfóstri hæstv. fjmrh., sem sýnir, að hann er að vissu leyti hugmyndaríkur. En þetta er hugmynd, sem ekki borgar sig, og hann ætti að beita sér á öðrum sviðum. Ég veit nefnilega, að þessi hugmynd bendir til þess, að hann er ekki í nokkrum vanda með að fá þessa peninga með öðrum hætti, og ég gæti stungið því að honum, ef hann vill, ef hann hefur ekki vitað um það, hvernig hann á að fá þessa peninga. (Gripið fram í.) Hirði það í annað, já. Það skyldi þá vera, að það væru einhver göt á fjárl. eftir allt saman. Vantar kannske eitthvað meira? Vantar kannske að áætla fyrir launahækkun opinberra starfsmanna eða eitthvað slíkt eða hækkun kaupgjaldsvísitölunnar, sem verður 1, mars, ef ekkert gerist, og einhverjum svona smámunum? En ætli það séu ekki hærri tölur en þessar 400 millj., sem við ræðum og allt á að setja á annan endann út af?

Ég skal ekki orðlengja frekar um þetta. Ég er persónulega til viðtals við hæstv. ráðh. um að benda honum á, hvernig hægt er að forðast að vera með þetta — ég vil nú leyfa mér að segja svo ljótt orð: tuddabragð, sem hér er viðhaft, sem eru honum ákaflega ólík.

Ég vil að lokum vonast til þess, að hann hætti við þetta, af því að ég trúi honum til þess að hugsa skynsamlega í þessu efni. Jafnframt óska ég hv. formanni n. og frsm. til hamingju með þau sinnaskipti og skoðanaskipti, sem hafa orðið hjá honum varðandi viðhorf til tollamála. Það er mjög gleðilegt, og ég vona, að við verðum varir við það í framtiðinni, einnig eftir að flokkur hans er farinn úr ríkisstj., sem vonandi verður innan ekki langs tíma.