29.10.1973
Neðri deild: 7. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

28. mál, ábúðarlög

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. á þskj. 29 er frv. til ábúðarlaga, en það er samið af n., sem sett var á laggirnar hinn 18. ágúst 1971 samkv. till. og ósk Búnaðarfélags Íslands. Þessi n. samdi einnig frv. til jarðalaga, sem liggur fyrir hv. Alþ. nú. Þetta frv. var lagt fram í lok síðasta þings, en þá aðeins til sýnis, svo að hv. þm. gæfist tími til þess að skoða þau ákvæði, sem þeir höfðu áhuga á í þessu frv.

Í gildi eru nú fern lög um ábúð jarða. Eiga þau við eftir því, hvenær ábúð hefst, þ. e. lög nr. 1 frá 1884, lög nr. 87 frá 1933, lög nr. 8 frá 1951 og lög nr. 36 frá 1961. Þessi mörgu lög hafa oft valdið misskilningi, því að verulegur efnismunur er t. d. á milli l. frá árinu 1884 og síðari laga. Í lagafrv. þessu er leitast við að stytta og samræma löggjöf um ábúð jarða meira því, sem eðlilegt er í samskiptum manna í dag.

Ýmsar hæpnar skyldur, sem eru í eldri löggjöf, eru felldar niður, svo sem sú, að jarðeigandi sé skyldugur að selja jörð sína viðkomandi sveitarstjórn eða Landnámi ríkisins, hafi honum ekki tekist að byggja jörð sína þrátt fyrir tilraunir til þess. Samkv. núgildandi ábúðarl. er skylt að byggja jarðir lífstíðarleigutaka og láta fylgja þeim viðunandi húsakost. Jarðeiganda er skylt að byggja hús á leigujörð sinni handa leiguliða, teljist hús óviðunandi. Þetta ákvæði í l. hefur oft valdið deilum og hefur verið erfitt í framkvæmd, þegar um lífstíðarábúð hefur verið að ræða.

Í þessu frv. eru verulegar efnisbreytingar varðandi þetta atriði. Þannig er samningsaðilum nú frjálst að semja um tímalengd ábúðarsamnings að öðru en því, að hann skal skemmst vera gerður til 5 ára. Samkv. frv. er jarðareiganda, sem leigir jörð sína til lífstíðarleigutaka, ekki skylt að láta önnur hús fylgja en þau, sem eru við upphaf leigutíma, og eiganda er ekki skylt að leggja til aukinn húsakost, þótt þörf væri á, gagnstætt því, sem nú er, því að telja verður eðlilegt, að sá ábúandi, sem fær jörð sína leigða til lífstíðar eða á erfðaábúð, komi sjálfur upp þeim húsakosti, sem hann telur sig þurfa. Sé jörð hins vegar leigð ákveðið tímabil. er jarðareiganda skylt, eins og nú er, að láta jörðinni fylgja nauðsynlegan húsakost.

Þegar leiguliði hættir ábúð á jörð, er eigandi samkv. gildandi l. skyldugur að greiða andvirði eigna fráfarandi á 4 árum. Augljóst er, að slíkt getur orðið í hæsta máta erfitt 3 fasteignaviðskiptum í dag, en algengt er, að hluti kaupverðs fasteigna er lánaður til 10–15 ára. Samkv. frv. getur eigandi verið í 8 ár að greiða eignir fráfaranda, sé ekki samið um annað.

Ýmis önnur minni háttar atriði eru í frv., sem breytt er frá því, sem nú er í l., auk þess, sem l. eru stytt verulega og reynt að gera þau skipulegri en nú er.

Þá er í frv. kafli um erfðaábúð. Um hana eru nú sérstök lög, nr. 102 frá 1962. Við endurskoðun á l. um ábúð jarða og erfðaábúð og um jarðeignasjóð og fleiri l. varðandi bújarðir og landbúnað var ákveðið að fella lög um þessi málefni í tvo lagabálka, ábúðalög og jarðalög. Rétt þótti að taka lög um erfðaábúð með í þetta lagafrv. Ekki er um neinar verulegar breytingar að ræða í l. um erfðaábúð frá gildandi l. Þó má geta þess, að í frv. er fellt niður, að skilgetin börn hafi rétt umfram óskilgetin, eins og nú er, þannig að réttarstaða skilgetinna og óskilgetinna barna verði að þessu leyti framvegis hin sama.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að skýra þetta lagafrv. frekar, en legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. landbn. og 2. umr.